Lífið Tinna

Hálskirtlataka á fullorðinsárum

Ég fór í hálskirtlatöku fyrir 9 dögum síðan og fannst tilvalið að skrifa færslu um það þegar klukkan er að verða 00 þar sem ég er búin að snúa við sólarhringnum í allri þessari rúmlegu.

Eftir að hafa fengið streptókokka í hálsinn 3x í röð ákvað ég að fara til HNE læknis og láta meta það hvort það væri ekki kominn tími á að láta fjarlægja hálskirtlana. Ég hafði fengið streptó áður, kannski 5x en þá yfir margra ára tímabil. En þegar ég fékk þá 3x í röð og þeir komu bara aftur og aftur 3-4 dögum alltaf eftir að ég kláraði sýklalyfin þá hætti mér að lítast á blikuna. Úff það er svo leiðinlegt að fá streptó!

HNE læknirinn sagði að það væri engin spurning, kirtlarnir ættu að fara burt, orðnir stórir og svampkenndir, jömmý. Þannig að hann gaf mér tíma 5. maí og svo var bara að vona það besta (þegar ég fékk tímann var nýkomið samkomubann). En svo var samkomubanninu breytt frá og með 4. maí þannig að ég komst í aðgerðina. Viðurkenni að ég var 0,0% spennt, en á sama tíma er illu best af lokið! Mig langaði neflilega að fresta þessu fram á haust því ég er í fæðingarorlofi, en er hoppandi kát núna að hafa drifið þetta af!

Ég veit ekki hvað ég fékk sendar margar hryllingssögur eftir að ég talaði um í story að ég væri að fara í hálskirtlatöku. Það virtust vera góðar líkur á því að bataferlið væri að fara vera hræðilegt. En þó að ég sé kvíðin manneskja þá á ég erfitt með að vera kvíðin yfir svona hlutum og er meira forvitin að vita hvort ég verði ein af þessum óheppnu eða hvort þetta verði bara allt í lagi?

En ég ætla að segja ykkur frá ferlinu og hvernig þetta hefur verið fyrir mig. Ég er sjálf búin að liggja á Google og lesa fullt um þetta, en fannst vanta fleiri reynslusögur á íslensku, fann bara eitthvað gamalt frá Bland.is!

Ég átti að mæta kl: 8 á Læknastöðina og vera fastandi. Svo fór ég í svona “aðgerðarföt” og lagðist á bekkinn. Ég fékk eitthvað róandi í æð og svo svæfð með grímu. Ég spurði fyrir aðgerðina hvað þetta tæki yfirleitt langan tíma og það er um hálftími. Svo bara var ég vakin eftir aðgerðina og var þreytt en leið alls ekki illa. Það er mjög misjafnt hvernig svæfing fer í fólk, sumum verður t.d óglatt og fara að æla, sem er ekki gott fyrir hálsinn eftir hálskirtlatöku. En sem betur fer leið mér bara vel, ég átti að chilla í smá stund, fékk smá vatn og svo ís. Svo bara mátti ég klæða mig og fara heim. Það þarf einhver að vera með manni því maður getur náttúrulega ekki keyrt eftir þetta þannig að Arnór beið frammi eftir mér (mátti ekki koma inn útaf Covid-19).

Ég ætla ekkert að fara út í dagana í smáatriðum en bataferlið mitt hefur vægast sagt verið frábært. Amk miðað við þessar hryllingssögur sem ég fékk sendar og las sjálf um á netinu. Þetta er neflilega mun minna mál fyrir börn, en sagan segir að því eldri sem maður er, því erfiðara verður bataferlið. En það á ekki við í mínu tilfelli, ég er 31 árs.

Ekki það, þetta er ógeðslega leiðinlegt og pirrandi ástand, ég er aum og ógeðslega svöng, en á sársaukaskalanum 1-10 er ég búin að vera 1-3!

En mig langaði til að deila með ykkur sem eigið eftir að fara í hálskirtlatöku, og sérstaklega ykkur sem eruð hrædd við að fara, hvernig mín reynsla var/er.

Talað er um að maður á að vera rúmliggjandi í 2 vikur. Læknirinn var mjög ákveðinn með það og ég auðvitað hlýði því. Maður verður að hvíla sig og leyfa þessu að gróa. Þó maður sé ekki að drepast þá getur farið að blæða við minnstu áreynslu og það vill maður svo sannarlega sleppa við.

Mikilvægast í þessu öllu saman finnst mér er að taka verkjalyfin eftir klukkunni! Ég tek eina týpu af lyfjum 4x á sólarhring og aðra týpu 3x á sólarhring, alltaf eftir klukku. Ef ég er sein að taka, sérstaklega fyrstu dagana, þá finnur maður meira til. Þannig að verkjalyfin og hvíld eru mjög mikilvæg atriði. Bara vera upp í rúmi og sofa og slaka á. Arnór tók orlof þessar 2 vikur svo ég gæti hvílt mig og jafnað mig almennilega og hann sér um heimilið og börnin.

Svo er mjög mikilvægt að drekka vel af vatni (gott með muldnum klökum) og öðrum vökva eins og ís. Svo er hægt að borða mjúka fæðu eins og kartöflumús og bollasúpur og svoleiðis. Bara passa að maturinn sé volgur eða kaldur, ég veit ekki spennó en hitinn er ekki góður fyrir hálsinn fyrstu 2 vikurnar. Mér var bent á að láta mjólkurvörur eiga sig fyrstu dagana þar sem það getur komið mjög vond lykt upp úr manni eftir svoleiðis mat þegar hálsinn er að jafna sig. Mikilvægt er svo að skola munninn vel eftir mat til að forðast sýkingu. Og svo á að bursta tennurnar 3x á dag.

Klósettferðirnar fara í pásu þegar maður borðar svona lítið (ég er t.d búin að missa 3kg so far). Þannig að ég keypti Magnesium medic töflur sem hjálpa til við það, mæli með því. Það er ekki gaman að stíflast líka, alveg nógu mikið vesen að vera svona aumur í hálsinum.

Svo er mikilvægt að það má ekki drekka/borða hvað sem er á meðan maður er að jafna sig! Það má ekki drekka appelsínusafa t.d og fleira, en ég gerði þau mistök á degi 6 að fá mér ananas í dós og ég hélt ég myndi deyja. Úff það voru erfiðar 10-15 mínútur. Það eru einhver ensím sem meiða mann ógeðslega mikið í sárunum þannig að það þarf að passa vel upp á að borða og drekka bara það sem mælt er með fyrstu 2 vikurnar!

En mig langar bara að hvetja ykkur sem eigið eftir að fara að drífa þetta af, sumir eru óheppnir og eiga mjög erfitt eftir þetta og aðrir eiga góða reynslu. Persónulega finnst mér mín reynsla mjög góð, en það er held ég því að ég bjóst við að þetta yrði eins og einhver hryllingssaga, bjóst við því allra versta en vonaði það besta. Ég er allavega 100% sátt og ánægð að vera búin í þessu og sé bara alls ekki neitt eftir því að hafa farið, er bara rosalega fegin! En flestir sem hafa farið og átt slæma reynslu myndu samt fara aftur því lífið eftir hálskirtlatöku á að vera mun betra fyrir okkur sem erum að grípa svona leiðinlegar hálsbólgur!

En fyrstu dagarnir eftir aðgerð eru erfiðastir og maður er máttlaus og svona. Man að ég fór í sturtu 2 dögum eftir aðgerðina og ég hélt ég kæmist ekki hjálparlaust úr sturtunni, rétt náði að klæða mig í nærbuxur og svo bara beint upp í rúm, með kaldan svita og leið ömurlega og fór að sofa. Svo kemur hrúður sem dettur af á degi 5-10 og þá getur blætt og maður er aumur, ég hef enn verið heppin hingað til og ekki hefur blætt en maður er aumur þegar þetta dettur af, eins og að vera með opið sár.

Það sem kom mér á óvart er hvað það eru ógeðslega margir sem eru bæði búnir í hálskirtlatöku og hvað það eru margir sem eru fullorðnir og eiga eftir að fara. Margir sem þora ekki en ætla sér að fara. Gerði nokkrar “kannanir” á Instagram og ætla deila með ykkur niðurstöðunum því mér fannst þær áhugaverðar!

Ég er allavega rosalega sátt og myndi allan daginn skella mér aftur, þetta er allt þess virði. Ég myndi bara byrja á því að fara til HNE læknis og láta meta kirtlana og taka ákvörðun út frá því. Vonandi hjálpar þessi færsla einhverjum sem er smeykur við að fara, alltaf gaman að lesa góðar sögur líka inn á milli!

Þangað til næst..

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply