Afmæli og veislur Diy Hönnun Hrönn Partý Veisla Veislur

Skreytingar í brúðkaupinu mínu

Skreyta , skreyta, skreyta !!!!!

Ég og Sæþór maðurinn minn giftum okkur í lok ágúst 2018. Ég er alveg skreytingaóð og því var það algjört draumaverkefni fyrir mig að fá að skipuleggja allar skreytingarnar í mínu eigin brúðkaupi. Ég get ekki ímyndað mér (og vil held ég bara ekkert vita það) hvað ég eyddi mörgum klukkutímum á pinterest og á netinu að skoða allskonar skreytingar og ég fór alveg í 1000 hringi með hvaða þema ég ætti að vera með og hvernig ég ætti að setja þetta allt upp. 

Eins skemmtilegt og þetta verkefni var þá verð ég að viðurkenna að ég varð smá buguð af valkvíða og áhyggjum reglulega þetta eina ár sem ég var að skipuleggja og mæli með því fyrir alla að byrja fyrr en seinna í svona pælingum. Það sem mér fannst erfiðast var að ná yfirsýn yfir heildarútlitið og sjá þetta fyrir mér í heild sinni. Oft sá ég eitthvað sem mér fannst ótrúlega flott en passaði kannski ekki inn í heildarmyndina og þá þurfti ég að endurhugsa hvort ég vildi sleppa þessari hugmynd eða hvort ég vildi breyta og aðlaga heildarmyndina að þessari hugmynd ! 

Ég verslaði mínar skreytingar útum allan heim, aliexpress, alibaba, ebay, amazon og hinar ýmsu random síður sem ég datt inná ! Eins flott síða og aliexpress er þá fannst mér ég samt ekki geta treyst 100% á hana og ákvað þvi að panta allt frá þeim snemma svo ég hefði tíma til að endurpanta og breyta ef varan væri ekki nógu góð. Þetta var afar góð ákvörðun og ég þurfti alveg að endurskoða nokkra hluti og endurpanta frá öðrum seljendum eða af öðrum síðum eftir að ég fékk sendingu frá þeim. 

Ég var orðinn fastagestur á pósthúsinu og þau þekkja mig held ég ennþá þarna sem konuna sem kom að sækja 19 pakka í einu og stútfyllti litla bílinn sinn af einhverju drasli. Sumum fannst líka svolítið gaman þegar mamma kom heim af pósthúsinu og var með allskonar skemmtilegt dót. 

Ég endaði á því að vera með gyllt, kampavínslitað og smá ljósbleikt þema í mínu brúðkaupi með risastórum blómaskreytingum, pallíettudúkum og allskonar glamúr. Eins var nammibarinn í veislunni í sömu þemalitum og hér er hægt að skoða færslu um nammibarinn sem tókst mjög vel fannst mér. 

 

Blómaskreytingar

Ég vissi strax frá byrjun að ég vildi hafa svona stórar blómaskreytingar eða centerpieces á hverju borði og var lengi að meta hvort þær ættu að vera úr lifandi blómum eða gerviblómum. Eftir að hafa fengið verðtilboð í blómaverslun hér á landi uppá hátt í 2 milljónir ákvað ég snarlega að græja þetta bara sjálf og nota fallegustu gerviblómin sem ég gæti fundið. 

Ég fór til Aberdeen haustið fyrir brúðkaupið og keypti þar háa glervasa til að setja skreytingarnar í. Aumingja vinahópurinn minn varð bara að gjöra svo vel og hjálpa klikkuðu konunni að ferja þetta milli landa sem þau gerðu án allra kvartana ! Elska þau ! Hér er linkur á vasana en þeir eru af síðu sem heitir weddingmall.co.uk og þar keypti ég líka sápukúlurnar sem gestirnir blésu á okkur á leiðinni útúr kirkjunni. 

Blómin keypti ég mestmegnis af aliexpress og eins keypti ég stórar rósir í IKEA hérna heima. Ég var með blöndu af stórum og litlum rósum í nokkrum litatónum, blöndu af hortensíum (hydrangea) í 2 litatónum og hvítar liljur og voru um 150 blóm í hverri skreytingu hjá mér. 

Ég valdi blóm sem var lýst sem real touch eða úr latex en þau blóm eru mun raunverulegri en mörg af þeim gerviblómum sem er verið að selja.

Ég fór svo í Grænn markaður uppá Höfða og keypti svona oasis kubba til að stinga blómunum í en það er svona eins og frauð sem er hægt að sníða til eftir þörfum og er snilld til að stinga blómunum í.  Ég keypti svo þykk hvít plast rafmagnsrör sem ég klippti niður og stakk hverjum oasis bita í og svo fór rörið ofaní vasann og þannig festi ég skreytinguna í vasann. 

Ég pantaði prufusendingu af öllum blómunum og sá hvaða blóm mér fannst fallegust og pantaði svo stóra pöntun af þeim blómum. Ég lenti hinsvegar í smá klandri með hvítu liljurnar en ég prófaði bara að panta 10 stk af þeim til prufu og þær voru ótrúlega fallegar og flottar. Svo pantaði ég 150 stk fyrir brúðkaupið en þá var þeim pakkað allt öðruvísi og þær komu allar beyglaðar og kramdar til mín og engin leið að laga þær – þarna var brúðkaupsdagurinn farinn að nálgast óþarflega hratt og brúðurin komin í stresskast. Ég talaði við seljandann sem vildi ekkert fyrir mig gera nema bjóða mér að endursenda þetta svo ég fann nýjan seljanda á aliexpress sem var með góð meðmæli og pantaði hjá honum nýjar liljur. Áður en ég pantaði sendi ég honum skilaboð og sagði honum af raunum mínum og bað hann að senda þetta eins hratt og hann mögulega gæti til mín. Þær komu 10 dögum fyrir brúðkaup og ég var án gríns skjálfandi á beinunum þegar ég opnaði kassann til að sjá hvernig þetta litli út. Sem betur fer voru þessar vel pakkaðar inn og í góðu ástandi og því hægt að þeytast í að klára skreytingarnar.

Mesta vinnan var hinsvegar að klippa öll blómin niður í réttar lengdir til að hægt væri að stinga þeim í en þau voru öll með þykkum vír í stilknum til að stífa þau af svo það þurfti alveg svaka klippur og átök í þetta. Á endanum var þetta þannig að Sæþór klippti niður öll blómin og ég stakk í frauðið. Sæþór var eins og þið getið ímyndað ykkur mjög kátur þegar hann var búinn að klippa niður 2000 stk af gerviblómum hahah. Húsnæðið mitt var líka eins og Garðheimar meðan á þessu stóð !

Afraksturinn var rosalega flottur að mínu mati en vinnan á bakvið þetta var hinsvegar mjög mikil !! 

 

Ljósaseríur, jarðvegsdúkar og loftskreytingar

Við vorum með veisluna okkar í Fram heimilinu en þar er mjög bjartur og fallegur salur. Við vorum með fordrykkinn niðri í anddyri í Fram heimilinu sem er mjög rúmgott og hentar afar vel fyrir fordrykk. Þar sem þetta er bara íþróttahús er kannski ekkert sérstakt útlit á húsinu svona fyrir brúðkaup. Ég ákvað því að kaupa mörghundruð metra af jarðvegsdúk og nota til að klæða alla veggi, bæði niðri í fordrykk og eins uppi þar sem salurinn er. Ég keypti jarðvegsdúkinn á amazon.co.uk og þar gat ég fengið 75m rúllur sem ég lét senda til mín á hótelið í Aberdeen og þar pakkaði ég þessu öllu inní svartan ruslapoka og tjekkaði inn sem auka tösku á leiðinni heim. Ég tók alveg 4 rúllur svo ég var með 300m. 

Yfir jarðvegsdúkinn setti ég svo allstaðar svona lafandi ljósaseríur eða gardínuseríur eins og þetta kallast víst og þá varð þetta ótrúlega brúðkaupslegt og fallegt. Eins gerði ég það sama sem bakgrunn á sviðinu í veislusalnum og það kom mjög vel út. Ég keypti allar mínar seríur á Aliexpress og var með nokkrar stærðir eftir því hvar þetta var en ég fór örugglega 4 sinnum í Framheimilið með málbandið haustið fyrir brúðkaupið og mældi allt mjög nákvæmlega. Ég var með stærðirnar 3x3m, 3x6m, 3x1m, 4x4m og 4×8 m. Ég var með í heildina held ég 17 seríur í þessum stærðum. Hér er linkur af 4x4m seríunum mínum en það var erfiðast að finna þessa stærð á aliexpress. Mikilvægt að velja litinn warm white af því hann er svo hlýlegur og fallegur. 

Ég vildi líka skreyta loftið í veislusalnum sjálfum með tjulli og seríum og fannst þetta nú hljóma eins og lítið mál en á endanum var þetta 3 manna verk í 2 daga að skreyta þetta blessaða loft. Í fyrsta lagi er mikil lofthæð í þessum sal sem gerði þetta verkefni ekki auðveldara. Svo fyrri daginn lét ég þá bara festa tjullið og seríurnar með svona gaffa tape sem er sterkt skreytingalímband sem ég hélt að væri nóg til að halda þessu uppi og það gerði það og þetta leit mjög vel út þegar við fórum heim um kvöldið en morguninn eftir var helmingurinn dottinn niður og því þurfti að festa þetta allt upp aftur.  Aftur var brúðurin komin í stresskast en þá kom einhver með þá snilldarhugmynd að kaupa svona litlar klemmur í A4 sem við notuðum til að festa þetta með. Þá gekk þetta eins og í sögu og loftið var alveg ótrúlega fallegt og sérstaklega þegar það fór að dimma um kvöldið þá gerði þetta alveg ótrúlega mikið fyrir salinn.

Þetta er tjullið sem ég keypti og ég keypti 15 pakka af þessu á ebay.com. Ég var svo með 3 stk af 100m seríum sem við strengdum yfir tjullið. Ég keypti mínar seríur á Aliexpress. 

Ég fékk svo ótrúlega flottar blöðrur hjá skraut.is sem var raðað saman í nokkur búnt, gylltar, kampavínslitaðar, glærar og glærar með confetti og hengdar á nokkrum stöðum sem auka skreyting og ein risa confetti blaðra sem ég var með við innganginn.

Ég leigði svo hvítan uppblásinn sófa og 2 hægindastóla hjá Exton og var með á þessum gangi fyrir innan nammibarinn til að búa til auka setustofu fyrir gestina þegar líða fór á kvöldið. Þetta var mikið notað og margir sem nýttu sér þetta spjallhorn. 

Borðskreytingar, dúkar, hnífapör og fl 

Ég var örugglega lengst af öllu að ákveða hvernig borðin ættu að líta út og ég sveiflaðist fram og aftur með hvernig ég vildi hafa þetta. Á endanum ákvað ég að fara bara alla leið og vera með gyllta/kampavínslitaða pallíettudúka á borðunum ! Hér er linkur á dúkana sem ég keypti en ég keypti kampavínslitaða af því mér fannst gylltu of gulir. Kampavínslituðu voru fullkominn litur fyrir mitt þema. 

Ég var svo með gyllt hnífapör en ég datt inná frábæra útsölu í ILVA þar sem ég gat keypt hnífa, gaffla og teskeiðar á ótrúlega góðu verði en svona hnífapör eru líka til á Alibaba.com en ég ætlaði að kaupa mín þar áður en ég rakst á þessa útsölu í ILVA. Ég keypti svo gyllta silkiborða á Aliexpress og batt fallega slaufu utanum hnífapörin á hverjum disk og festi miðann með nafni hvers gests í slaufuna. Ég lét prenta þau út erlendis í gegnum etsy.com og var ótrúlega ánægð með þjónustuna hjá henni. Þurfti að bæta nokkrum miðum við á seinustu stundu og hún var enga stund að redda því fyrir mig. Hér er síðan sem ég verslaði við. 

Á borðunum var ég með eina stóra blómaskreytingu og nokkrar litlar með. Ég keypti 2 tegundir af litlum blómavösum í ikea, annar gylltur og hinn glær og var með eina stóra rós í öðrum og eina stóra hortensíu í hinum og var með 3 svoleiðis skreytingar á hverju borði í bland við stóru skreytinguna. 

Eins var ég með fullt af kertastjökum, bæði fyrir há kerti og eins fyrir sprittkerti og voru þeir allir gylltir, glærir og bleikir og kertin hvít. 

Hér keypti ég bleiku og gylltu kertastjakana – www.partyfavorsource.com. Það er snilld við þessa kertastjaka að þeir eru svo fallegir að eftir brúðkaupið hef ég notað þá undir allskonar eftirrétti og smárétti í matarboðum og veislum, t.d. súkkulaðimús eða ostakökurétt og það kemur mjög vel út að hafa marga svona saman á fallegum disk í veislu.

Á borðunum var ég svo líka með borðanúmerin en ég setti þau í svona fallega glerkúpla úr IKEA og setti litla seríu í hvern kúpul. Hér er linkur á síðuna á etsy.com sem ég keypti borðanúmerin hjá. 

Í salnum sem veislan var haldin í eru bláir stólar sem voru auðvitað alls ekki í mínu þema svo ég keypti hvít sætacover á alibaba.com. Mér fannst það samt ekki nóg skreyting svo ég keypti hvítt tjull líka og klippti í búta og setti yfir stólbökin og batt saman aftaná stólnum með gylltum silkiborða. Þetta kom mjög vel út og var einfalt í framkvæmd. 

Í fordrykknum var ég með svona há kokteilborð og setti gyllta pallíettudúka á þau líka sem gerði mikið fyrir heildarlookið í fordrykknum. 

Drykkir, glös og flöskur , servíettur, nammipokar og fl

Við létum búa til logo fyrir okkur fyrir brúðkaupsdaginn á vistaprint.com sem við notuðum til að skreyta vatnskaröflur á borðum og eins skreyttum við allar bjórflöskur og gosflöskur með gylltum glimmerpappír og límmiðum með þessu logo. 

Við vorum svo með sérprentaðar servíettur í fordrykknum sem voru með þessu sama logo og nammipokarnir í nammibarnum líka. Svo var logo-ið líka á boðskortum, sætaskipan og matseðlum sem voru á borðum. Hér er hægt að skoða boðskortin okkar.

Svo ákvað ég að taka þetta alla leið og láta setja líka logo á dans – inniskóna sem við vorum með fyrir þreytta fætur þegar leið á kvöldið. Óli Prik sá um að merkja inniskóna mína og þetta kom mega vel út. Ég keypti hvítar körfur í IKEA og lét útbúa fyrir mig spjald sem ég límdi á kassana. Ég var svo með svona kassa á baðherbergjunum og við dansgólfið. 

Við létum líka prenta út fyrir okkur litla hvíta miða með þessu logo á sem voru fyrir gullkorn frá gestunum – það voru ca 20 svona miðar á hverju borði ásamt pennum en við létum merkja penna með hashtagginu okkar –  að sjálfsögðu voru þeir gylltir og fallegir en hér er linkur á þessa penna á aliexpress. Fengum þá ótrúlega fljótt og þeir gáfu okkur meira að segja nokkra auka penna með svo ég get alveg mælt með þessum seljanda. Eins fyrir penna fyrir gestabókina þá er þetta sniðug hugmynd.  

Ég bauð svo uppá freyðivín í fordrykk og keypti IKEA freyðivínsglös og skreytti þau með gylltum silkiborða sem ég batt utanum fótinn. 

Með eftirréttinum var ég með espresso martini og þá gerði ég það sama – keypti IKEA martini glös og skreytti með gylltum silkiborða. 

Á barnum var svo boðið uppá Moscow mule kokteilinn eftir matinn sem er yfirleitt borinn fram í koparbollum svo ég keypti koparbolla á ebay og var með drykkinn í þeim. 

Ég sá mynd á pinterest fljótlega eftir að ég byrjaði að skipuleggja brúðkaupið með freyðivínsflöskum sem voru húðaðar með gylltu glimmeri sem mér fannst sjúklega flott og því var ekki aftur snúið. Það þurfti að glimmerhúða allar flöskurnar !!!

Ég fór í mikla rannsóknarvinnu með hvernig best væri að gera þetta og endaði á því að kaupa gallon dúnk af Mod Podge á amazon.com sem er svona fljótandi límdæmi. Þessu smurði ég á flöskurnar með frauðpensli og svo var hverri flösku drekkt í glimmeri en ég keypti 3 risa dúnka af glimmeri á amazon.com líka. Eftir umferð nr 1 vorum við vinkonurnar ekki alveg nógu ánægðar og því var ákveðið að taka round 2 á hverja einustu flösku ! 

Baðherbergin

Því miður gleymdist alveg að taka myndir af baðherbergisskreytingunum mínum sem er mjög leiðinlegt af því ég var með mikinn metnað í þeim skreytingum líka. Ég keypti glær sápuglös í IKEA og skreytti með gylltum silkiborðum og setti við alla vaskana. Ég setti tjull og silkiborða utanum allar baðherbergishurðirnar til að skreyta þær aðeins. 

Loks var ég með mjög metnaðarfullt svona baðherbergisbox inna öllum baðherbergjum þar sem ég var með allskonar snyrtivörur og græjur fyrir gestina ef eitthvað kæmi uppá. Hér er video af svona baðherbergiskassa en þetta er eina myndefnið sem er til af þessari snilld. 

Ég var lengi að finna út hvernig ég gæti raðað þessu fallega upp og endaði á því að kaupa Skubb box í IKEA með mörgum litlum hólfum og flokka þetta upp. Ég var með 7 flokka.

  • hár
  • munnhirða
  • neglur
  • hreinlætisvörur
  • andlit
  • tilfallandi slys
  • lyf

Ég keypti litla glæra poka á aliexpress sem ég setti panodil, íbúfen, rennie, tyggjó, spennur og nælur í og lokaði með límmiðum í sama stíl og okkar logo. Þá gat hver tekið einn poka og í honum voru t.d 2 panodíl (1 skammtur), 2 tyggjó eða 4 spennur. 

Ég merkti hvert hólf með gylltu pappaspjaldi og efst á því var hvítu miði með nafninu á flokknum. Á veggnum hliðiná kassanum var ég svo með skilti með nánari útlistun á því hvað var í hverju hólfi. Þetta lét ég líka prenta á vistaprint.com. 

Ég var í miklum vandræðum með að finna hentugt borð undir kassann inná baðherbergjunum þar sem það var ekkert borðpláss þar. Ég vildi líka hafa pláss fyrir körfuna með inniskónum og eins smá pláss fyrir nokkra kertastjaka og ilmkerti. Eftir langar pælingar endaði ég á því að kaupa ódýrar kommóður í IKEA á útsölu og setja inná baðherbergin. Stærðin á borðinu á þeim passaði akkurat undir allt sem ég þurfti að koma fyrir. Ég seldi kommóðurnar svo bara eftir veisluna svo þetta hentaði mjög vel. 

Aðrar skreytingar 

Ég var með sætaskipan á stórum flottum standi sem vinkona mín bjó til úr rörum sem hún keypti í BYKO og spray-aði gyllt. Kom mega vel út. Spjaldið var með sama logo og annað í veislunni og var fest upp með gylltum silkiborðum. 

Upp handriðin á stiganum þar sem fólk fór upp í veislusalinn úr fordrykknum var ég með hvítt tjull og gyllta silkiborða. 

Í forstofunni þar sem fólk labbaði fyrst inn var ég með risastórt skilti þar sem ég bauð fólk velkomið í veisluna og var skiltið á standi en þetta bæði keypti ég á vistaprint.com. Við hliðiná því var ég með risastóra confetti blöðru með gasi í. Fyrir utan salinn var ég svo með 2 risastórar svartar lugtir. Seinna um kvöldið þegar allir voru komnir voru lugtirnar færðar uppá svalirnar í salnum þar sem þær nutu sín betur í myrkrinu. Á svölunum skreyttum við svo handriðið með seríu með stórum kúluperum. Hér er linkur á þessar seríur en þær eru mjög sniðugar og hægt að tengja margar saman. Mæli með þeim í brúðkaup og garðpartí. 

Ég skreytti vegginn í kringum barinn með því að klæða vegginn með hvítum jarðvegsdúk og setja svo pompoms í hvítu, kampavínslituðu og hvítu og lafandi seríur. Ég lét svo prenta út stór spjöld með okkar logo með yfirliti yfir hvaða drykkir voru í boði á barnum, bæði áfengir og óáfengir. Enn og aftur klikkaði eitthvað myndatakan af barnum – ég var greinilega með aðeins of mikið að gera !! 

Kirkjan

Ég vildi skreyta aðeins í kirkjunni en samt ekki hafa þetta of mikið og láta kirkjuna og okkur bara njóta sín. Við enduðum á því að skreyta endann á hverjum bekk með hvítu tjulli sem var bundið saman með hvítum silkiborðum. Mjög einfalt og stílhreint. 

 

Gestabókin

Við pöntuðum gestabókina okkar á Etsy.com og létum setja nöfnin okkar á hana í gylltum stöfum. Hér er linkur á seljandann sem ég keypti af. Fékk frábæra þjónustu hjá þessum seljanda og mæli algjörlega með honum. Við vorum svo með gylltan glimmerpappír sem við límdum í bókina og svona mynda-plasthorn sem við límdum á glimmerpappírinn og fólk átti að smeygja myndinni þar inní. Fólk var svo beðið um að skrifa skemmtilega kveðju til brúðhjónanna. Svo lét ég útbúa smá leiðbeiningaspjald á vistaprint.com sem var á borðinu með gestabókinni þar sem farið var betur yfir þetta.

Gestabókin var svo á borðinu hliðiná photobooth og fólk átti að taka mynd í photobooth, prenta út og setja í bókina. Við létum veislustjórana minna reglulega á þetta í fordrykknum svo flestir voru búnir að þessu þegar borðhaldið hófst.

Niðurstaðan

Ég var mjög ánægð með lokaútlitið á skreytingunum hjá okkur og fór sko sátt heim að sofa kvöldið fyrir stóra daginn. Við fengum salinn afhentan á miðvikudeginum fyrir brúðkaupið svo við vorum með næstum 3 heila daga til að skreyta og það veitti sko alls ekki af því! Þetta tók allt ótrúlega langan tíma og mun lengri en við vorum búin að reikna með. Við vorum á staðnum frá 10 á morgnana og fram til miðnættis alla dagana og hefðum næstum þurft lengri tíma. Við erum ótrúlega heppin að eiga bestu vini og fjölskyldur í heimi og allir voru til í að koma og hjálpa okkur að gera þennan skreytingardraum minn að veruleika og fyrir það vorum við ótrúlega þakklát því án þeirra hefðum við aldrei klárað þetta allt á réttum tíma.

Ég var búin að undirbúa allt sem ég gat áður en við fengum salinn afhentan, allt tjull  og jarðvegsdúkar tilbúið klippt niður í réttar stærðir, allir silkiborðar klipptir niður í réttar stærðir, gestabók tilbúin, allar flöskur skreyttar og ready. allir pompoms tilbúnir í svörtum ruslapokum, baðherbergiskit ready, blómaskreytingar tilbúnar o.s.frv. Þetta allt flýtti ekkert smá fyrir og ég mæli með því fyrir alla að byrja fyrr en seinna að undirbúa og græja allt fyrir skreytingarnar af því allt sem er hægt að gera áður en þú færð salinn afhentan hjálpar til og flýtir fyrir, sérstaklega ef þú ert í tímaþröng eða færð salinn afhentan seint. En nr 1,2 og 3 er að

hafa gaman og njóta meðan þú ert að þessu – þessir dagar fyrir brúðkaupið voru ótrúlega skemmtilegir og eftirminnilegir og það er nauðsynlegt að reyna að njóta þeirra eins og þú getur en ekki láta stressið gleypa þig ! 

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply