Börn og uppeldi Lífið Tinna

Fæðingarsögur mínar -að vera keisaramamma

Áður en að ég varð mamma var ég alltaf búin að sjá fyrir mér að það væri ekki séns að ég myndi fæða barn með gatinu þarna niðri, ég bara einhvernveginn vissi að ég myndi enda í keisara. Ég skil ekki af hverju þar sem ég var einhverntímann að hanga á Youtube og ákvað að horfa á nokkur keisara video (já ég veit ég er kex) og ég hugsaði bara guð minn góður ég myndi aldrei vilja fara í keisara því þetta er ekkert smá brutal og stór aðgerð!

Síðan verð ég ólétt að fyrsta barninu mínu honum Óla Frey og ég hafði aðeins tvö markmið þegar það kom að fæðingunni:

  1. Engin verkjalyf
  2. Ég ætlaði aldrei, aldrei, aldrei að enda í keisara!

c-section-birth-3

Síðan kom að þessu öllu saman eftir yndislega meðgöngu, allt gekk fullkomalega alla meðgönguna fyrir utan elsku brjóstsviðann sem var að drepa mig eftir 20 vikurnar c.a. og þangað til barnið kom út! En já ég var komin 39+1 og missi vatnið kl: 11 á jóladag. Ég hugsaði fyrst bara ómæ ég vil ekki að hann komi í heiminn á jóladag, hvaða annar dagur sem er takk bara ekki 24, 25 eða 31 des (var sett 31. des). Síðan fer ég niður eftir kl: 18 þar sem ég var farin að fá verki og hún staðfestir að þetta væri legvatn sem væri búið að vera að leka. Ljósan segir mér að fara bara heim og kom aftur þegar ég treysti mér ekki að vera lengur heima. Ég var komin aftur kl: 21 alveg að drepast. Ég var með mjög sterkar hríðar og var að fá 2 mín á milli takk fyrir. Þannig að barnið var alveg að fara koma sko..ok..ekki..?

Neinei. Ég er þarna alveg að drepast úr verkjum og alltaf með þessar blessuðu 2 mínútur á milli verkja en bara með einhverja 2 í útvíkkun þegar ég mætti….svo er staðan tekin aftur kl: 00 og þá er ég komin með 3 eða 4..frábært! Ég er við það að bugast því ég fékk alltaf bara þessar 2 mín í milli verkja og var búin að vera með þá í yfir 3 klst. Þannig að ég bið um glaðloft. Ó, elsku, fallega, góða glaðloft <3 Það bjargaði mér í svona klukkutíma. Mér leið eins og ég væri búin að fá mér fullkomið magn af áfengi og væri drukkin en samt ekki of drukkin. Allt í einu var þetta ekkert mál og ég hugsaði bara vá hvað þetta er að virka vel. Ljósan sagði að ég ætti að gefa andlitinu smá frí frá grímunni, þetta ætti að vera svona 50/50 dæmi, úps ég var BARA með hana á, þetta var svo gott haha. En síðan byrja hríðarnar að koma aftur..þannig að þær eiginlega duttu bara niður í svona klukktíma á meðan ég var með loftið, dem it! En jæja ballið hélt áfram og ég var við það að bugast kl: 03 eftir að hafa verið með verki síðan um daginn og 2 mín á milli í 6 klst. Þetta var svo spes, ég fékk mjög sterkja verki í svona 30 sek og svo hvíld í 2 mín á milli og omæææ ég hélt ég væri svo mikill harðjaxl og þyrfti sko enga deyfingu en eftir svona kvalir í svona langan tíma var ég andlega að tjúllast og heimtaði mænudeyfingu kl: 03, núna takk fyrir! Ég fékk mænudeyfingu og guð minn góður, þetta bjargaði öllu. Þarna hætti ég að vera verkjuð og náði að slaka á. Ég var þarna einhverju áður búin að fara ofan í baðið og leið eins og hval í fiskabúri, ískalt vatn og fannst þetta mjög glatað dæmi haha.

Þannig að þarna gat ég bara legið og chillað, var samt alveg ofboðslega þreytt þar sem líkaminn minn var alveg búin á því og rúmlega það. En málið var að ég var föst í útvíkkun. Loksins komin með 9 þarna einhverntímann seint um nóttina en alltaf var verið að bíða eftir fullri útvíkkun. Svo komst ég mest í 9,5 því það var einhver brú eða hvað sem þær kölluðu þetta fyrir.

Jæja tíminn líður og nóttin klárast og staðan er bara eins. Ljósan sem ég var með frá 00-08 fer þarna um 08 og ný tekur við. Það fyrsta sem hún gerir er að kalla á lækni því það voru komnar dýfur í hjartsláttinn á barninu (enda ekkert skrítið eftir allan þennan tíma, enda alveg að koma sólarhringur síðan ég missti vatnið og ég btw ekkert búin að sofa siðan!) og fæðingarlæknirinn sem var send til að kíkja á mig var einmitt líka að klára sína vakt en tékkar á útvíkkun og segir að nú verði bara að fara og ná í sogklukku! Ég hugsaði bara já ok frábært farðu endilega og rífðu mig á hol með einhverri sogklukku og ég ekki með neina rembingsþörf. En þessi læknir klárar vaktin sína og þá kemur my savior! Hildur Harðar mætir á vakt og tékkar á útvíkkun og segir á núll einni “Jæja Tinna, við þurfum að ná þessu barni út núna, þú veist hvað þarf að gera er það ekki?” Þá segi ég jú, ég hélt auðvitað að plan sogklukka væri enn on en svo bætir hún við “við erum að fara beint í keisara.”

Ó FOKK Ó FOKK! Ég segi bara “Já.” Enda alveg búin á því og barnið þurfti að komast út núna.

Mér er strollað inn og hægt að byrja strax þar sem ég var nú þegar með mænudeyfingu þannig að það var bara bætt vel á hana. Þetta tók ekki langan tíma og aðgerðin gekk vel. Samt hríðskalf ég og grét allan tímann, gjörsamlega búin á því og bara í áfalli eftir þetta allt saman.

Svo fæðist drengurinn (kl: 10:11, 26. des 2013) og ekki mátti seinna vera því hann fæddist líflaus og slappur og það þurfti aðeins að hrista hann til, en svo kom kröftugur grátur og hann fékk fullt hús stiga og þurfti ekki að fara á vöku eða neitt! 🙂 Gátu ekki verið vaktaskipti fyrr!? En ég vill meina að ef Hildur hefði komið fyrr hefði ég farið í keisara fyrr því ég var alltof lengi föst með 9 í útvíkkun og ekkert að frétta í rembingsþörf + einhver brú fyrir.

Þetta var hrikalegt, að fara í keisara er massa aðgerð og maður er alveg vel verkjaður í 1-2 vikur (auðvitað einstaklingsbundið!). Ég náði ekki alveg að tengjast gullinu mínu eins og ég hefði átt að gera (held ég) fyrr en eftir svona tvo daga. Ég var gjörsamlega búin á því og svefnlaus og Arnór, maðurinn minn sá mest megnis um að klæða hann og skipta á bleyjum þangað til við komum heim tveimur sólarhringum eftir fæðinguna.

En svo kom tengingin strax og við komum heim og brjóstagjöfin fór að ganga betur. Over all þá er ég rosalega þakklát að ekki hafi farið verr og ég er þakklát fyrir Hildi Harðar að hafa fattað það strax að ég þurfti að komast strax í bráðakeisara! Ég held að hún hafi bjargað stráknum mínum og hef oft hugsað til þess með kvíðahnút í maganum hvernig þetta hefði farið ef ég hefði átt að fara rembast með enga rembingstilfinningu og svo sogklukku, ég er svo þakklát fyrir keisarann! <3 Ég hef líka hugsað um það hvað ef þetta hefði verið á tíma þar sem keisari var ekki í boði, fyrir mörgum mörgum árum..þá hefðum við kannski bæði dáið eða annað hvort okkar.

Jæja nóg komið um fyrri keisarann en sagan með seinni er styttri, enda ekki jafn dramatísk! 😉

Þegar Óli Freyr var eins árs, réttara sagt bara á eins árs afmælisdeginum ákváðum við að við vildum annað barn. Ég pissa á prik rúmum mánuði seinna og Elín Kara er komin í ofninn 🙂 Ég fór að hitta ljósuna í fyrsta mæðraskoðunartímann og við bókum svo fund með fæðingarlækni (sem er alltaf gert eftir keisara). Þegar ég var komin einhverjar 28 vikur hitti ég fæðingarlækninn og það fyrsta sem hún spyr mig er hvort ég vilji keisara. Ég segi bara nei takk og að ég vilji reyna sjálf, enda ætlaði ég mér alltaf að gera það. En svo kemur sá dagur að ég er komin 40 vikur og einn dag, ég bjóst aldrei við því að ganga fram yfir og á tíma í mæðraskoðun og ljósan sér á mér að ég er orðin verulega stressuð og spyr mig einfaldlega hvort við ættum að hringja í fæðingarlækninn og spurja hvort það sé ok að ég fengi að fara í keisara. Ég segi strax já og fékk tíma 3 dögum seinna. Planið var s.s. að ef ég myndi fara af stað fyrir þann tíma myndi ég reyna sjálf, annars myndi ég mæta 8. okt í keisara þá komin 40+4.

Þannig varð raunin og ég mætti eldsnemma upp á Landsspítala í valkeisara þann daginn. Þessi keisari var allt öðruvísi heldur en hinn. Í fyrsta lagi tók svona hálftíma að deyfa mig, því nálin komst aldrei á réttan stað og ég var við það að springa því maður er alveg kraminn saman í keng þegar það er verið að stinga mann. En svo kom það og ég leggst niður og byrja auðvitað að hágráta. Veit ekki af hverju en þetta er bara tilfinning sem hellist yfir mann, eða mig allavega 🙂 Aðgerðin gekk ekkert alltof vel og Elín Kara vildi eiginlega ekki koma út og það þurfti svolítið að hjakkast á mér, við erum að tala um það að það var einn gaur að þrýsta og ýta ofarlega hjá rifbeinunum og læknirinn að reyna ná hausnum á henni þarna ofan í..mjög fyndið því hún vildi bara alls ekki koma út og var að snúa hausnum frá höndunum á lækninum haha og ég var öskrandi á tímabili, mjög dramatískt. Og á einum tímapunkti heyrði ég læknana tala saman um hvort það væri ekki bara best að svæfa mig og ég öskraði strax bara ónei þið eruð sko EKKI að fara svæfa mig..þau sögðu mér bara að slaka á haha að þau væru bara að skoða alla valmöguleikana, en sem betur fer þurfti ekki að svæfa mig. En svo kom hún í heiminn kl 11 þann 8. okt 2015, þessi elska og það sem var svo skrítið er að ég fann strax yfirþyrmandi tilfinningu um að ég elskaði hana svo ofboðslega mikið. Ég held það sé vegna þess að ég vissi alveg hvað ég var að fara ganga í gegnum í þetta skiptið 🙂 Ég ætlaði sko að fá að skipta á henni og klæða og bara allt takk! Sá alltaf svo eftir því að hafa misst af því með Óla Frey fyrstu tvo dagana!

smimage

Ég var betur í stakk búin að jafna mig eftir þennan keisara og alveg tilbúin í brjóstagjafaslaginn sem byrjaði svo brösulega með Óla Frey, en það er efni í annan þráð! En hann var á brjósti til 9 mánaða og Elín Kara til 7 mánaða, þau hættu bæði sjálf 🙂

P.s: ef þið lendið í keisara elsku þið, ekki hika við að gefa barninu ykkar smá ábót á spítalanum.
Það er hægt að gefa þeim í gegnum sprautu og leyfa þeim að sjúga litla puttann í leiðinni þannig að það skemmir ekkert brjóstagjöfina. Mjólkin er oft lengur að koma eftir keisara og eftir báða mín keisara voru börnin mín svöng. Ég ætlaði ekki að klikka á þessu eftir annað barn en gerði það samt, ætlaði bara að galdra mjólkina fram en ég skal vita betur næst!

P.s.2: ekki gera nákvæmt plan og hugmyndir um fæðinguna, verið opin fyrir því að allt getur gerst og stundum þarf maður að fá smá hjálp og það fer ekki alltaf allt eins og maður vill eða ætlar sér. Maður spilar bara með því sem þarf að gera til að allt gangi upp, allt er gott sem endar vel 🙂

Jæja ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en langar að koma einu frá mér, að fæða barn með keisara er ekkert lélegra eða minni fæðing heldur en að fæða “náttúrulega.” Fyrri keisarinn minn bjargaði hugsanlega lífi Óla Freys, allavega heilsu hans er ég alveg viss um. Stundum þarf inngrip og það getur verið lífsnauðsynlegt og ég er stolt keisaramamma og ætla mér að eignast eitt barn í viðbót og þá verður þetta ekkert flókið, ég mun panta tíma í keisara og verð svo þreföld keisaramamma <3

Ætla enda þetta á mynd af keisarakrúttunum mínum 🙂

13627187_10153898308329422_1381042967766877519_n

tt

tinna@fagurkerar.is

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply