Lífið Tinna

Flutningsævintýrið okkar – fluttum 9x á rúmum 5 árum

 

Við Arnór byrjuðum að búa saman í mars 2012, þá var hann 20 ára & ég 23 ára & við vorum búin að vera saman í tæpt ár. Við vorum ótrúlega spennt að byrja að búa saman, en þarna höfðum við ekki hugmynd um hversu oft við ættum eftir að flytja næstu rúmu 5 árin!

Við fluttum inn í litla sæta íbúð í Hafnarfirðinum, ég sakna hennar enn í dag, gamalt hús, en ótrúlega kósý & mér þótti mjög vænt um þessa íbúð. En við vorum bara í henni í eitt ár þar sem að við ákváðum að flytja inn til mömmu Arnórs & byrja að safna okkur pening svo við gætum keypt okkar eigin íbúð. Þegar við vorum búin að búa hjá mömmu hans Arnórs í nokkra daga tók ég óléttupróf & komst að því að við Arnór ættum von á barni. Þannig að við vissum ekki alveg hvað við ætluðum að gera, hvort við ættum að vera áfram hjá mömmu hans Arnórs eða fara að leigja aftur. Upp kom sú staða að kunningjakonu minni vantaði leigjendur & við ákváðum að slá til. Nema hvað að sú íbúð var á sölu & búin að vera lengi en svo auðvitað seldist hún þegar við vorum búin að vera þarna í um 3 vikur þannig að við leigðum hana bara í einn mánuð! Þannig að ég fór á fullt að reyna að finna aðra íbúð, komin mjög stutt á leið & við vildum endilega finna einhverja litla sæta íbúð & koma okkur vel fyrir áður en erfinginn myndi mæta á svæðið.

Ég sá auglýsingu á bland.is & eftir á að hyggja tel ég að örlögin hafi átt sinn þátt í þessu öllu saman, en ég hringdi s.s. í leigjandann & hann var frekar pirraður í símann & greinilega mjög margir búnir að hringja í hann varðandi íbúðina. Ég spilaði „óléttuspilinu“ á hann & sagði að við ættum von á barni & að þessi íbúð væri fullkomin fyrir okkur, þrátt fyrir að vera bara 50m2 & með einu svefnherbergi. Hann sagði mér að hann væri að biðja fólk um að hringja bara í sig í hádeginu daginn eftir, sem var laugardagur. Daginn eftir var ég alveg á nálunum & hringdi í hann rétt fyrir kl 12, ég var greinilega sú fyrsta til að hringja því hann bauð okkur að koma strax að skoða þannig að við mættum að skoða seinna sama dag & með pening fyrir leigunni & ákváðum að slá til. Íbúðin var samt vægast sagt ÓGEÐSLEG, s.s. mjög illa þrifin, eða já, ekkert þrifin & örugglega 100 kettir sem hafa átt heima þarna því lyktin var viðbjóður. Þannig að við tók margra daga þrifvinna & við vorum staðráðin í því að gera íbúðina kósý & að við vildum vera þarna. Staðan var bara það slæm á leigumarkaðnum að maður tók bara því sem var í boði! (er það ekki annrs ennþá svoleiðis?)

 

Íbúðin var orðin mjög kósý & flott á stuttum tíma & okkur leið mjög vel þarna. En við höfðum það samt alltaf á bakvið eyrað að okkur langaði að kaupa íbúð sem fyrst. Þegar við vorum búin að búa þarna í um eitt ár þá ákváðum við að flytja til mömmu & pabba & safna pening svo við gætum keypt íbúð sem allra fyrst. Þannig að bróðir minn fór í íbúðina sem við vorum að leigja & við fórum í herbergið hans í bílskúrnum hjá mömmu & pabba. Þarna var Óli Freyr um hálfs árs gamall, en það fór mjög vel um okkur hjá mömmu & pabba & í dag er ég svo extra glöð í hjartanu að við slógum til því pabbi & Óli Freyr áttu þarna margar dýrmætar stundir & fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Flutningssögu okkar er svo sannarlega ekki lokið þarna, á þessum tíma vorum við búin að flytja fimm sinnum á rúmum tveimur árum & vissum ekki að við ættum fjögur skipti eftir, á þremur árum! Þegar við vorum búin að vera hjá mömmu & pabba í um þrjá mánuði þá hringir leigusalinn okkar í okkur & tilkynnir okkur það að hann ætli að setja íbúðina á sölu. Það fyrsta sem mér datt í hug var að við myndum reyna að kaupa hana. Þannig að ég ræddi þetta við mömmu & pabba & var orðin æsispennt fyrir þessu & sagði Arnóri frá þessari hugmynd þegar hann kom heim úr vinnunni & eftir smá (okey mikla) sannfæringu þá var hann líka til. Málið var neflilega að íbúðin var lítil & aðeins með einu svefnherbergi & við komin með barn þannig að stærðin var kannski ekki alveg hentug. EN mér var alveg sama um það, því ég vissi að einhversstaðar þarf maður að byrja & betra að byrja „á botninum“ & vinna sig upp! Ég vildi bara koma okkur á markaðinn sem fasteignaeigendur.

Við vorum ekki alveg búin að safna okkur nægum pening á þessum þremur mánuðum til þess að eiga nóg fyrir 15% útborgun, en ég náttúrulega átti mömmu & pabba sem gerðu allt fyrir litlu prinsessuna sína & þau lánuðu okkur Arnóri það sem við þurftum. Ef þau hefðu ekki gert það, þá hefðum við ekki getað keypt þessa íbúð, það er alveg á hreinu að þetta er allt þeim að þakka & ég hugsa OFT til þess að við erum á þeim stað sem við erum í dag vegna þeirra. Ég gæti ekki hafa verið heppnari með mömmu & pabba <3

Þannig að þetta gekk allt saman upp & við fluttum aftur inn í íbúðina & loksins orðnir fasteignaeigendur! Þetta var sumarið 2014. En í dag, rúmum þremur árum seinna erum við nýflutt inn í þriðju íbúðina sem við festum kaup á!

En ég ætla halda áfram með söguna. Við gerðum litlu sætu íbúðina okkar ótrúlega flotta, máluðum, skiptum um parket í svefnherberginu, pabbi málaði eldhúsinnréttinguna háglanshvíta, við skiptum um höldur keyptum nýtt helluborð & nýjan háf, keyptum ný blöndunartæki á eldhúsvaskinn, gerðum upp baðherbergið & fleira þannig að íbúðin var rosalega fín & allt önnur miðað við hvernig við tókum við henni!

Elín Kara fæddist svo 8. október 2015 & þá vorum við orðin fjögurra manna fjölskylda í 50m2 íbúð. En mér var alveg sama, ég var bara ánægð að við vorum búin að kaupa okkur íbúð. Við hefðum auðveldlega getað farið að leigja mikið stærri íbúð en ég vildi frekar eiga pínulitla íbúð. Þegar Elín Kara fæddist vorum við Arnór í stofunni með hana, breyttum stofunni í stofu & svefnherbergi & Óli Freyr fékk að vera einn í svefnherberginu alveg í friði. En svo breyttum við aftur & vorum öll fjögur saman inn í svefnherberginu. Þannig að herbergið var bókstaflega ekkert nema eitt hjónarúm & tvö barnarúm, en það var alveg mega kósý sko 🙂

Ég er algjör fasteignaperri & hef legið svoleiðis heilu kvöldin inn á mbl.is að skoða fasteignir, mér finnst það bara ógeðslega skemmtilegt! Svo var það í febrúar 2016 sem ég var eitthvað að skoða fastiegnir á mbl.is eins & vanalega & ég fékk flugu í hausinn, að við gætum mögulega stækkað við okkur. Ég tók eftir því hvað fastieignir höfðu hækkað svakalega mikið í verði síðan við keyptum, u.þ.b. 18 mánuðum áður. En þessi hugsun fór samt ekkert lengra & ég ætlaði ekkert að skoða þetta neitt frekar strax. En svo fæ ég mjög random símtal einn daginn, frá fasteignasölu í Reykjavík & mér er tilkynnt að „það sé hugsanlega einn sem vill kaupa íbúðina okkar á mjög góðu verði.“ Ég segi að við séum ekki búin að vera í söluhugleiðingum en var forvitin & leyfði honum að koma & gera ókeypis verðmat. Svo kom það auðvitað í ljós að þessi „kaupandi“ var bara uppspuni & ég vildi ekki eiga frekari viðskipti við þessa fasteignasölu. En eftir þetta fór ég enn frekar að hugsa út í að selja & hafði samband við starfsmann hjá Ás Fasteignasölu í Hafnarfirði (sem ég mæli by the way með fyrir allan peninginn! Mjög góð þjónusta & ég myndi aldrei fara annað með mín viðskipti framar, enda hafa þeir selt fyrir okkur 2 íbúðir) & okkur leist mjög vel á hann.

