Lífið Þórey

Úr snyrtingunni í ísinn… stundum eru breytingar nauðsynlegar!

Ég ætla að koma mér beint að efninu… í vor bauðst mér vinna. Algjörlega óvænt og starfið sem mér bauðst er mjög langt frá því að vera líkt því sem ég starfaði við og er menntuð í.

Árið 2004 varð ég förðunarfræðingur, árið 2006 varð ég naglafræðingur og árið 2011 útskrifaðist ég úr snyrtifræði frá Snyrtiskólanum í Kópavogi og lauk síðan sveinsprófinu (loksins) árið 2016. Þannig að ég hef starfað í snyrtibransanum ef svo má segja í mörg ár. Hef rekið mína eigin snyrtistofu, vann svo á Lipurtá í Hafnarfirði og færði mig svo aftur í að vinna sjálfstætt við snyrtinguna síðastliðin áramót.

Ég hef alltaf elskað vinnuna mína og finnst fátt skemmtilegra en að vinna sem snyrtifræðingur!

En hvert er svo starfið sem mér bauðst? Ákvað ég að taka U-beygju í lífinu og breyta?

Starfið sem mér bauðst er að taka við sem verslunarstjóri í Ísbúð Vesturbæjar í Hafnarfirðinum. Ég hélt fyrst að þetta væri djók, í alvöru þá hélt ég að þetta væri djók, en svo hélt samtalið áfram og ég hugsaði bara: “nei hann er ekkert að grínast, hann er í alvöru að bjóða mér þessa vinnu!”

isbud-vesturbaejar

Og hvað gerir maður þegar maður fær svona atvinnutilboð en elskar samt vinnuna sem maður er í?

Það sem ég gerði var einfaldlega það að ég skrifaði lista sem ég skipti í tvo dálka, kostir & gallar. Ég byrjaði á því að skrifa niður kosti og galla við báðar vinnurnar. Í hreinskilni sagt þá var ég alls ekki sannfærð um að það væri rétt hjá mér að fara að skipta um vinnu.

Svo ég bjó til annan lista, sem var enn einfaldari. Skrifaði niður vinnutíma & laun. Þegar ég var komin í þann lista þá var þetta ekki spurning. Ég ákvað að kýla á þetta og breyta til.

Gerði ég það bara fyrir hærri laun? Nei alls ekki, ástæðan var í raun mjög einföld þegar uppi var staðið. Ég væri að fara í mun “mömmuvænna” starf, miklu þægilegri og sveigjanlegri vinnutíma og jú auðvitað er rúsínan í pylsuendanum að ég er í raun að fá mjög góð laun miðað við hina vinnuna mína. Ég þyrfti ekki að streða jafn mikið til þess að fá útborgað. Það er ekkert grín að vinna sem snyrtifræðingur, það getur tekið á bæði líkamlega og andlega, en það er nú alveg efni í aðra bloggfærslu hehe.

Gullin mín sem eru mikilvægari en allt

Gullin mín sem eru mikilvægari en allt

 

En ég tók þá ákvörðun að leggja “snyrtiskóna” á hilluna… í bili allavega:) Mér fannst kominn tími á aðeins auðveldara líf og geta verið betri mamma og einfaldlega hugsað betur um sjálfa mig. Ég sá alveg fyrir mér að ég yrði orkumeiri eftir daginn og hefði hreinlega mikið meira til þess að gefa af mér eftir daginn. Síðustu fjögur ár hafa verið ansi erfið hjá mér eftir að hafa misst eina af mínum bestu vinkonum, andlega hliðin fór á hliðina og ég byrjaði í raun ekki almennilega að vinna í því fyrr en í fyrra þegar vinkona mín bjargaði mér og pantaði tíma fyrir mig hjá sálfræðingi… (hér er ég komin yfir í efni í aðra bloggfærslu, ég læt kannski verða af því seinna að tala betur um þetta).

Mig langar samt að koma einu á framfæri með öllu þessu “blaðri” mínu hérna að hvað sem maður gerir í lífinu (svo framarlega að það sé löglegt og allt það) að þá á maður ekki að velta fyrir sér hvað öðrum finnst eða hvað aðrir segja um ákvarðanir sem maður tekur.

En ég viðurkenni alveg að það hræddi mig mjög mikið að segja frá því að ég ætlaði að hætta að vinna sem snyrtifræðingur til þess að fara að vinna í ísbúð. En viti menn það kom mér svo bara skemmtilega á óvart hvað ég fékk svakalega jákvæð viðbrögð og fólk skyldi mig að ég vildi prófa að breyta til.

En það eru alltaf einhverjir sem koma með neikvæðar athugasemdir. Það er ein athugasemd sem ég man svo vel eftir frá einni sem var að spyrja mig hvort ég væri í alvöru að fara að vinna í ísbúð og þegar ég svaraði játandi þá kom eitt stutt svar frá henni sem hljóðaði svona: “SPES”. Mig minnir að ég hafi nú ekki svarað þessu heldur verður maður bara að leyfa fólki að hafa sínar skoðanir án þess að taka þær nærri sér.

Jújú það er kannski “spes” í augum margra að skipta um atvinnu en WHO CARES!!!! Eitt af mínum mottóum í lífinu er mjög einfalt og á einstaklega vel núna og það er: ÞAÐ MÁ BREYTA!

Ég reyni að vera samkvæm sjálfri mér, stundum mistekst mér og stundum tekst vel til, en maður lærir af öllu sem gerist í lífinu. Stundum er bara (afsakið orðbragðið) drullu gott að breyta til… 

LÍFIÐ ER NÚNA

Takk fyrir að lesa… þangað til næst

ÞÓREY

Þórey Gunnars

You Might Also Like

3 Comments

 • Reply
  Guðrún
  25. August, 2017 at 10:23 pm

  Akkúrat, lífið er núna ??? gott hjá þér að skella þér í breytingar ?

 • Reply
  Eygló Svava Kristjánsdóttir
  26. August, 2017 at 12:09 am

  Þú ert frábær og einlæg og tæklar þetta eins vel og allt annað, hef unnið með þér og þú ert súper duglegur starfskraftur ❤️

 • Reply
  Nana
  26. August, 2017 at 12:44 pm

  Gangi þer vel Þórey !
  Rosa gaman að breyta til 🙂

 • Leave a Reply