Lífið Tinna

Hvað ætlaru að verða þegar þú verður stór?

Ég verð 28 ára gömul eftir 10 daga og ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að vera þegar ég verð stór. Ég er samt löngu orðin stór, er það ekki? 😀

Ég er búin að vera í skóla síðan ég byrjaði í 1. bekk, non stop. Já sem sagt í 23 ár! Samt er ég algjör sauður og stundum hafa mínir nánustu gert mikið grín að mér og mínum námsleiðum. Sem ég skil alveg svona ef ég spái í hvað ég gæti verið lööööngu búin að klára eitthvað og vinna við það í einhver ár.

Ég kláraði grunnskólann, fór beint í Flensborg á fjölmiðlafræðibraut og ætlaði mér auðvitað að klára hana. Átti eitthvað um eitt ár eftir þegar ég gjörsamlega missti allan áhuga á að vera þarna m.a. vegna kennara sem felldi mig á prófi sem ég síðan féll ekkert í eftir að ég fékk annan kennara til að fara yfir því ég vissi alveg að ég hefði náð prófinu, en það er önnur saga!

Ég hætti og byrjaði næstu önn í FB því ég ákvað að fara í snyrtifræði. Tók eina eða tvær annir í undirbúning og byrjaði svo í snyrtifræðinni sem tók svo tvö ár að klára. Ákvað svo að klára stúdentinn líka þar sem ég átti svo lítið eftir til að klára hann þannig að ég tók auka önn.

Tók svo þrjá mánuði af tíu á samningum til þess að fá réttindi til þess að taka sveinspróf. Mér fannst ótrúlega gaman í skólanum en ég bara var ekki að finna mig og mér fannst launin sem í boði væru eftir sveininn léleg þannig að ég ákvað að hætta.

Ákvað að fara í viðskiptafræði, enda kellan komin með stúdentspróf og alles! En nei þar er krafa um ákveðið mikið af stærðfræði, ensku og svoleiðis skemmtilegheit þannig að ég skellti mér eina önn í MK til að bæta við mig einingum svo ég kæmist inn í viðskiptafræðina.

Ég var sem sagt búin að fara í próf sem kallast Strong og er áhugasviðspróf og þar kom lögfræði og viðskiptafræði hjá mér í topp 2..sem meikaði eiginlega ekki alveg sense þar sem ég myndi aldrei meika lögfræði zzzz. En viðskiptafræðin passaði vel þar sem ég hef mjög gaman af reikningi og hef alltaf verið mjög góð í honum…. eða áður en ég varð mamma og heilinn minn steiktist illilega og stærðfræðikunnáttan semí flaug út um gluggann haha..

Ég byrja í viðskiptafræði og tek þessu mjög alvarlega.. djamminu sem sagt. Mæti í allar vísindaferðirnar og skemmti mér konunglega en hugsaði lítið um námshlutann. Jólaprófin gengu í garð og mér gekk bara lala, enda hefði ég átt að læra MUN meira. Síðan kemur næsta önn og djammruglið heldur bara áfram og ég er eitthvað hálf lost í lífinu. Veit ekkert hvað ég vill og það komu upp smá erfiðleikar í sambandinu hjá mér og Arnóri og ég tók ákvörðun um að hætta þessu rugli og taka mig á. Sem sagt vera dugleg að læra, hætta að djamma og huga að sambandinu mínu. Stuttu seinna varð ég ólétt af Óla Frey og við Arnór mjög ánægð með það þar sem við vorum búin að ákveða að eignast barn stuttu áður. Þá fyrst tek ég mig á og læri og læri.

Jólaprófin koma og ég var kasólétt, kláraði seinasta prófið 17 eða 18 des og var sett 31. des. Stend mig mjög vel og einkunnirnar góðar og ég mjög sátt með það. En ég var samt einhvernveginn ekki að finna mig, rosa margir í þessu námi og fannst þetta vera einhvers konar færibandavinna og ég bara einn haus af svona 300. Þannig að ég tek ákvörðun um að hætta!

En ég var sem betur fer búin með 60 einingar og því í boði fyrir mig að hafa viðskiptafræðina sem aukagrein sem mér fannst algjör snilld. Þannig að ég legg höfuðið í bleyti og skoða allt nám sem í boði er í grunnnámi HÍ. Valið stendur á milli ferðamálafræði og táknmálsfræði. Ég hafði alltaf rosalega gaman af því að tala afturábak þegar ég var lítil og var fáránlega góð í því og svo talaði ég hottitotti tungumálið fræga (ehh ekki?) mjög vel þannig ég hélt að ég myndi eiga vel heima í táknmálsfræðinni en ferðamálafræðin hafði samt vinninginn. Ég meina hver elskar ekki að ferðast? Mér fannst valið mjög skynsamleg ákvörðun og námið hljómaði mjög spennandi og öðruvísi.

Ég byrjaði í ferðamálafræðinni í ágúst 2014 og er að klára núna í des og mun útskrifast í febrúar. Verð þá LOKSINS búin að klára eitthvað og komin með BS gráðu, vúhú!

En hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór? Guð minn.. ekki hugmynd..

Ég er allavega sjúklega ánægð að hafa byrjað í þessu námi og þetta hefur gengið mjög vel þrátt fyrir að hafa átt eitt og svo tvö börn og verið í 50 til yfir 100% námi allan þennan tíma 🙂 Og ekki skemmir fyrir að það má taka börn með sér í tíma ef þess þarf og gerði égþað nokkrum sinnum, Óli Freyr kom einu sinni með mér í skólann þegar ég hélt fyrirlestur, hinum nemendanna til mikillar skemmtunar þar sem hann var hlaupandi þarna út um allt á meðan 🙂 Svo fæddist Elín Kara á miðri önn og hún kom oft með mér í tíma og svaf vært í bílstólnum sínum á meðan.

Ég er líka mjög þakklát að búa í landi þar sem ég hef möguleika á að mennta mig eins og mér sýnist. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. En það verður samt ekkert stuð að borga Lín til baka samt get ég sagt ykkur….en þetta er og var allt þess virði og miklu meira en það! 🙂

Pointið mitt með þessari færslu er kannski aðallega að benda þeim sem vita ekkert hvað þeir ætla að vera þegar þeir verða stórir á að það er allt í góðu.. ég allavega veit það ekki ennþá en verð alltaf mjög ánægð og stolt af mér að hafa komið mér í gegnum nám sem að mér fannst skemmtilegt og svo er bara að finna skemmtilega vinnu! 🙂

Annars mæli ég rosalega mikið með www.hi.is þar er listi um nám sem eru í boði og það hjálpar mjög til við útilokunaraðferðina!

Jæja ég ætla halda áfram að læra.. en þessi færsla spratt upp vegna þess að ég átti að vera að læra en auðvitað dettur manni alltaf allt annað í hug en að læra! 😉

tt

You Might Also Like

1 Comment

  • Reply
    Kristrún
    23. November, 2016 at 12:37 pm

    Ég tengi mjög vel við þetta! úfff lífið sko….

  • Leave a Reply