Við fundum íbúð sem okkur langaði að kaupa en það gekk ekki eftir, en fasteignasalinn sagði við okkur að hann væri mögulega með íbúð fyrir okkur sem var ekki komin á sölu. Þannig að við skelltum okkur með honum á Vellina í Hafnarfirði í íbúð í nýbyggingu þar sem allar íbúðirnar voru fokheldar (afhentust samt alveg tilbúnar með  öllu). Þessi íbúð var á jarðhæð, með sérinngang, pall & tveimur svefnherbergjum. Íbúðin var ekki stór, eða um 62m2 & með fylgdi 2m2  geymsla sem var eins & skápur!! En hún var þó stærri en sú sem við áttum & tvö svefnherbegi voru nóg fyrir okkur í bili þannig að við ákváðum að slá til. Eignin okkar seldist strax eftir opið hús þannig að framundan voru flutningar. Við þurfum að afhenta okkur íbúð áður en við fengum nýju afhenta þannig að við þurftum að flytja inn til mömmu & pabba í tvo mánuði. Svo var það í júní 2016 sem við fluttum inn í glænýju íbúðina okkur sem okkur leið rosalega vel í.

Þannig að nýja planið okkar var að búa á Völlunum á næstunni & flytja í „framtíðarhverfið“ áður en Óli Freyr myndi byrja í grunnskóla (svo að við myndum ekki flytja hugsanlega í annað hverfi stuttu eftir að hann myndi byrja í grunnskóla). Þarna var hann 2.5 ára gamall. Það fór vel um okkur í litlu nýju sætu íbúðinni okkar & það truflaði okkur ekki að hún var lítil, okkur leið frekar eins & í höll því loksins vorum við komin með 2 svefnherbegi & ekki skemmdi fyrir að við keyptum glænýja íbúð. Svo héldu allir sem komu í heimsókn að íbúðin væri um 70-80m2 því fermetrarnir voru rosalega vel nýttir!

Þeir sem þekkja mig vel vita að ég er skipulagsperri dauðans. Ég er alltaf að skipuleggja allt, alveg óþarflega mikið myndu sumir segja. Þannig að þrátt fyrir að við vorum nýflutt þá hélt ég alltaf áfram að skoða fasteignir á mbl.is, einfaldlega því mér fannst (& finnst enn!) það svo gaman. Þegar við fluttum á Vellina þá ætluðum við að færa Óla Frey yfir á leikskólann sem var bóstaflega við hliðina á blokkinni okkar & við sóttum um flutning & breyttum leikskólaumsókninni hennar Elínar Köru yfir á þann leikskóla líka. En akkurat á þessum tíma var pabbi minn mjög veikur & við vissum að hann ætti ekki langt eftir. Þannig að það kom alltaf upp hugsun hjá mér að ég vildi aftur flytja aftur miðsvæðis í Hafnarfirði, svo við værum nær mömmu. Við ákváðum að hætta við að setja börnin á leikskóla á Völlunum því mér datt í hug að við myndum stækka við okkur fyrr en áætlað var.

Áfram hélt allt að hækka & við komumst að því að nýja íbúðin okkar var búin að hækka vel í verði þannig ég fór að skoða þann valmöguleika að stækka við okkur í nánustu framtíð. En eins & þetta er alltaf með okkur Arnór þá á allt til að gerast einn, tveir & tíu hehe. Við fórum bæði að skoða fasteignir á fullu & vorum orðin mjög spennt. Staðan var mjög slæm á fasteignamarkaðnum akkurat þarna því það var bókstaflega slegist um íbúðir, þannig að við höfðum engar áhyggjur af því að við myndum ekki ná að selja, heldur höfðum við áhyggjur af því að fá ekki íbúð sem okkur myndi langa í. Þetta endaði síðan þannig að við buðum í, & reyndum að kaupa þrjár íbúðir, áður en við fundum okkar. Við erum að tala um það að við buðum yfir ásett verð í tvær íbúðir, en nei það var ekki nóg. Svo kom að því að ég sá íbúðina okkar á sölu, mér fannst hún of dýr. Eða ég vissi að hún væri aðeins fyrir ofan okkar budget þannig ég spáði ekki meira í því. Þarna vorum við orðin frekar pirruð því við vorum búin að vera spennt fyrir þremur íbúðum sem ekki gekk upp að kaupa! Nema hvað að svo kom okkar íbúð (s.s. þessi sem við eigum núna hehe) aftur inn á mbl.is nema að það var búið að lækka hana um 1 mills, nú vorum við að tala saman!

Það voru þó nokkur atriði sem íbúð þurfti að hafa svo dæmið myndi ganga upp því við ætlum sko EKKI að flytja aftur næstu árin, þannig að hún þurfti að vera með þremur svefnherbergjum & svo þurfti hún að vera þannig að við gætum verið með kisubúr á pallinum/svölunum svo kettirnir gætu farið inn & út eins & þeir voru vanir (innikettir). Það er oft þannig með íbúðir að það er t.d. bara einn gluggi fyrir ofan svalahurðina & þá myndi það ekki ganga upp. En svo voru nokkur önnur atriði sem væru algjörir kostir: vera á jarðhæð, hafa pall & hafa fjögur svefnherbergi & vera misvæðis í Hafnarfirði. Íbúðin okkar hafði alla þessa kosti þannig við vorum mjög spennt & sérstaklega þar sem íbúðin eru 110m2  & geymslan eru 5m2! Ég hringdi í fasteignasalann & spurði hvort við mættum koma að skoða & það gekk upp daginn aftir.

Svo var það svona korteri eftir að við skoðuðum sem við hringdum í hann & buðum í íbúðina, okkur fannst þetta svo mikið ment to be því Óli Freyr var enn á gamla leikskólanum & þessi íbúð í því hverfi þannig að hann þurfi svo aldrei að skipta um leikskóla, þannig að núna erum við MJÖG fegin að hafa aldrei fært hann yfir á Vellina því annars hefðum við þurft að flytja hann aftur yfir á gamla leikskólann. Dæmið gekk upp, við vorum með opið hús hjá okkur & hún var seld daginn eftir! Þannig að við vorum akkurat í eitt ár á Völlunum.

Núna erum við búin að vera í nýju íbúðinni okkar í 2.5 mánuði & erum búin að breyta henni frekar mikið: mála, gera upp baðherbergið (færsla með fyrir- & eftirmyndum HÉR) , fríska upp á eldhúsið, flísa þvottahúsið & fleira! Erum ótrúlega ánægð að hafa stokkið á þetta & LOKSINS get ég sagt að ég er ekki að fara flytja aftur næstu árin!! Næst þegar við flytjum (sem verður vonandi eftir 10 ár!) þá verður það í einbýlishús/raðhús/parhús, en þangað til ætlum við sko að NJÓTA þess að vera hér.

Ég vil meina að örlögin hafi spilað inn í þetta hjá okkur, símtalið í maí 2013, ef einhver annar hefði náð á leigusalann á undan mér þá hefði hann leigt einhverjum öðrum íbúðina & við hefðum ekki keypt hana & þá hefði þetta allt saman spilast allt öðruvísi!

Mig langar að benda ykkur á eitt sem eruð í fasteignahugleiðingum: ekki miða of hátt, það er betra að byrja á því að kaupa litla sæta íbúð sem er ekki of dýr & vinna sig upp út frá því, þröngt mega sáttir sitja! Við hefðum auðveldlega getað enn verið í litlu íbúðnni á Völlunum, við fluttum ekki vegna stærðar, heldur aðstæðna! Það hefði alveg farið vel um okkur þar í nokkur ár í viðbót. Auðvitað er skemmtilegra að hafa mikið pláss, ég segi það nú ekki en þið fattið hvað ég meina 🙂 Það er mjög sniðugt að fara inn á t.d. landsbankinn.is & prófa sig áfram í reiknivélinni, skoða lánin & greiðslubyrði.

 

Bráðum geri ég svo færslu með fyrir- & eftirmyndum af nýju íbúðinni! 🙂

 

Þið finnið mig á Snapchat, Instagram & Facebook: TINNZY88

TF

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply