Ég veit bara varla hvernig ég á að byrja þessa færslu, en VÁ! Þvílík veisla!
Ég varð þrítug þann 11 október og hélt afmælið mitt í kjölfarið helgina eftir. Ég hef ekki haldið upp á afmælið mitt í nokkur ár þar sem ég hef annað hvort verið ólétt eða með ungabarn svo ég ákvað að fara alla leið með þetta partý.
Ég bauð frábærum vinum og fjölskyldu til þess að koma og fagna með mér og var ég einnig svo heppin að fá mikla aðstoð frá nokkrum vel völdum!
Ég er vön því að halda stórar veislur í kringum afmæli barnanna og þar sem ég er óþægilega stjórnsöm (án þess að viðurkenna það) þá vil ég alltaf hafa puttana í öllu sem þarf að gera í kringum viðburði sem ég er að halda.
Í þetta skiptið ákvað ég þó að reyna að létta örlítið á álaginu og fékk góða aðstoð frá vinkonum mínum, fjölskyldumeðlimum og góðum samstörfum.
Partýbúðin sá um að útvega allar skreytingar fyrir mig og var ég hæst ánægð með þær, en þau voru einmitt nýlega að taka inn stórafmælislínu í búðina til sín sem er vægast sagt flott!
Einnig fékk ég kleinuhringi frá Krispy Kreme til þess að bjóða gestum upp á og voru allir hæst ánægðir með það enda bestu kleinuhringirnir í bænum. Ég fékk að láta starfsfólkið vita hvernig litaþema ég var búin að ákveða að hafa í afmælinu og skreyttu þeir kleinuhringina í takt við það sem gerði þetta extra skemmtilegt.
Ég var nokkuð lengi að ákveða hvar mig langaði að halda veisluna þar sem ég vildi ekki að salurinn væri yfirgnæfandi stór og heldur ekki svo þröngur að fólk ætti í vandræðum með hvar þar ætti að standa. Þegar ég var að vesenast eitt skipti við það að leita að sal ákvað ég að spyrja fylgjendur mína á Snapchat hvort þau gætu mælt með góðum sal. Þar fékk ég ábendingu um að hafa samband við Pole Sport sem ég gerði og sé ég ekki eftir því. Salurinn var æðislegur, þjónustan frábær og allt fyrir mig gert sem ég bað um.
Tinna vinkona gerði fyrir mig vefjurnar sínar frægu sem allir verða að smakka! Hægt er að nálgast uppskrift af þeim hér.
Hrönn vinkona gerði einnig fyrir mig vefjur og gómsætar kjötbollur sem voru borðaðar upp til agna! Uppskriftina af hvoru tveggja má finna hér.
Hrönn sá svo einnig um að baka afmæliskökuna og tókum við gott spjall um hvernig lita samsetningin og útlitið ætti að vera og að sjálfsögðu mætti hún með virkilega gómsæta og ofurfallega köku eins og henni einni er lagið!
Þórey vinkona sá svo um að farða mig fyrir kvöldið og ég held ég hafi bara aldrei litið jafn vel út eins og þetta kvöld! (Fyrir öll skotin…)
Dagskráin var einföld en skemmtileg og fékk ég Óttar og systir mína til þess að sjá um að skipuleggja hana.
Uppistandari mætti og fékk alla til þess að springa úr hlátri og töframaður kom og sýndi listir sínar!
Einnig var Óttar búin að útbúa myndband handa mér með kveðjum frá ýmsum þjóðþekktum einstaklingum ásamt fjölskyldumeðlimum.
Litla frænka mín leiddi allan hópinn í fjölda dans upp á sviði sem vakti mikla lukku!
Kvöldið endaði svo á karókí stemmingu þar sem hver sem er gat stigið upp á svið og tekið lagið.
Það var svo ótrúlega skemmtilegt að ég held ég neyðist til þess að halda svona veislu aftur á næsta ári! (Ef ég verð búin að jafna mig á þynnkunni)
Takk æðislega fyrir mig allir!
Þangað til næst,
No Comments