Afmæli og veislur Bakstur Tinna

Dásamleg skinkuhorn

Ég verð seint..nú eða bara aldrei..kölluð bakari. Ég er ekkert voðalega myndarleg í eldhúsinu og er stundum föst í því að gera alltaf það sama ef mér finnst það gott. En ég hélt upp á eins árs afmæli prinsessunnar minnar í október og ákvað að prufa að gera skinkuhorn þar sem að mig langaði rosa að vera klár í að gera svoleiðis seinna meir svo ég gæti skellt í skinkuhorn öðru hvoru um helgar fyrir börnin mín. Ég þoli ekki langar og flóknar uppskriftir og hvað þá uppskriftir sem innihalda eitthvað sem ég skil ekki. Ég baka kannski ekki fallegustu skinkuhorn í heimi en vá, þau eru góð!

Í afmælinu hjá Elínu Köru kláruðust þau á núll einni og svo gerði ég þau aftur í dag fyrir afmæli hjá frænku minni og þau slógu í gegn. Eina sem fjölskyldan talaði um er að passa að setja nóg af skinkumyrju og ég fann það líka, fannst ég setja nóg en það þarf alveg að setja slatta því myrjan einhvernveginn gufar upp þarna inni 😉

Ég sýndi á snapchattinu hjá mér í dag að ég væri að gera skinkuhorn og fólk er búið að vera rukka mig um uppskrift þannig að mig langar að deila henni með ykkur, ég er búin að gera hana núna 2x og þau voru alveg ótrúlega góð, í bæði skiptin þannig þetta var ekki bara heppni 😉 Mér finnst allavega alltaf gaman að sjá auðveldar uppskriftir sem ég sé að ég get leikið eftir og þetta er eitthvað sem allir ættu að geta gert, súper auðvelt og skemmtilegt að gera með börnum 🙂

Það sem þarf:

100 grömm smjör

18 dl hveiti

1 dl sykur

1/2 tsk salt

1/2 líter mjólk (ég nota léttmjólk)

1 bréf þurrger

Egg til að pensla hornin

Sesamfræ (ekki nauðsynlegt)

Skinkumyrju

Aðferð:

Bræðið smjörið í potti og bætið svo mjólkinni út í.
Salti, sykri og geri bætt við og pískað vel saman.
Hveitinu bætt við (mér finnst best að setja hveitið í stóra skál og hella þessu svo út í) og hnoða vel saman.
Síðan er best að fylla c.a. 1/2 eldhúsvaskinn af heitu vatni og setja skálina ofan í vaskinn og viskastykki ofan á og láta hefast í c.a. 30 mín.
Það er líka hægt að láta þetta bara hefast á borðinu með röku viskastykki yfir í c.a. 45 mín.
Síðan er deiginu einfaldlega skipt upp í nokkra parta og hver partur rúllaður í hring með kökukefli og skorið svo deigið eins og væri verið að skera pizzu. Smyrja svo skinkumyrju á breiða endann og rúlla upp á hverja sneið (rúllað út frá breiðari endanum).
Svo er hornunum raðað á bökunarplötu (þetta verða tvær plötur eða u.þ.b. 30 stk) og egginu er penslað á þau og svo eru sesamfræunum stráð ofan á.
Gott er að láta hornin standa í c.a. 10-15 mín áður en þau eru sett inn í ofn í c.a. 15 mín á 200 gráðum eða þangað til þau eru orðin fallega gullinbrún.

 tt

You Might Also Like