Afmæli og veislur Bakstur Hrönn Jól Lífið Matur Matur og vín

Thanksgiving dinner

Ég er alltaf með Thanksgiving matarboð á hverju ári fyrir vini mína sem við köllum Friendsgiving þar sem við hittumst og borðum kalkún og allskonar gúmmilaði og erum svo með svona leikjakvöld eftir matinn þar sem við spilum og höfum gaman.  

 

Ég sýndi helling frá undirbúningnum á Snapchat hjá mér núna í ár og var búin að lofa að skella inn uppskriftum af öllum herlegheitunum fyrir ykkur. Ég klikkaði samt alveg á að taka nógu góðar myndir af öllu af því ég hafði svo mikið að gera ! En þið verðið bara að láta þetta duga. 

Í minni veislu voru 13 manns og eru uppskriftirnar miðaðar við það. Það var alveg ótrúlega lítill afgangur daginn eftir svo þetta rann greinilega vel ofan í mannskapinn. Ég segi í lok hverrar uppskriftar hvort hægt sé að útbúa réttinn daginn áður til að minnka álagið daginn sem matarboðið er. 

Eins var ég með tvær kökur í eftirrétt og gef upp uppskrift af þeim neðst. 

IMG_2211

Kalkúnn

 • 7,2kg heill kalkúnn
 • 1,5kg kalkúnabringa
 • Kalkúnakrydd frá Pottagöldrum
 • Paprika, salt og pipar
 • 850g smjör

Við vorum með 7,2kg franskan kalkún og eins með 1,5kg kalkúnabringu. Við ákváðum að vera bæði með heilan kalkún og bringur af því það er langt þægilegast að taka bara bringurnar og sneiða þær niður – daginn eftir er svo fínt að klára að verka kalkúninn og nota kjötið af lærunum í t.d. pottrétt eða bara borða það með afgangs meðlætinu. Til að elda kalkún rétt er nauðsynlegt að vera með kjöthitamæli en við hituðum okkar fugl uppí 67°. Ofninn var á 140°hita allan tímann og við vorum með hann í 2klst og 45mín í ofninum. 

Ég byrja á því að nudda allan fuglinn upp úr mjúku smjöri áður en ég krydda hann. Ég krydda minn kalkún með kalkúnakryddi frá Pottagöldrum, papriku, salti og pipar og krydda hann vel á öllum hliðum. Fuglinn er svo settur í djúpa ofnskúffu og kjöthitamælinum stungið utanvert á bringunni við lærið og stilltur á 67°. Meðan hann er í ofninum er svo bræddu smjöri hellt yfir hann reglulega, á ca 25 mín fresti – ég fór með held ég 650g af smjöri bara í þetta. Þegar hann er kominn uppí 67°er hann tekinn úr ofninum og lagt yfir hann viskastykki gegnbleytt með brædda smjörinu í botninum á ofnskúffunni. Hann má svo vera svona á borðinu í klukkutíma meðan verið er að græja meðlæti. Þegar hann er svo skorinn er best að taka bara bringurnar í heild sinni af fuglinum og skera í sneiðar. Ég nota sömu aðferð við kalkúnabringuna en hún þarf að sjálfsögðu töluvert styttri tíma í ofninum en heili fuglinn.

IMG_9729

Kartöflustappa

 • 6 bökunarkartöflur
 • 1-1,5mtsk sykur
 • 200 g smjör
 • 1,5dl nýmjólk
 • 3 hvítlauksrif
 • 250ml rjómi
 • vel af salti og pipar

Sjóðið kartöflur í potti og skrælið.

Steikið hvítlauksrif uppúr smá smjöri í botninum á meðalstórum potti. Skellið kartöflum útí ásamt slatta af mjólk, rjóma og smjöri og stappið með kartöflustappara. Bætið svo útí sykri og vel af salti og pipar og smakkið til. Eftir þetta er í raun bara bætt út í stöppuna eftir þörfum mjólk, rjóma, smjöri og salti og pipar þar til heppilegt þykkt er komin á stöppuna og bragðið er orðið gott. Uppskriftin er meira til viðmiðunar en þetta er magnið sem ég notaði í mína. Þessa kartöflustöppu er hægt að útbúa daginn áður og hita svo upp.

Screen Shot 2017-11-29 at 20.44.39

 

 

 

 

 

Sætkartöflumús með pekanhnetucrunch

Músin

 • 3 stórar sætar kartöflur
 • 110g hrásykur
 • 2 egg
 • 80g smjör
 • 1dl nýmjólk
 • 1tsk vanilludropar

Pekanhnetucrunch

 • 240 g púðursykur
 • 120 g saxaðar pekanhnetur
 • 50g hveiti
 • 90g brætt smjör

 Hitið ofninn í 180°

Sjóðið sætar kartöflur og skrælið. Skerið kartöflur í bita og setjið í stóra skál með hrásykri, eggjum, mjúku smjöri, nýmjólk og vanilludropum og hrærið allt saman með gaffli eða kartöflustappara. Setjið í eldfast mót. Þetta er hægt að útbúa daginn aður og svo er crunch-ið útbúið samdægurs og bakað í ofni.

 Til að gera crunch er púðursykri, pekanhnetum, hveiti og bræddu smjöri hrært saman og dreift jafnt yfir músina í eldfasta mótinu.

Þetta er svo bakað í 35 mín.

 

Stuffing

 • 600g sveppir
 • 15 stór hvítlauksrif
 • 6 stilkar sellerí
 • 750g beikon
 • 15 brauðsneiðar
 • 6 mtsk estragon eða kalkúnakrydd frá Pottagöldrum
 • 3 laukar gulir
 • 600 g rjómaostur 

Beikon er skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til gegnsteikt. Það er svo tekið af pönnunni og hvítlaukur og laukur steikt á pönnu uppúr beikonfitu og smá smjöri.

Þá er smátt skornum sveppum og sellerí ásamt estragon/kalkúnakryddi bætt útá pönnuna og steikt aðeins með lauknum.

Rjómaosti og elduðu beikon bætt út á og allt blandað vel saman þar til rjómaostur er bráðinn. Skorpan er tekin af brauðsneiðum og þær skornar í litla teninga og hrært útí blönduna að lokum. Sett í eldfast mót. 
Stuffing er hægt að gera daginn áður og svo er hún hituð samdægurs á 180°í 30 mín.

IMG_9737

Kalkúnasósan

Sósan mín er pínulítið flókin en ég geri í raun 3 mismunandi sósur og blanda þeim svo saman. Þetta hljómar samt flóknara en þetta er í raun og veru þar sem hver sósa er mjög einföld og tekur ekki langan tíma.

IMG_0230

Sósa 1

 • 3 pakkar Kalkúnasósugrunnur (fæst í pakka í Hagkaup) eldaðir eftir leiðbeiningum á pakkanum
 • aukalega 1,5dl af rjóma

Sósa 2

 • 500ml kalkúnasoð (vatn með fljótandi kalkúnakrafti útí)
 • 30g smjör
 • 30 g hveiti
 • 2 tsk rifsberjagel
 • salt og pipar

Smjör brætt í potti og hveiti hrært út í og búin til smjörbolla með sósuþeytara. Kalkúnasoði hrært út í smátt og smátt og hrært vel á milli. Þegar allt soðið er komið út í er hún bragðbætt með rifsberjageli og salti og pipar

Þegar sósa 2 er tilbúin er henni blandað saman við sósu 1

Sósa 3

 • 2 pokar sveppasósa úr pakka frá Blå Band eða önnur sveppa-pakkasósa.

Duftið úr pokunum sett í pott og bætt við það 6dl mjólk og suðan látin koma upp. 

Þegar sósa 3 er tilbúin er henna blandað saman við sósu 1og 2

Allt hrært vel saman og þykkt með sósujafnara en það þarf frekar mikinn sósujafnara af því þetta er svo mikið magn. Mikilvægt að láta suðuna koma upp á milli til að leyfa sósujafnara að virka. Loks er sósan smökkuð til með rjóma, rifsberjageli, salti og pipar. Sósuna er hægt að gera daginn áður og hita upp

IMG_0215

Cranberry sauce

 • 340g fersk trönuber
 • 1,5 bolli sykur
 • 1,5 bolli vatn

Vatn og sykur hitað saman í potti þar til alveg samblandað og látið sjóða í 5 mín.

Þá eru trönuberjum bætt útí  og látið sjóða saman í 15 mín, þar til berin fara að poppa og mýkjast. Loks eru berin kramin með spaða og látið sjóða áfram í 5 mín. Sósuna er hægt að gera daginn áður en hún þarf að vera í kæli í a.m.k 3 klst áður en hún er borin fram

Screen Shot 2017-11-29 at 20.51.30

Gljáðar gulrætur

 • 1 poki gulrætur
 • 100g smjör
 • 1mtsk cumin
 • 2 mtsk maple síróp

Gulrætur skornar í lengjur og steikar á pönnu uppúr smjöri, cumin og maple síróp

Screen Shot 2017-11-29 at 20.54.05

Sesarsalat

 • romaine salat
 • konfekttómatar
 • gúrka
 • brauðteningar
 • ferskur parmesan ostur rifinn
 • Sesar sósa frá Hellmanns

Kál skorið niður, tómatar skornir í tvennt og gúrka í litla bita. Þá er brauðteningum og rifnum ferskum parmesan blandað saman við og loks er sósunni bætt útí og öllu blandað saman.

 

Maísstönglar

 • 13 stk litlir frosnir maisstönglar

 Maísstönglar soðnir eftir leiðbeiningum á pakka

Screen Shot 2017-11-29 at 20.55.05

Lakkríssmjör

 • 150g mjúkt smjör
 • 1-2 mtsk lakkríssalt frá Saltverk 

Lakkríssalt blandað saman við mjúkt smjör, magn eftir smekk. Lakkríssmjör er hægt að gera daginn áður.

 

 Brauðbollur

 • poki með 36 brauðbollum úr Costco

 

Screen Shot 2017-11-28 at 21.26.31

Karamellu, pecan brownie (uppskrift frá www.recipeaday.net)

 • 1 pakki brownie kökumix
 • ¼ bolli vatn
 • ½ bolli matarolía
 • 2 egg
 • 150 g suðusúkkulaði í dropum

Hitið ofninn í 175°. Setjið smjörpappír í botninn á 25cm smelluformi. Blandið saman kökumixi, vatni, olíu, eggjum og suðusúkkulaði og bakið í 50 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í köku kemur næstum hreinn út, kakan á að vera aðeins blaut.

 • ½ bolli rjómi
 • 20 rjómakaramellur
 • 1 egg
 • 1 bolli pecanhnetur, skornar gróft niður

Bræðið saman í potti rjóma og karamellur þar til allt er bráðið. Hrærið eggið með gaffli og bætið útí það smá karamellublöndu og hellið svo eggjablöndunni útí karamelluna í pottinum. Látið malla í 3 mínútur meðan hrært er í þar til blandan þykknar. Þá er pecanhnetum blandað útí og blöndunni smurt yfir kökuna.

 • ¾ bolli rjómi
 • 2mtsk flórsykur 

Þeytið rjóma og flórsykur saman og berið fram með kökunni.

 

IMG_3346

Lemon Meringue ostakaka

Botninn

 • 1 pakki hafrakex
 • 1/3 bolli sykur
 • 85g smjör brætt

Hrærið allt saman í matvinnsluvél og þjappið í botninn á smelluformi. Ég nota smelluform sem er 23cm og set smjörpappír í botninn. Setjið í ísskáp og látið kólna meðan ostakakan er útbúin

 

Ostakakan sjálf                                                                     

 • 800g rjómaostur
 • 180g sykur
 • 230g sýrður rjómi
 • 2 egg
 • 2 eggjarauður
 • 15 g kartöflumjöl
 • 3 mtsk rifinn sítrónubörkur – ca 2 stórar sítrónur

 Byrjið á að hræra rjómaost og sykur saman og bætið svo rest útí og blandið vel saman.

Setjið vatn í djúpa ofnskúffu og kuðlið langri örk af álpappír kringum formið ofaní ofnplötunni

Bakið við 200°í 40 mín. Látið kökuna bíða í ofninum í 30 mín og setjið hana svo í kæli í AMK 4 klst

 

Meringue topping

 • 5 eggjahvítur
 • 1 ¼ bolli sykur

 Hrærið saman eggjahvítur og sykur með gaffli í hitaþolinni skál og hitið blönduna yfir vatnsbaði upp í 60°C hita og hrærið stöðugt í á meðan. Best að nota hitamæli í þetta verk. Þegar blandan er komin í rétt hitastig er henni hellt beint í hrærivélaskál og þeytt á fullum krafti í 10 mínæ

 Berið meringue kremið ofaná kökuna með sleikju og brúnið yfir með gasbrennara. Berið fram með þeyttum rjóma.

Geymið í kæli þar til borin fram.

IMG_9777

Endilega kíkið á mig á snapchat – verður nóg að gera hjá mér núna fyrir jólin – hronnbjarna

 

hronn

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply