Hrönn Lífið Matur Matur og vín

Eggs Benedict

í dag kom vinur minn í brunch til mín en hann er einmitt líka í fæðingarorlofi svo við hittumst stundum með litlu krílin okkar. 

Ég ákvað að búa til Eggs Benedict handa okkur en þetta er uppáhalds brunch rétturinn minn og ég geri hann mjög oft þegar ég fæ fólk til mín. Eggs Benedict er eggjaréttur sem samanstendur af ristaðri skonsu, góðri skinku, hleyptu eggi (e. poached egg) og Hollandaise sósu. 

Það eru margir sem mikla þennan rétt fyrir sér útaf hleyptu eggjunum og sósunni og halda að þetta sé mega flókið en ég er komin með aðferð sem gerir þetta alls ekki svo flókið. 

Eggs Benedict (f. 4 manns)

  • 4 skonsur 
  • 8 egg
  • 8 þykkar sneiðar af góðri skinku
  • 1 uppskrift Hollandaise sósa

Það er best að byrja á Hollandaise sósunni en hana geri ég í töfrasprotanum mínum sem ég fékk í jólagjöf og er að verða eitt af uppáhalds tækjunum mínum í eldhúsinu. 

Hollandaise sósa

  • 4 eggjarauður
  • 185 g smjör brætt
  • 1 mtsk sítrónusafi
  • ¼ tsk salt

Þið byrjið á því að bræða smjörið við lágan hita og kæla það örlítið. Þá takið þið eggjarauður, sítrónusafa og salt og setjið í glasið sem kemur með töfrasprotanum og þeytið með þeytaranum þar til blandan verður ljósgul. Þá er smjörinu hellt útí í mjórri bunu og hrært á meðan. Smakkið að lokum sósuna og bætið salti og/eða sítrónusafa eftir smekk. 

IMG_3990IMG_3987

 

Hleyptu eggin

Til að gera hleyptu eggin þarftu litla skál, plastfilmu og matarolíu eða matarolíuspray. Þið takið plastfilmu og setjið í botninn á skálinni en passið að plastfilman sé nógu stór svo hún nái vel yfir brúnirnar á skálinni. Þá penslið þið eða spreyið olíu á plastfilmuna og brjótið eggið varlega ofaní skálina. Loks lyftið þið brúnum á plastfilmunni og lokið eggið inni og reynið að lofttæma og snúið vel uppá filmuna svo ekkert vatn komist inní. Þetta gerið þið við öll eggin. 

IMG_3996IMG_3998

Svo setjið þið vatn í stóran pott sem rúmar vel öll eggin fljótandi og látið suðuna koma upp. Lækkið svo hitann þannig að það bullsjóði ekki heldur rétt til að halda suðunni uppi og látið öll eggin varlega útí. Þau mega svo vera í ca 6 mínútur í pottinum, fer aðeins eftir stærð en við viljum að þau séu elduð að utan og rauðan sé mjúk og leki út þegar skorið er í eggið. Takið eggin uppúr pottinum og geymið í plastfilmunni í nokkrar mínútur og takið svo plastið utan af egginu varlega svo það rifni ekki. 

IMG_3999

Skinkan

Það er mjög mikilvægt að nota góða skinku í þetta. Undanfarið hef ég farið í Hagkaup í Kringlunni í Sælkeraborðið og keypt skinku. Þar er hægt að fá eldaða skinku skorna í sneiðar fyrir þig og þú getur ráðið hvað sneiðarnar eru þykkar. Þetta er alls ekki dýrt og mun betra en hefðbundin skinka í áleggsbréfi.

IMG_3992IMG_3991

Samsetningin

Skonsurnar eru skornar í tvennt hver sneið og ristaðar. Þá eru skinkusneiðarnar steiktar á pönnu og svo er bara að raða þessu saman. Þið byrjið á að setja skinkusneiðina á ristaða skonsuna, þá er eggið lagt varlega þar ofaná og loks er hellt vel af sósu yfir og svo er bara að njóta ! Mmmmm 🙂 

 

Screen Shot 2017-02-25 at 20.02.39

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply