Lífið Tinna

Hæ, ég heiti Tinna og ég var með búlimíu í átta ár

Þetta er ein af erfiðustu færslum sem ég mun koma til með að birta. Það er mjög erfitt fyrir mig að birta þessa færslu því að allir sem hana lesa munu vita þetta um mig.

Ég er ekki að birta þessa færslu til að fá athygli, enda margt annað gáfulegra hægt að gera til þess að fá athygli. Ég er að birta þessa færslu í von um að hjálpa öðrum. Ef ég næ að hjálpa svo mikið sem einni manneskju við lestur á þessari færslu þá er ég sátt. Það á enginn að ganga í gegnum það að vera með átröskun, en hún er samt svo algeng og ég held að hún sé miklu algengari heldur en við höldum.

En þannig er mál með vexti að ég var með búlimíu/lotugræðgi í átta ár. Mér finnst eiginlega alveg ótrúlegt að hugsa til baka, ég trúi þessu ekki. Hvað var ég að spá?

Ég er búin að vera með opið Snapchat núna í tvö ár þar sem nokkur þúsund manns fylgjast með mér daglega og er ég mjög persónuleg þar og deili miklu með fylgjendum mínum, en þetta fékk að sitja á hakanum, þetta er eitthvað sem maður skammast sín fyrir.

Það eru örfáir sem vita þetta um mig og margir sem þekkja mig sem munu lesa þessa færslu og vera hissa. En málið er að það getur verið ómögulegt að vita/sjá hver er með átröskunarsjúkdóm. Það er amk mjög erfitt að sjá það utan á búlimíusjúklingum að þeir séu með átröskun því þessir einstaklingar eru ekkert endilega mjög grannir, eins og þeir sem t.d. eru með anorexíu eru. Það er einnig mun auðveldara að gera manneskju sem er með búlimíu grein fyrir því að þetta sé mjög rangt, en annað með anorexíuna því þeim finnst oft eins og ekkert rangt sé að eiga sér stað, erfiðara að sjá vandamálið á meðan að þeir sem eru með búlimíu eiga auðveldara með að sjá hvað það er sjúkt það sem er að eiga sér stað.

Þegar ég var í grunnskóla þá var ég bara ósköp venjuleg grönn og flott stelpa og vinkonur mínar líka. En ég er með mínar mjaðmir og rass, var bara öðruvísi vaxin og var um 5kg þyngri en þær sem sást í raun ekki neitt, bara með öðruvísi vöxt og notaði því buxur frá Diesel í 27, en þær 25. Það truflaði mig mjög mikið (hversu brenglað?). Þannig að einhvern veginn byrjaði þetta allt saman þegar ég var 16 ára, þá prófaði ég fyrst að æla í klósettið og eftir það var ekki aftur snúið.

Þetta gekk á frá 16 ára til 24 ára. Ég skil ekki alveg hvernig hausinn minn virkaði, en ég s.s. fór alltaf til Glasgow á haustin í verslunarferð í fjórar nætur og eins og þeir eru með átröskun vita þá getur verið mjög óhentugt að fara að æla hér og þar, hvað þá í útlöndum (mér fannst það amk). Það er svo auðvelt þegar maður er í sínu venjulega umhverfi, t.d. heima og í vinnunni. Þannig að ég ákvað að alltaf þegar ég færi til Glasgow að þá tæki ég pásu í ferðinni og myndi bara njóta þess að borða. Svo komu jólin fljótlega eftir Glasgow ferðirnar og þá fannst mér sniðugt að taka bara pásu frá búlimíunni alltaf frá Glasgow og þangað til eftir 31. des og fór svo strax á fullt eftir áramót að einbeita mér að því að ná þessum c.a. 3 kg af sem ég fékk á mig á þessum þremur mánuðum. Þannig að ég gat alveg stjórnað þessu sjálf. Sem er mjög skrítið, því m.v. það sem ég hef lesið þá á maður ekkert að geta haft svona góða stjórn á þessu. Þannig að ég var að æla öllu sem ég borðaði um 9 mánuði ársins og tók pásu í 3 mánuði. Mér finnst MJÖG erfitt að skrifa þetta þar sem þetta er auðvitað frekar sjúkt, það verður að segjast eins og er. En þegar maður er með búlimíu þá er það bara aukaatriði, það eina sem skiptir máli er að þyngjast ekkert og vera mjó!

En allavega, ég borðaði bara það sem mér sýndist og hafði engar áhyggjur að ég myndi fitna því ég fór beint inn á klósett að æla eftir að ég borðaði. Ég man hvað það var oft sagt við mig “Vá hvað þú lítur vel út” og ég var mjög ánægð, en aðilarnir sem sögðu þetta vig mig höfðu ekki hugmynd um að ég ældi öllu sem ég borðaði til þess að “líta svona vel út.” 

Ég hef lesið mig mikið til um átraskanir, anorexíu, búlimíu o.s.frv. Það sem ég hef verið svo ósátt með eru þessir “rammar” sem átröskunarsjúklingar eru settir í. Ég passaði aldrei í þennan búlimíuramma. Það er ein ástæðan fyrir því að ég vil koma þessu frá mér því það þarf ekkert að vera að maður passi inn í þessa ramma, sem var mitt tilfelli og ég vil vekja athygli á því. Einstaklingar með búlimíu eru t.d. skilgreindir þannig að þeir borða í svaka hollum og alveg þvílíkt magn, æla því svo og æfa oftast alveg á fullu. Ég borðaði aldrei óeðlilega mikið magn í einu, eins og t.d. tvo núðlupakka og tvær samlokur, borðaði bara venjulega nokkrum sinnum á dag eins og eðlilegt fólk gerir, en fór svo bara og ældi matnum. Ég var líka lítið sem ekkert í ræktinni. Þeir sem passa ekki inn í þessa ramma gætu jafnvel hugsað “Nú jæja þá er ég kannski ekkert með átröskun, þetta er greinilega ekki svo alvarlegt hjá mér?”

Annað sem ég hef mikið spáð í er að það er alltaf talað um að þeir sem eru með átröskun sjái sig feita. Ég sá mig aldrei þannig, ég vissi að ég væri í kjörþyngd og fannst ég ekki feit, ég var bara ánægð að vera grönn og að búlimían væri að halda þyngdinni niðri. Hins vegar var ég aldrei 100% ánægð með mig og langaði alltaf að vera aðeins léttari, því það er frekar “þungt í mér pundið.” En eins og ég segi ég var ekkert svaka ósátt með mig og vissi að öðrum fannst ég flott sem dreif mig áfram. Leið vel þegar ég var að æla, en illa þegar ég tók pásur “því þá fitnaði ég”.

Eftir að ég var búin að vera með manninum mínum í tæp tvö ár þá ákveðum við að reyna eingast barn. Það sem ég hafði alltaf óttast var að ég væri orðin ófrjó eftir þetta allt saman. Ég vissi að ég þyrfti að hætta fyrir fullt og allt, þannig að ég ákvað að 31. desember árið 2012 væri minn síðasti dagur með búlimíu. Fór til Glasgow um haustið en ákvað eftir ferðina að taka ekki pástu til áramóta því ég ætlaði að hætta þá! Sjúk hugsun, ég veit.

Þetta gekk vel, enda langaði mig mjög mikið að eignast barn og vildi algjörlega hætta þessum ógeðslega búlimíu vítahring og vera heilbrigð. Ég varð ólétt í fyrstu tilraun (byrjuðum að fylgjast með egglosi og fleiru í mars þannig við vitum nákvæmlega hvenar ég varð ólétt) og eignaðist fyrsta barnið mitt 26. desember 2013. Þannig að sem betur fer var ég ekki búin að skemma þann valmöguleika að verða móðir, það hefði eyðilagt mig. Ég þyngdist um 23kg á meðgöngunni og borðaði mjög vel og setti barnið mitt í fyrsta sæti og gaf loksins skít í búlimíuna, barnið skyldi ganga fyrir! Kílóin fóru sem betur fer öll nema einhver þrjú sem sátu eftir nokkrum mánuðum eftir fæðingu (23kg er svolítið mikil þyngdaraukning á meðgöngu, enda spáði ég ekkert í þyngdinni og vildi borða vel og vera heilbrigð).

Ég hef ekki ælt síðan 31. desember 2012 og myndi ALDREI byrja aftur, enda er ég um 11kg þyngri núna heldur en ég var þá. Langar alveg að missa nokkur kíló (og má alveg við því). EN ég er ekki að fara óheilbrigða leið núna, heldur fer ég í ræktina reglulega og borða hollt, í staðinn fyrir að borða ógeðslega óhollt og æla matnum. Svo fasta ég á morgnanna, borða fyrst hádegismat og svo ekkert eftir kvöldmat til þess að detta ekki ofan í nammipokann, en vík frá þeirri reglu á laugardögum. Ég fasta því ég tel það hollt fyrir líkamann en borða alveg jafn mikið, bara á styttri tíma yfir daginn t.d. borða ég þá í c.a. 7 tíma á daginn í stað 12 og þetta hentar mér mjög vel og ég tengi þetta alls ekki neitt við búlimíuna.

Hér kemur smá skilgreining á búlimíu/lotugræðgi sem ég fann á netinu:

Hvað er lotugræðgi?

Lotugræðgi, eða búlimía, er átröskunarsjúkdómur sem einkennist af óhóflegu áti í endurteknum lotum sem enda síðan með því að fólk kastar upp matnum eða reynir að framkalla hægðir. Búlimía er geðsjúkdómur og að mörgu leiti líkur lystarstoli. Algengast er að konur á aldrinum 18 til 25 ára þjáist af búlimíu, en þó geta drengir og fólk í öðrum aldurhópum líka fengið sjúkdóminn.

Hver eru einkenni lotugræðgi?

 • Búlimíu fylgir ekki endilega þyngdartap eða -aukning: Sjúklingar geta verið í kjörþyngd svo árum skiptir, en samt verið haldnir sjúkdómnum. 
 • Fólk tekur átlotur, borðað óhóflegt magn af mat. Síðan er reynt að koma í veg fyrir að líkaminn melti hann, s.s. með uppköstum eða lyfjum. -borðaði ekki óhóflega mikið
 • Fólk tekur lyf sem stjórna meltingunni. -aldrei gerði ég það
 • Fólk upplifir mikla hræðslu við að fitna og þyngjast.
 • Fólk einangrar sig og tekur ekki þátt í félagslífi. -á ekki við í mínu tilfelli
 • Fólk fastar, eða er stöðugt í megrun, en fær inn á milli óstjórnlega löngun í mat sem yfirleitt endar með mikilli átlotu. -borðaði bara nokkuð venjulega, ekki neinar átlotur, þó svo að ég leyfði mér vissulega að borða hvað sem er
 • Bulimiu sjúklingar þjást gjarnan af mikilli skömm og hjálparleysi.

Finnst endilega vanta að taka það fram í svona skilgreiningum að það þurfi ekkert endilega að vera með ÖLL einkennin til þess að vera með búlimíu. Ef ég var ekki með búlimíu, hvað var þetta þá? Ég ældi öllu sem ég borðaði.

Hægt er að lesa meira HÉR frá þessari síðu sem ég fann (skrifaði bara bulimia í leitargluggann á google og opnaði það fyrsta sem kom upp, en yfirleitt eru lýsingar á búlimíu svipaðar/eins. 

Nú langar mig að skrá aðeins niður kosti og galla við að hafa gert sjálfri mér þetta í öll þessi ár:

Kostir: Bara svo það sé alveg á hreinu þá eru nákvæmlega engir kostir, nema sjálfsblekkingin sem á sér stað er þannig að þú heldur að þú sért að gera góða hluti og sért mjó/r og flott/ur útaf búlimíunni (þó svo að maður viti alveg vel innst inni að þetta er sjúkt og rangt).
Búlimía hefur bara slæm áhrif, andlega og líkamlega.

Gallar: Þið finnið svo mun fleiri galla á netinu ef þið lesið ykkur til um búlimíu!

 Átröskun getur dregið þig til dauða, þetta er stórhættulegur sjúkdómur og er flokkaður sem geðsjúkdómur

Þú lifir í einhvers konar búlimíu heimi þar sem allt snýst um að æla, koma matnum úr þér “svo þú fitnir ekki”

Þetta hefur áhrif á allan daginn þinn, alla daga, og þú hugsar stöðugt um að fara að borða og svo æla (þó að ég hafi ekki borðað óeðlilega mikið eða óeðlilega oft þá hugsaði ég mikið um það hvað ég ætlaði að borða næst og hlakkaði til)

Mjög algengur galli er t.d. að tennurnar skemmast, sem betur fer sér ekkert á mínum tönnum og í raun hvergi annars staðar að ég hafi verið með búlimíu en skemmdar tennur eru mjög algengar

Það er nákvæmlega ekkert gott sem kemur út úr þessu, ég fór í hjartarannsókn fyrir um 1.5 ári því ég var svo hrædd um að ég væri búin að skemma hjartað mitt, það eru mjög mikil átök fyrir hjartað manns að æla svona oft í öll þessi ár!

Að vera með tannbursta og tannkrem í töskunni í mörg og og bursta allt að 10x á dag er alveg hrikalega þreytt dæmi, en þetta gerði maður.

 

Áður en ég birti þessa færslu sagði ég mömmu frá þessu og bræðrum mínum, en þau höfðu ekki hugmynd um þetta, mér fannst það mjög erfitt en á sama tíma auðvitað betra að þau viti af þessu áður en ég fer að birta þetta á netinu. Þannig að það er þungu fargi af mér létt að “koma út úr skápnum” búin að vera með þetta á bakinu í öll þessi ár.

Ef þú ert með átröskun, PLÍS hættu, ef þú getur það ekki án aðstoðar, farðu og fáðu hjálp! <3 Ég lofa þér því að þetta er ekki þess virði og lífið er svo miklu betra án átröskunar.

Það er mun betra að fara bara í ræktina öðru hvoru og reyna að borða hollt. Lífið snýst um svo miklu meira en útlitið. Ég t.d. vil alveg missa um 5-10kg því ég er aðeins of þung en það er bara svo margt annað sem skiptir mál í lífnu heldur en hvað maður er þungur. Líf mitt einkenndist af þessu helvíti í öll þessi ár, vá hvað ég vildi óska þess að ég gæti tekið þetta til baka, en ég get það því miður ekki. Plís hugsaðu þig um langtímaáhrifin og reyndu að hætta og fáðu aðstoð, þú munt ekki sjá eftir því. Ég þurfti ekki aðstoð en það er mjög algengt að þurfa aðstoð og nákvæmlega ekkert að því.

Líf mitt er svo MIKLU betra án búlimíunnar og ég hef lært með tímanum að það er öllum drullusama hvað ég er þung, nema mér. Að vera með búlimíu snýst rosalega mikið um að líta vel út fyrir aðra, maður spáir mikið í því hvernig aðrir sjá mann. Það hefur hjálpað mér mikið að hætta að spá í því hvað öðrum finnst, því það eru allir alltaf bara að hugsa um sig, það eru allir svo uppteknir af sjálfum sér og halda að allir séu að spá í sér, en það er alls ekki svoleiðis. Ef ég fitna eða grennist um einhver kíló þá er enginn að velta sér neitt upp úr því nema ég. Lifum bara okkar lífi og hættum að spá í því hvað öðrum finnst. Ég er nokkrum kílóum of þung, en hey, það er öllum alveg sama, nema mér!

 

Hér koma nokkar myndir af mér, teknar árið 2010 & 2011 og svo myndir teknar núna á árinu 2018.

 2010 & 2011, vannærð ung kona með átröskunarsjúkdóm sem heltók líf hennar:

 43531160_10155961283379422_3430079565416890368_n

43674840_10155961283359422_6538232086250127360_n

43760605_10155961283384422_3083379621916311552_n

43716534_10155961283274422_1789679478872473600_n

43626248_10155961283279422_6170730078536728576_n

43951974_10155961283264422_4786033184947044352_n

 

2018, heilbrigð og hraust kona sem langar að missa nokkur kíló en ætlar sér að gera það heilbrigðu leiðina og ætlar sér aldrei að æla aftur:

IMG_1713

IMG_1957

 IMG_6993

 IMG_8036

IMG_9970

Hér kemur svo síðasta myndin sem ég á mjög erfitt með að deila, en hún sýnir mig, alveg eins og ég er, í bikiníi. En ég er enn að læra elska mig sjálfa og þetta er allt að koma, hægt og rólega. Tekin í júní 2018 og sýnir formið sem ég er í núna. Ég er að reyna að elska mig eins og ég er og auðvitað hefur líkaminn breyst eftir tvær meðgöngur og tvo keisaraskurði. En fjandinn hafi það, ég er flott eins og ég er og hana nú! Flott bikiní samsetning by the way haha.. 🙂 

IMG_0764

 

Ef þú ert með átröskunarsjúkdóm þá bið ég þig að hætta og fá hjálp ef þú þarft þess, ég get lofað þér því að þú MUNT sjá eftir þessu, þó svo að þú sjáir ekki sólina núna og finnst þú vera föst/fastur þá verður þetta betra. Ég veit að það er ógeðslega erfitt að hætta þegar maður er fastur í vítahring en ef þú lítur til baka eftir X mörg ár þá verður viðhorf þitt eins og mitt, fullt af eftirsjá.

 

Þangað til næst

TF

19959092_10154892662749422_4851378528896000840_n

Snapchat, Instagram & Facebook: tinnzy88

 

 

You Might Also Like

3 Comments

 • Reply
  Fanny Maria
  11. October, 2018 at 11:01 pm

  Vel gert Tinna mín það eru ekki allir svona kjarkarðir 👍ánægð með þig hvað þú kemur þessu vel frá þér í útskýringum

 • Reply
  Jenný Lind Samúelsdóttir Herlufsen
  12. October, 2018 at 9:21 am

  Ég veit ekki hvort ég myndi nokkru sinni þora að deila svona. En vá hvað ég er stolt af þér elsku fallega vinkona mín.

  Btw, síðasta myndin af þér er algerlega To die for! :* :*

 • Reply
  Steinunn Þorkelsdóttir
  12. October, 2018 at 9:47 am

  Virkilega vel gert elsku vinan flott og góð grein hjá þér gangi þér vel elsku Tinna

 • Leave a Reply