Afmæli og veislur Bakstur Diy Gjafahugmyndir Hrönn Jól Lífið Matur Matur og vín

Jólakonfektið mitt

Ég er svo ótrúlega mikið jólabarn að ég er alltaf að leita mér að nýjum skemmtilegum jólaverkefnum. Eitt árið datt mér í hug að gera heimagert konfekt og gefa vinum og vandamönnum og eftir það hefur þetta verið stór hluti af jólaundirbúningnum á þessu heimili og er orðin algjör jólahefð.

Fyrstu árin var þetta nokkuð saklaust.. ég gerði smá konfekt og skellti í nokkrar öskjur en núna er þetta orðin hálfgerð framleiðsla hjá mér og í ár geri ég 900 mola og gef 42 konfektöskjur. 

Ég er búin að vera að sýna frá konfektgerðinni á snapchat og undirtektirnar hafa verið svo góðar að ég ákvað að skella í færslu með uppskriftum. 

Ég sýni allar uppskriftirnar miðað við 100 mola en í ár gerði ég 1,5 falda uppskrift af öllu.

Uppskriftirnar eru frá öllum áttum, bæði hef ég búið þær til frá grunni eða notað að hluta til frá öðrum vefsíðum, mest þá frá sænskum síðum (Svíarnir eru greinilega algjörir sælkerar). En hér koma uppskriftirnar. Auðvitað er hægt að breyta uppskriftunum og minnka þær og stækka eftir því hvað þið viljið marga mola. Eina sem þarf að passa er að formið sem konfektið er sett í sé af réttri stærð miðað við magn. Hér er frábær síða þar sem hægt er að setja inn uppskriftina, stærð á forminu sem gert er ráð fyrir að nota og svo stærð á forminu sem þú vilt nota og þá kemur uppskriftin upp í réttum hlutföllum fyrir þitt form. Algjör snilld !

 

Rocky road  (100molar)

 • 900g  70% súkkulaði 
 • 3 pokar Dumle karamellur
 • 3 lúkur af litlum sykurpúðum
 • 200g salthnetur
 • 70g pistasíuhnetur

Skerið dumle karamellur í tvennt og blandið þeim saman við sykurpúða og salthnetur. Hellið blöndunni í ferkantað form sem er ca. 30×30. Best að hafa smjörpappír í botninum og smyrja formið vel. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og hellið yfir blönduna í forminu og dreifið jafnt. Í lokin er pistasíuhnetum stráð yfir. Setjið formið í kæli þar til súkkulaðið harðnar og skerið svo í bita. 

IMG_0410

Cookie dough trufflur (100 kúlur)

 • 2 pakkar af Betty Crocker smákökudeig
 • 2 pokar lakkrískurl Nóa 
 • 300g Nóa rjómasúkkulaði hreint
 • 200g síríus konsúm með orange bragði
 • 100g 70% súkkulaði til skrauts

Gerið smákökudeigið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Bætið útí það lakkrískurli og blandið vel saman. Mótið kúlur úr deiginu. Bræðið saman rjómasúkkulaði og konsúm með orange bragði og hjúpið kúlurnar með blöndunni. Til að skreyta kúlurnar er 70% súkkulaði brætt og sprautað með sprautupoka með mjóum stút yfir kúlurnar. 

IMG_0413

Döðlugott (100 bitar)

 • 360g mjúkar döðlur
 • 120 g púðursykur
 • 240 g smjör
 • 3 bollar rice crispies
 • 200g síríus konsúm suðusúkkulaði

Bræðið saman í potti döðlur, púðursykur og smjör þar til blandan er orðin þykk og döðlurnar ekki í bitum lengur. Bætið rice crispies útí og blandið vel saman. Setjið í form sem er ca 30×30 og sléttið jafn úr blöndunni. Best að hafa smjörpappír í botninum og smyrja formið vel. Bræðið suðusúkkulaði yfir vatnsbaði og dreifið yfir blönduna. Kælið og skerið í bita. 

IMG_0412

Oreo trufflur (90-100 kúlur)

 • 675g oreo kex
 • 337g rjómaostur
 • 500g síríus konsúm hvítir súkkulaðidropar
 • nokkrar oreo kexkökur í viðbót til skrauts

Brjótið oreo kex í bita og setjið í matvinnsluvél þar til það er alveg mulið. Bætið útí mulninginn rjómaostinum og blandið vel saman. Þetta er líka hægt að gera í höndunum ef matvinnsluvél er ekki á heimilinu. Þá er sniðugt að mylja kexið í blender áður. Mótið kúlur úr blöndunni. 

Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og hjúpið kúlurnar. Myljið nokkrar oreo kexkökur til viðbótar og stráið smá mulning yfir hverja kúlu þegar búið er að hjúpa hana til skrauts.

IMG_0432

Snickersbitar (100 bitar)

 • 450g rjómasúkkulaði hreint
 • 450g síríus konsúm suðusúkkulaði
 • 600g sykurpúðar
 • 300g smjör
 • 6mtsk hnetusmjör
 • 300g salthnetur
 • 1200g rjómakúlur Nóa
 • 6 mtsk mjólk

Lag 1 – Bræðið helming af rjómasúkkulaði (225g) og helming af suðusúkkulaði (225g) yfir vatnsbaði og hellið í botninn á formi sem er ca 30×30. Best að setja smjörpappír í botninn og smyrja formið vel áður. Skellið forminu í frysti meðan lag 2 er útbúið. 

Lag 2 – Setjið sykurpúða, smjör og hnetusmjör í pott og bræðið þar til allt er vel blandað saman. Hellið útí þetta salthnetum. Hellið yfir lag1 og setjið formið aftur í frystinn

Lag 3 – Bræðið rjómakúlur og mjólk saman í potti þar til það verður að þykkri karamellublöndu. Hellið yfir lag 2 og setjið formið aftur í frystinn

Lag 4 – Bræðið seinni helming af rjómasúkkulaði (225g) og seinni helming af suðusúkkulaði (225g) yfir vatsnbaði og hellið yfir lag 3.

Setjið í kæli þar til súkkulaði er harðnað og skerið i bita. 

IMG_0433

Baileys trufflur (100 kúlur)

 • 1,75dl Baileys
 • 2,6 dl rjómi
 • 875g síríus konsúm suðusúkkulaðidropar
 • kakó til að velta kúlunum uppúr

Hellið suðusúkkulaðidropum í skál og geymið. Setjið Baileys og rjóma í pott og hitið að suðu (á alls ekki að bullsjóða). Hellið heitri blöndunni yfir súkkulaðidropana þannig að það fari yfir allt súkkulaðið. Látið bíða í 1 mínútu og hrærið svo vel þannig að allt blandist vel saman og allt súkkulaðið sé bráðið. Setjið í kæli í a.m.k. 2 klst áður en mótaðar eru kúlur úr blöndunni. Ef blandan er of lin þarf að kæla betur. Mótið kúlur úr blöndunni og veltið hverri kúlu uppúr kakó dufti. 

IMG_0416

Endilega kíkið á mig á snapchat:hronnbjarna – nóg að gera í eldhúsinu um jólin 🙂 

hronn

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply