Börn og uppeldi Börnin Fjölskylda Lífið Tinna

Þrjú börn á fimm árum. Allt samkvæmt Excel skjalinu.

Já þessi fyrirsögn er frekar funky ég veit, en pabbi minn kallaði mig oft “Excel skjalið” því ég er og hef alltaf verið gríðarlega skipulögð, alveg einum of stundum 😀
Ég vissi það alltaf að mig langaði til þess að vera ung mamma og eignast þrjú börn og það væri plús ef ég væri búin þrítug. Þegar ég kynntist Arnóri í janúar 2011 þá sagði ég honum að við ættum því miður ekki samleið, ég var nýkomin úr rúmlega þriggja ára sambandi og var 22 ára gömul og vissi að mig langaði “bráðlega” að fara byrja í barneignum. Arnór sagði þá að hann væri alveg sammála og að honum langaði líka til þess að eignast barn á næstu árum, ég trúði honum eiginlega ekki, enda er hann yngri en ég og nýorðinn 19 ára þegar við kynntumst hehe. En ég ákvað að gefa honum séns þrátt fyrir að vera smá hrædd því ég vildi ekki fara í samband nema honum væri alvara með það, en honum var sem sagt alvara, ég veit það núna 😉 Planið var neflilega að byrja næst með gæja sem væri amk 2 árum eldri heldur en ég því “strákar eru svo óþroskaðir” en eftir að Arnór kom inn í líf mitt lærði ég að dæma fólk EKKI eftir aldri. Þegar við vorum búin að vera saman í tæp 2 ár þá varð ég ólétt af okkar fyrsta barni og það planað (auðvitað planað, allt sem ég geri er þrælplanað haha) og hann kom undir í fyrstu tilraun þannig við vorum sjúklega spennt og ánægð með þetta allt saman. Ég var nýorðin 25 ára og hann rétt tæplega 22 ára gamall þegar Óli Freyr fæddist.

Þegar Óli var eins árs og við vorum að halda upp á afmælið hans þá kom upp barna umræða við borðið. Rætt var um t.d. “Hvenar er best að skella í barn númer tvö” og “Hvenar er best að klára barneignir”

Það var eiginlega ein frænka Arnórs í þessu afmæli sem er ástæðan fyrir því að Elín Kara fæddist rúmum 9 mánuðum seinna! Hún talaði um að það væri svo þægilegt að eignast börn á meðan maður væri í námi og við ættum bara að drífa í þessu (ég var í miðju BS námi þarna) og einhvernveginn eftir þetta afmæli og þessar umræður þá töluðum við Arnór um þetta og ákváðum að skella okkur bara í barn númer tvö strax! Við vitum það núna að við eigum mjög auðvelt með að verða ólétt því ég pissaði á próf mánuði eftir afmælið og ég var orðin ólétt, sem sagt aftur í fyrstu tilraun. Við vorum sjúklega spennt og Óli Freyr var 21 mánaða þegar Elín Kara fæddist.

Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið spurningar í þessum dúr: “Var ekki erfitt að eignast börn með svona stuttu millibili” o.s.frv. En málið er að okkur fannst það alls ekki. Held það spili inn í að þetta var planað og við vorum bæði í námi fyrst (Arnór fór svo að vinna) og þetta var bara sjúklega þægilegt og skemmtilegt. Það skemmdi reyndar ekkert fyrir að bæði börnin okkar voru ótrúlega vær og góð, engin kveisa og ekkert vesen. Þannig ég hefði kannski ekki alveg sömu sögu að segja ef þau hefðu ekki verið svona vær og góð hehe 🙂

 

Svo kom að því að ákveða hvenar væri best að klára þetta og skella í barn númer þrjú! En svo eftir að pabbi veiktist (hann veiktist þegar ég var komin um 6 mánuði á leið með Elínu Köru og hann var veikur í tvö ár áður en hann dó) þá fannst okkur erfitt að ákveða hvenar það væri best að klára þetta. Ég var undir miklu andlegu álagi í kringum veikindin hans pabba og eftir að hann dó tók við þunglyndi og ég var lengi að ná mér á strik og því gat ég ekki alveg hugsað mér að eignast síðasta barnið alveg strax, ég vissi bara að ég vildi ekki hafa of stutt á milli þeirra en heldur ekki of langt!

 

Pabbi dó þegar Óli Freyr var 3,5 ára og Elín Kara var 20 mánaða. Á þessum tíma var maður auðvitað ekkert að spá í barneignum og bara að reyna lifa dagana af. En svo ákvað ég að fara í 9 mánaða átak stuttu eftir að pabbi dó og við Arnór töluðum um að byrja að reyna eignast barn þá eftir átakið. Átakið gekk ekki vel og ég náði lítið að halda mér við efnið og leið bara alls ekki nógu vel, enda nýbúin að missa pabba minn og átti erfitt með að koma mér á strik og leið bara verr og verr með tímanum.

 

20160812_190737

 

Eftir að þetta 9 mánaða átak var búið þá vorum við sammála um að salta þetta aðeins með barn númer þrjú. Við töluðum reglulega um þetta næstu mánuði og rúmlega ári eftir að pabbi dó þá ákváðum við að byrja að reyna, sem sagt í lok sumars 2018. Það myndi bara gerast sem myndi gerast. Mér leið mjög illa á þessum tíma og var andlega alveg búin á því, ég skildi ekkert í því af hverju mér var ekki farið að líða betur og leið bara verr og verr eftir því sem tíminn leið. En svo kom að því að ég byrjaði að taka próf, tók all nokkur próf og það ÁÐUR en ég átti að byrja á blæðingum, já þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið, en það kom neikvætt og ég byrjaði svo bara á blæðingum. Var hrikalega svekkt, enda komu hin tvö undir í fyrstu tilraun og maður orðin alveg vel kex að ætlast til þess að verða ólétt aftur í fyrstu tilraun en ég bara einhvernveginn bjóst við því. Svo kom önnur tilraun og sama sagan, ég að taka próf alltof snemma og byrjaði svo auðvitað bara á túr og var ekki ólétt. Tók þá ákvörðun að hætta þessu rugli, hætta að velta mér upp úr þessu og ekki vera setja lífið mitt bara á hold útaf þessu og þetta kæmi bara þegar þetta kæmi, enda alveg eðlilegt að það tekur nokkra mánuði og jafnvel mun lengur en það að verða ólétt!

Þannig að ég ákvað fara að huga að mér, pantaði mér svo tíma hjá heimilislækninum mínum í nóvember í fyrra upp á að fá þunglyndislyf eða eitthvað til að hjálpa mér og ég gjörsamlega brotnaði niður strax og hann spurði mig hvað hann gæti gert fyrir mig. Ég var búin að skrifa niður allt sem mér fannst vera að hjá mér og las það upp fyrir hann, og grét og grét allan tímann, alveg að þrotum komin. Hann sagði að það fór ekkert á milli mála að ég væri þunglynd, ég hefði misst pabba minn og að sorgin hafi þróast út í þunglyndi og það væri best að ég færi á lyf og talaði við sálfræðing. Vá hvað ég var fegin, það var eins og heilu tonni væri lyft af mér. Ég fór út frá honum ánægð og fór beint í apótekið að sækja þunglyndislyfin og járn í æð (var sem sagt líka búin að vera díla við járnskort og blóðleysi) og var ánægð að vera loksins komin á rétta braut, að láta mér líða betur! Ég tek fyrstu töfluna og fer svo í vinnuna og fer svo í hádegismat og fattaði svo að ég átti að byrja á blæðingum þennan daginn þannig ég ákvað að skreppa og kaupa próf bara til að vera viss að ég væri ekki ólétt. Ég vissi það með hin tvö að ég væri ólétt áður en ég tók prófin, bara einhvernveginn vissi það, en núna var ég bara PFFF ég er ekkert ólétt, enda við ekkert búin að vera spá í þessu daglega lengur og vorum bara með þetta opið án þess að vera beint að “reyna.” Jæja ég pissa á prófið og það varð strax bullandi jákvætt! SÆLL….mér tókst sem sagt að vera á þunglyndislyfjum í einn dag hahaha.

En auðvitað var þetta dásamlegt, enda við búin að vera að reyna í 2 skipti og ákváðum svo að hætta að velta okkur upp úr þessu og þá auðvitað varð ég ólétt strax! Þannig að “third is the charm” átti mjög vel við þessa óléttu.

Þannig að ég fór frekar og talaði við sálfræðing á heilsugæslustöðinni í stað þess að taka lyf og fór til hennar 5 eða 6 sinnum á einhverjum 4 mánuðum og er nú “útskrifuð” og við sálfræðingurinn komumst af því af hverju mér leið svona illa, en ég hafði ekki hugmynd um það sjálf, en strax og við komumst að því þá gat ég tæklað það og mér líður 100x betur núna og hefði í raun aldrei þurft á þessum lyfjum að halda. Hafði líka aldrei verið þunglynd áður en fannst það hrikalega vont og er svo ánægð að vera komin yfir þetta tímabil, var búið að líða alveg rosalega illa og var orðin mjög þreytt á þessu ástandi. 

Þannig að núna eru um rúmar 10 vikur í að þriðja barnið komi í heiminn og í sumar munum við eiga einn 5 ára, eina 3 ára og svo eina nýfædda. Arnór er 27 ára og ég þrítug. Ég get ekki beðið og ég elska lífið! Akkurat eins og pabbi hefði viljað 🙂

 

 

39589329_10155850800084422_7551381344861814784_n

 

Þangað til næst..

 

19959092_10154892662749422_4851378528896000840_n

Snap & Insta: tinnzy88

 

TF

 

You Might Also Like

2 Comments

 • Reply
  Jenný Lind Samúelsdóttir Herlufsen
  7. May, 2019 at 9:12 pm

  💕💕 duglega og flotta þú 😊

 • Tinna
  Reply
  Tinna
  8. May, 2019 at 10:03 am

  Takk elsku Jenný mín :* <3

 • Leave a Reply