Börnin Fjölskylda Lífið Sigga Lena

Dagurinn sem ég varð mamma

Jæja það er löngu orðið tímabært að henda niður fæðingarsögunni enda er strákurinn orðinn tveggja mánaða. Guð minn góður hvað tíminn líður hratt.

Kannski ágætt að gefa ykkur smá aðdraganda. Ég var látin hætta að vinna 23 apríl daginn eftir páska þá komin 36 vikur á leið. Komin með of háan blóðþrýsting og komin í auka eftirlit og átti gjöra svo vel að gera sem minnst þangað til að litli myndi láta sjá sig. Þar sem að þrýstingurinn var fremur hár var búið að pannta fyrir mig í gangsetningu frá 39v+4 dagar þangað til 40v+4d enda engin ástæða til að hafa hann lengur inni.

IMG_4102

Kvennadeildin hringdi í mig 21 maí og bauð mér gangsettningu 24 maí kl 08:15 þá komin 40 vikur og 4 daga. Ég mætti upp á deild þennan morgun og fór í blóðþrýstings mælingu. Fór svo í skoðun til að tékka á því hvort að einhver útvíkkun væri komin, það var ekki, leghálsinn afturstæður og óhagstæður og útvíkkun ekki hafin. Ljósmóðirin fór yfir gangsettningar ferlið með mér og sagði þá að þetta gæti tekið nokkra daga sérstaklega þar sem ég er frumbyrja. Fyrsta taflan var tekin kl 9 og átti ég að taka töflu á þriggja tíma fresti.

Ég og mamma ákváðum að hafa það kósý og kláruðum svona þetta sem þurfti að gera. Skreppa á pósthúsið og labba aðeins um í Smáralindinni. Komum svo heim rétt fyrir hádegi með gott salat og settumst út á svalir í geggjuðu veðri. Eftir dá gott sólbað á svölunum ákvað ég að kíkja inn og hvíla mig aðeins í sófanum og horfa á eitthvað heilalaust. Ég var sennilega búin að liggja í góðan hálftíma þegar ég heyri háværan smell og svo stuttu síðar kemur annar smellur. Ok, þetta var eitthvað skrítið, kalla á mömmu og segi ég held ég hafi verið að missa vatnið? ,, Hvaða vitleysa, þú ert ekkert blaut”. Ég sprakk úr hlátri og þá gusaðist þvílikt og annað eins magn af vatni í sófann. Það var ekki séns að hætta að hlægja mér fannst þetta eitthvað svo óraunverulegt, ég meina ljósan sagði það þetta gæti tekið nokkra daga, þannig mér datt ekki í hug að þetta myndi gerast strax.

Þar sem drengurinn var ekki skorðaður þá var ekkert annað í stöðunni en að hringja á sjúkrabíl. Það er ekkert skrítnara en að fara rennandi blaut í sjúkrabíl upp á spítala. En ég var komin þangað rétt fyrir kl 3 á föstudeginum 24 maí.

Ég var sett inn á skoðunarherbergi og beint í monitor, kíkt var á hvort að litla gull væri orðinn skorðaður og þá mátti ég loksins standa upp og fara úr rennandi blautu fötunum. Það hélt áfram að gusast út legvatn og ekkert smá mikið, þetta ætlaði aldrei að hætta. 

IMG_4158 2

Eftir að ég komst inn á fæðingarstofu þá byrjaði ég að malla í gang og hríðarnar urðu sterkari og örari. Um kvöldmataleytið þá var ég alveg að bugast og ljósmóðirin kíkti á mig þá ekki komin með nema fjóra í útvíkkun. Ég bað um einhverja verkjastillingu og fékk þá morfínsprautu og glaðloft sem var algjör himnasending. Þegar ég var búin að anda mig í gegnum þetta í góða þrjá tíma þá er ég farin að fá rembingsþörf. Ljósan kíkti á mig og þá var ég ekki komin með nema 6 í útvíkkun. Skellur! 

Að vera komin með rembingsþörf og ekki með nema 6 í útvíkkun og gjörsamlega viðþolslaus af verkjum ákvað ég að fá mænudeyfingu. Hún var sett upp skömmu seinna og ég verð á segja að ég kveið mjög fyrir henni, búin að heyra allskonar sögur um hvað það vari hræðilega sársaukafullt að fá deyfinguna en þetta var miklu minna mál en ég hafði nokkurn tímann getað ímyndað mér. 

Reyna að borða smá eftir að deyfingin var komin á sinn stað.

Reyna að borða smá eftir að deyfingin var komin á sinn stað.

 

Vaktaskipti og ég fékk nýja ljósmóður. Það gerðist lítið sem ekki neitt um nóttina, ég var alltaf bara í 6cm í útvíkkun í hvert sinn sem ég var tékkuð. Var reyndar farin að finna fyrir aðeins meira þrýsting niður og ég gat ekki fyrir mitt litla líf pissað. Það var eins og ég kunni ekki að pissa, haha pínu fyndið. En það þurfi að tappa af mér í nokkra tíma fresti með þvaglegg en þetta er víst aukaverkun af deyfingunni. Ég náði að hvíla mig ágætlega yfir nóttina. Sigrún systir kom sér fyrir í baðkarinu og reyndi að hvíla sig og mamma dottaði í lazy boy stólnum við hliðina á mér. 

Aftur komu vaktaskipti og ég fékk nýja ljósmóður og nema með henni. Þessar tvær, þvílíkir englar. Hríðarnar fóru að aukast upp úr átta um morguninn og ég var komin með ágætis rithma að anda mig í gegnum þetta með hjálp frá glaðloftinu. Útvíkkunin gekk ennþá mjög hægt fyrir sig og fékk ég dripp til þess að auka hríðarnar og reyna að koma þessu almennilega í gang. 

Stoð mín og stytta í þessu öllu saman vék ekki frá mér.

Stoð mín og stytta (mamma & Sigrún Tinna) véku ekki frá mér í þessu öllu saman.

 

Rétt fyrir hádegi var ég komin með mjög mikla rembingþörf og sama hvað ég gerði þá réð ég ekki við mig, ég þurfti að rembast. Ég var skoðuð og ekki komin í nema átta í útvíkkun. Drippið var aukið ennþá meira og hríðarnar urðu sterkari og örari. Nokkru síðar var ég svo aftur skoðuð og er þá komin með níu +, loksins nú fer þetta að gerast. Það var alltaf einhver himna sem vildi ekki fara og útvíkkun kláraðist ekki 100%. Ljósan ákvað að kalla til fæðingarlækni þar sem hún fann að hausinn á honum var skakkur í fæðingarveginum. Læknirinn kom skömmu síðar með sónar tæki og sá að hann var ramm skakkur. Hún skoðaði mig og ákvað að prófa snúning INNVORTIS!!! Nei haltu á ketti það er mesti og versti sársauki sem ég hef upplifað. Þarna var klukkan að detta í fjögur og ég þá búin að vera með rembing í um 5 klukkutíma. Það tókst ekki að snúa honum alveg og alltaf var þessi eini sentimeter eftir af útvíkkuninni. Læknirinn ákvað að gefa þessu klukkutíma, ef að útvíkkunin hafi ekki klárast á þeim tíma þá ætlaði hún að ná í hann með keisara eftir þann tíma. Mikið sem þetta var gott fyrir sálina að vita til þess að það væri komið plan og þetta færi bráðlega að taka einhvern enda. Ég hélt samt sem áður bara áfram að rembast og rembast. Innan við klukkutíma sá ég blíðlega andlitið á fæðingarlækninum mínum, hún skoðaði mig og það var engin breyting. Það var þá bara eitt í stöðunni og það var keisari.

Skurðstofan var tilbúin og mér var trillað inn. Ég var undirbúin fyrir keisarann bara í rólegheitum þar sem litli hafi það gott í bumbunni og vildi ekkert koma út. 

IMG_1221 2 

Mænudeyfingin var bústuð upp og ég fann ekki lengur fyrir rembing og fæturnir urðu þungir. Ég var skorin og 4 mínútum seinna var fullkomni strákurinn minn kominn í heiminn. 

IMG_1228

Mættur í heiminn kl 17:39 þann 25 maí 2019 eftir 27 tíma fæðingu eftir að ég missti vatnið. Hann vóg 3300gr og 51cm alveg fullkominn.

Amman fékk að klippa á naflastrenginn

Amman fékk að klippa á naflastrenginn

 

Þegar ég sá hann fyrst

Þegar ég sá hann fyrst

 

Þessi rúmi sólahringur var sá besti og erfiðasti sem ég hef upplifað. Ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þess að hafa mömmu og Sigrúnu systir mér við hlið. Allar þær ljósmæður sem hjálpuðu mér í gegnum þetta þið eruð gersemar, takk fyrir alla hjálpina þið eruð æði! 

Ein hamingjusöm mamma!

Ein hamingjusöm mamma!

 

Ef þið viljið fylgjast með okkur mæðginum erum við frekar dugleg á Instagram: Sigga Lena

Þangað til næst 

signature (1)

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply