Afmæli og veislur Bakstur Diy Hrönn Lífið Matur Matur og vín

Skírnarveislan okkar

Við Sæþór skírðum dóttur okkar á Skírdag, 13. apríl sl og fékk hún nafnið Embla Ýr Fannberg. 

IMG_4121

Embla Ýr með mömmu, pabba, ömmu og afa

Ég elska að skipuleggja veislur og var ég því búin að vera að skipuleggja þessa skírnarveislu í langan tíma, löngu áður en Embla kom í heiminn. Ég er búin að vera með skjal í tölvunni hjá mér lengi þar sem ég skrifaði niður allar hugmyndir sem ég sá eða datt í hug og eins var ég með það gestalista og helstu upplýsingar. Þetta var mjög þægilegt til að hafa allar upplýsingar á einum stað og eins til að geyma sniðugar hugmyndir sem ég var að rekast á á netinu eða sem mér datt sjálfri í hug. Ég mæli algjörlega með því að koma sér upp svona skjali þegar til stendur að halda stóra veislu og endilega því fyrr því betra þar sem maður rekst svo oft á eitthvað sniðugt löngu áður sem er svo gleymt þegar kemur að veislunni. 

IMG_4350IMG_4257IMG_4232IMG_4346IMG_4348

Við sendum út borðskort 2 vikum fyrir skírnina og ég byrjaði að föndra allskonar skraut og skreytingar á svipuðum tíma.

 

17948659_10155323765854467_127999794_o

Ég og litla gullið að græja okkur fyrir seinni veisluna

Við buðum í kringum 65 manns í veisluna okkar og til að ná að sinna öllum gestunum nógu vel ákváðum við að hafa veisluna bara tvískipta og hafa fjölskylduna í hádegismat kl 13 og bjóða vinunum í kvöldmat kl 18. Þetta kom rosalega vel út og var mun þægilegra en að fá allan hópinn í einu. Bæði var meira pláss fyrir alla og eins var þetta afslappaðra fyrir okkur og gaf okkur meira rými til að sinna öllum eins og við vildum.

Ég var með smárétti í veislunum og gerði matinn að mestu leyti sjálf nema djúpsteiktu rækjurnar sem ég pantaði hjá Osushi. Ég var með 2 gerðir af snittum, bæði með pepperoni, pestó og brie og svo með andabringu, rifsberjageli og aioli, Eins var ég með asískar kjötbollur, fiskibollur með sweet chili, bbq kjúklingaspjót, brauðtertuteninga, tortillavefjubita og djúpsteiktar rækjur með spicy majó. Mikið af matnum var hægt að útbúa fyrirfram, eins og brauðtertuteninga og tortillavefjubita og annað þurfti bara að hita á veisludaginn, eins og bollurnar og kjúklingaspjótin. Það sem mesta vinnan fór í morguninn sem veislan var haldin var að útbúa snitturnar en við vorum svo heppin að fá mömmu til að hjálpa okkur með það og því gekk þetta mjög vel hjá okkur. Daginn áður var ég búin að búa til allar sósur og setja í þær skálar sem ég bar þær fram í til að flýta fyrir og eins var ég búin að skera niður það sem hægt var fyrir snitturnar og setja í loftþétt box. Ég var líka búin að taka til og gera tilbúið alla diska og föt fyrir matinn til að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því á seinustu stundu.  Ég gerði ráð fyrir um 14 bitum á mann af mat og það var hugsa ég afgangur fyrir a.m.k 10 manns

IMG_1170-2

 

IMG_1169-2

 

 Þar sem presturinn var upptekinn til kl 15:00 ákváðum við að bjóða kl 13 í hádegismat, hafa svo athöfnina eftir matinn og bjóða svo uppá kökuhlaðborð eftir athöfnina. 

IMG_4267

Ég bauð uppá 2 mismunandi kökur, franskar makkarónur, cakepops og cupcakes og var búin að baka þetta allt fyrirfram og frysta til að minnka álagið dagana fyrir veisluna. Þetta er mjög sniðug leið til að minnka álagið dagana fyrir veisluna en flestar kökur geymast mjög vel í frysti og sniðugt að nýta sér það. Ég tók allt úr frysti kvöldið áður nema frönsku makkarónurnar sem ég tók úr frysti klukkustund áður en þær voru bornar fram. Önnur kakan var skírnartertan með nafninu hennar og blómum úr sykurmassa og það var kaka sem ég kalla Hindberjadraum. Hún er með bragðgóðum súkkulaðibotnum með þeyttum marengs, ferskum hindberjum, hindberjasultu og yndislegu kremi úr hvítu súkkulaði og rjómaosti. Hin kakan var svo klassísk red velvet kaka með skærbleiku kremi sprautuðu í rósir og glimmeri stráð yfir. Ég keypti svo form og skrautpinna fyrir cupcakes á Aliexpress og einnig silkiborðana sem ég notaði til að skreyta cakepops. 

pjimage-6

Ég bauð uppá kók og sódavatn í gleri og skreytti flöskurnar fallega. Eins var ég með klakavatn í fallegri glerkrukku og glös með bleikum fiðrildum fyrir það en ég fékk það bæði í IKEA. Mér finnst mjög mikilvægt að gosið sé kalt í svona veislum og því pældi ég mikið í því hvernig best væri að kæla það. Þar sem þetta voru svo margar flöskur var ég ekki með pláss í ísskápnum fyrir þær allar þar sem allir ísskápar voru fullir af mat. Því ákváðum við að geyma þær bara í geymslunni og skella þeim svo í frystinn í 90 mín og taka þær út rétt áður en gestirnir komu og þannig héldust þær kaldar í góðan tíma. 

pjimage-7

Til að spara uppvask og tíma ákváðum við að kaupa einnota dúka og vera með pappadiska. Þar sem maturinn var borðaður löngu á undan kökunum fannst mér alveg nauðsynlegt að vera með sitthvort diskinn fyrir mat og fyrir kökur. Eins finnst mér það alltaf mun skemmtilegra þegar það er sitthvor diskurinn af því það er ekkert sérstaklega skemmtilegt að borða rjómatertu af disk sem er allur í bbq sósu og spicy majó 😉 Þetta var ekkert smá þægilegt þar sem við vorum með 2 veislur að vera með pappadiska og einnota dúka og ekkert mál að taka til. Við tókum alveg til eftir matinn í fyrri veislunni áður en athöfnin var og því allt hreint og tilbúið fyrir kökuhlaðborðið. Það tók ekkert smá stuttan tíma enda fóru allir diskar beint í ruslið og ekkert uppvask. Maturinn var svo bara plastaður og settur inní ísskáp, tilbúinn fyrir veisluna um kvöldið.  Ég keypti ljósbleika pappadiska í Allt í köku og dökkbleikar servíettur í IKEA. Svo vorum við með hvítan einnota dúk og bleikan yfirdúk yfir. Ég var búin að dúka öll borð og raða diskum, servíettum, glösum, áhöldum og hnífapörum kvöldið áður til að spara mér tíma. 

pjimage-9

Til að skreyta aðeins húsið keypti ég pompoms af Aliexpress og hengdi á 2 stöðum og eins var ég með 3 búnt af bleikum blöðrum sem ég notaði til að skreyta fyrir utan og við hurðina. Mamma kom svo með bleikar rósir og bleik blóm. Ég pantaði einnig 16 skemmtilegar myndir af okkur og Emblu sem hafa verið teknar síðan hún fæddist  í polaroid stíl af síðunni Instaprent. Ég keypti svo bleikar litlar klemmur af Aliexpress og strengdi bleikt band yfir stóra mynd í stofunni og hengdi myndirnar á bandið með bleiku klemmunum. Þetta vakti mikla lukku og fólki fannst mjög gaman að geta skoðað allskonar myndir af henni í veislunni en við vorum með í bland myndir úr myndatöku sem við fórum í og eins myndir sem við höfðum sjálf tekið af henni. 

pjimage-8

Dagurinn var alveg yndislegur í alla staði og frábært að fá að eyða honum með öllu fólkinu okkar sem okkur þykir svo vænt um. Embla Ýr vakti mestallan daginn og ætlaði greinilega ekki að missa af neinu en ákvað þó að taka sér smá lúr einmitt á meðan presturinn skírði hana. Þetta kom sér mjög vel þar sem mamma tilkynnti okkur það um morguninn að samkvæmt einhverri hjátrú eigi börnin alltaf að taka smá lúr í skírnarkjólnum sínum. Hún sofnaði eins og steinn þegar gestirnir fóru og svaf í 8 heila tíma sátt með nýja nafnið sitt. 

 

hronn

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply