Fjölskylda Jól Lífið Tinna

Fyrstu jólin án pabba

 

Þessi jólin verða mjög skrítin. Það er hálft ár síðan pabbi lést, stundum líður mér eins og ég hafi ekki séð hann í mörg ár og stundum líður mér eins og það sé frekar stutt síðan ég sá hann síðast. Hann veiktist í júní 2015 og lést í júní 2017, síðustu 2.5 ár hafa verið mér og fjölskyldu minni ótrúlega erfið.

Þannig að þetta verða fyrstu jólin án hans. Við vorum vön því að vera alltaf hjá mömmu og pabba á jólunum en höfum ákveðið að vera heima hjá mér í ár. Þannig mamma bara mætir til okkar og þarf ekkert að vera stressa sig á einu né neinu, okkur fannst algjörlega við hæfi að breyta til og halda jólin hjá okkur og leyfa mömmu að slaka á og þurfa ekki að vera í einhverju stressi að elda og gera allt heima hjá sér, heldur þá bara mætir hún til okkar og hefur það kósý.

Áður en pabbi veiktist þá hvarlaði aldrei að mér að ég myndi missa foreldri svona ung, pabbi var bara rétt nýorðinn 54 ára þegar hann lést, langt fyrir aldur fram. Áður en hann veiktist vorum við þessi týpíska fullkomna fjölskylda, allir alltaf saman og vorum (og erum samt enn) mjög samrýnd og náin. Lífið mitt í dag er búið að breytast svo mikið á þessum 2.5 árum síðan pabbi veiktist. Áður en hann veiktist þá var ég mjög hamingjusöm. Hafði litlar sem engar áhyggjur af neinu og naut þess í botn að lifa. Átti 18 mánaða strák og komin 6 mánuði á leið með stelpuna mína, lífið lék við okkur. Svo eftir að pabbi veiktist og greindist með ólæknandi krabbamein þá breyttist allt smátt og smátt.

Núna er ég leið, sár, þunglynd, kvíðin, reið og fullt af alls konar neikvæðu. Jólin eru eftir viku og ég hef aldrei verið jafn lítið spennt fyrir þeim og myndi helst vilja sleppa þeim. EN, ég á tvö lítil börn sem eiga það skilið að eiga hamingjusama mömmu sem hlakkar til jólanna með þeim, þannig ég er að reyna eins og ég get.

Ég var eitthvað að tala við bróður minn um daginn um alls konar, og sagði honum að mér liði mjög illa, væri alltaf þreytt og væri bara ekki að njóta þess að vera til. Hann gaf mér smá „wake up call“ því hann tók dæmi um að t.d. einhver annar í kringum okkur myndi veikjast/slasast/deyja, þá myndi mér líða enn frekar illa að hafa verið svona leið alltaf og ekki að halda áfram með lífið og myndi eflaust velta mér mikið upp úr því að hafa verið svona leið alltaf í staðinn fyrir að vera jákvæðari og halda áfram með lífið.

Þannig að ég ætla reyna eins og ég get að setja jólaskapið í gang og njóta jólanna með fólkinu í kringum mig. Það þýðir ekkert að vera velta sér upp úr því sem liðið er, þó það sé algjörlega eðlilegt að syrgja, þá verður maður samt að halda áfram að lifa lífinu.

Ég vona að þið munuð öll eiga gleðileg jól og áramót með fólkinu í kringum ykkur, ég ætla allavega svo sannarlega að gera það, ég veit að það er það sem pabbi hefði viljað!

Gleðileg jól, p.s. ég mun taka mig á í blogginu eftir áramót! 🙂

 

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply