Diy Heimilið Hrönn Lífið Þrif

Heimilisþrifin mín

Ég fæ oft svo rosalega margar spurningar þegar ég er að þrífa á snapchat að ég ákvað að skella í eina færslu og fara yfir það hvernig ég þríf, með hvaða efnum og hvað ég geri í hvert skipti. 

Ég þríf húsið mitt vikulega, tek létt þrif inná milli og svo er ég með stórþrif einu sinni í mánuði. Ég reyni að gera alltaf vikuþrifin á fimmtudögum og tek svo létt þrif á mánudögum. 

Áður en ég þríf byrja ég alltaf á því að ganga frá öllu á sinn stað og taka til. Það er ómögulegt að þrífa þegar það er allt í drasli. Á meðan ég er að þrífa reyni ég að þvo a.m.k 2-3 þvottavélar og enda svo á suðuvél með öllum tuskunum.  

Vikuþrifin mín á fimmtudögum:

 • skipta um rúmföt hjá okkur og hjá Emblu
 • þurrka af öllu með þurri rykmoppu
 • þurrka af öllu með blautri örtrefjatusku með alþrif blöndu
 • þrífa ruslaskáp
 • þrífa létt yfir bakarofn 
 • þrífa örbylgjuofn 
 • þrífa helluborð með sparcreme
 • þrífa vask í eldhúsi og þvottahúsi
 • þrífa framan á eldhúsinnréttingum, baðinnréttingum og þvottahúsinnréttingum með glertusku og edikblöndu
 • þrífa gler í sturtuklefa með sparcreme
 • þrífa alla spegla með glerklút og edikblöndu
 • þvo vask á baðherbergi með baðherbergishreinsi og strjúka svo yfir með edikblöndu
 • þrífa baðkar með baðherbergishreinsi (spraya og láta liggja í 10 mín og skola svo með volgu vatni)
 • þrífa klósettið með baðherbergishreinsi og salernishreinsi
 • tæma og þrífa ruslatunnur á baðherbergjum
 • skipta um handklæði á baðherbergjum
 • ryksuga allt
 • skúra með vatni og edikblöndu

Örbylgjuofn

Ég set skál með vatni og sítrónu inn í ofninn og stilli á 3 mínútur. Eftir það læt ég skálina vera inní örbylgjuofni í 10 mín svo gufan frá vatninu leysi um alla fitu og óhreinindu og svo get ég strokið af ofninum með rökum klút

Bakarofn

Ég nota ofnahreinsi sem ég kaupi í Ormsson. Ég sprauta hreinsinum í botninn á ofninum og á glerið og læt liggja í 10 mín og þurrka svo af með blautri tusku

Vaskur

Ég byrja á því að strá matarsóda yfir allan vaskinn og nudda vel með rökum svampi. Eftir það helli ég ediki yfir vaskinn og þá fer það að freyða með matarsódanum og er nuddað vel saman. Þá er vaskurinn allur skolaður með volgu vatni og þurrkaður og loks er farið yfir allan vaskinn með eldhúspappír með matarolíu í sem gerir mjög fallegan glans á vaskinn. 

Helluborð og sturtugler

Ég nota Sparcreme sem er efni sem fæst í Byko og nudda vel af því með höndunum yfir helluborðið og sturtuglerið. Þá læt ég þetta bíða í 10 mínútur áður en ég þríf efnið af með blautri tusku. Loks fer ég yfir með þurri tusku eða eldhúsbréfi.

Sparcreme, salernishreinsir og ofnahreinsir

Sparcreme, salernishreinsir og ofnahreinsir

 

Létt þrif á mánudögum

 • geng frá öllu á sinn stað
 • ryksuga yfir gólfin
 • strýk yfir eldhúsinnréttingu með glerklút og edikblöndu
 • þríf klósett með wc blautþurrkum
 • fer yfir spegla ef þarf með glerklút og edikblöndu
WC blautþurrkur

WC blautþurrkur

 

 

Mánaðarleg þrif (aukalega)

 • þrífa bakarofn mjög vel
 • þrífa uppþvottavél mjög vel
 • fara yfir alla skápar og skúffur í eldhúsi og þrífa, taka til og skipuleggja
 • fara yfir fataskápa hjá okkur og kommóðu hjá Embu og taka til 
 • fara yfir baðskápa og þvottahússkápa og þrífa, taka til og skipuleggja
 • þrífa borðstofustóla og leðursófasett

Bakarofn

Ég á bakarofn frá IKEA sem er með sjálfhreinsistillingu. Einu sinni í mánuði set ég þessa stillingu á áður en ég fer að sofa og morguninn eftir þarf bara að þurrka innan úr ofninum með rakri tusku. Þá tek ég líka annað glerið úr hurðinni (tvöfalt gler) og þríf bæði glerin og á milli þeirra. Ég nota ofnahreinsinn frá Ormsson og í lokin nota ég edikblöndu yfir glerið. Ég þríf svo í lokin ofninn allan að utan og læt ofnahreinsi liggja í ofnplötunum ef þær eru óhreinar. 

Uppþvottavél

Ég nota uppþvottavélahreini frá Finish sem ég læt í vélina tóma og þvæ einn hring. Eftir það þurrka ég innan úr allri vélinni með blautri tusku og þríf sigtið í botninum mjög vel. Loks set ég nýtt ilmspjald frá Finish í vélina en það er með ótrúlega góðum sítrónuilm svo það er alltaf fersk lykt inní uppþvottavélinni. 

Screen Shot 2017-09-01 at 22.03.11 Screen Shot 2017-09-01 at 22.03.03

Skápatiltekt

Í hverjum mánuði tek ég rúnt og tek til í öllum skápum og skúffum í húsinu. Mér finnst þetta ótrúlega þægileg leið til að koma í veg fyrir að það fari allt í rúst þar sem drasl vill oft safnast fyrir. Ef ég geri þetta svona reglulega tekur þetta enga stund og allt er mjög snyrtilegt og vel skipulagt. Ég fer í eldhúsið, baðherbergin, þvottahúsið og fataskápa. Ég nota þetta tækifæri líka til að henda öllu sem ekki er verið að nota og minnka þannig óþarfa dót og drasl í húsinu. 

Borðstofustólar og sófasett

Ég er með hvíta leðurborðstofustóla og hvítt leður sófasett og eins og flestir sem eiga slík húsgögn þekkja þá getur þetta orðið ansi skítugt ef þetta er ekki þrifið reglulega. Ég nota Speedball og töfrasvamp til að þrífa þessi húsgögn. Ég bleyti aðeins töfrasvampinn með vatni og spraya svo Speedball á leðrið og nudda vel með töfrasvampi og þá bara sé ég óhreinindin leka af. Loks fer ég yfir með hreinni rakri tusku. Speedball og töfrasvampur fæst bæði í Byko.

Screen Shot 2017-09-01 at 22.14.29 Screen Shot 2017-09-01 at 22.15.58

 

Endilega kíkið á mig á snapchat ef þið viljið fá fleiri þrifaráð eða fylgjast með mér þrífa  – hronnbjarna

 

hronn

You Might Also Like

4 Comments

 • Reply
  Stefan Sigfinnsson
  6. September, 2017 at 7:26 am

  Ég eyði 2 klst í þrif á 72fm íbúð aðra hverja viku og rúmlega 1 klst hina vikuna og tek ísskáp 1x í mánuði og fleira eftir þörfum yfir vikuna en ég verð pínu þreyttur að lesa þetta allt saman.

 • Reply
  Kristjana Ruth
  8. September, 2017 at 10:48 am

  Vel gert, þú veist það má ekki nota mikrófíber-tuskur á leður/pu leður það á víst að nota gömul handklæði.

 • Reply
  Anna Edda Svansdottir
  19. October, 2017 at 8:05 pm

  Hæ getur tu lagt ut Hvar tu kaupir spreybrusana.. og öll efnin tu notar ??

  • Hronn
   Reply
   Hronn
   20. October, 2017 at 8:31 am

   Sæl. Spraybrúsarnir eru frá IKEA. Efnin sem ég nota:
   Alþrif – kaupi efni í Besta sem heitir Bluestar og blanda með vatni
   Baðherbergishreinsir – kaupi efni í Rekstrarland sem heitir Evans og er fyrir baðherbergi
   Salernishreinsir – kaupi efni í Rekstrarland sem heitir Evans og er fyrir salerni
   Sparcreme – kaupi efnið í Byko
   Speedball – kaupi efnið í Byko

  Leave a Reply