Eins og flestir kannski vita þá ELSKA ég að skreyta, halda veislur og dúlla í veisluborðinu.
Fréttablaðið gaf úr fermingarblað í síðustu viku og ég var fengin til að skreyta eitt stykki fermingarborð. Þar sem dóttir mín er bara 1árs og ég alls ekki að fara að ferma á næstunni fannst mér þetta fyrst svolítið fyndið verkefni en ég slæ nú aldrei hendinni á móti tækifæri til að skreyta. Ég sjálf bíð spennt eftir því að fá að ferma svo þetta var ágætis forskot á sæluna.
Ég gekk þó ekki svo langt að baka sjálf heilan helling af kökum, kransakökum og turnum eins og ég mun án efa gera þegar Embla dótttir mín fermist enda væri það algjör matarsóun þar sem engir gestir voru að mæta . Ég fékk því 17 sortir til að bjarga mér svo veisluborðið væri ekki alveg tómt og ég fékk 2 æðislegar kökur frá þeim.
Ég fékk allar skreytingarnar sem ég notaði á veisluborðið í Partýbúðinni en þau eru með ótrúlega flott úrval af skrauti fyrir ferminguna. Ég ákvað að vera mað grænblátt, silfur og gull þema á mínu veisluborði en mér finnst mjög mikilvægt að byrja á því að velja litaþema til að vinna útfrá.
Ég byrjaði á því að klæða vegginn fyrir aftan veisluborðið með pompoms en það er ótrúlega einföld leið til að gera veisluboð fallegt og þá er hægt að fá í allskyns litum. Ég var svo með silfraða stafi FERMING ofaná pompoms en það er líka hægt að nota þessa stafi til að stafa nafn fermingarbarnsins.
Öðrum megin á borðinu var svo drykkjarstöð þar sem ég var með 2 drykkjarkúta sem hægt er að setja hvaða drykki sem er í. Ég var með tómar hreinsaðar Froosh flöskur sem ég skreytti í litaþemanum til að drekka úr en mér finnst það setja mikinn svip á veisluborðið að vera með svona drykkjarkúta og skreyttar flöskur. Til að setja punktinn yfir i-ið er svo nauðsynlegt að vera með falleg rör líka. Eins er hægt að nota silkiborða í þemalitum og binda rörið við flöskuna en ég gerði það t.d. þegar ég skírði stelpuna mína. Getið kíkt á það hér
Hinum megin á borðinu var ég með röndótt pappabox með poppi. Svona box finnst mér gera svo mikið fyrir veisluborðið og í þau má setja allskonar, eins og t.d. snakk, saltkringlur og allskyns sælgæti. Þessi box eru til í allskonar tegundum og litum.
Aftast á borðinu var ég svo með ótrúlega sniðugan kassa sem er hugsaður undir gjafakort í veislum. Flest fermingarbörn fá ansi mörg umslög í fermingargjöf og þá er rosalega smart að hafa svona kassa fyrir kortin. Þessir kassar koma alveg einlitir hvítir og þá er minnsta málið að skreyta þá í þemalitum eða merkja þá með t.d. nafni fermingarbarnins. Ég skreytti minn kassa með fiðrilda og blóma confetti í grænbláu og hvítu sem ég límdi á kassann með límbyssu.
Loks var ég svo með gasblöðrur báðum megin við borðið í nokkrum litum en ég vil helst hafa blöðrur í öllum veislum af því þær eru svo skemmtilegar og alveg frábær leið til að gera meira úr skreytingum. Ég mæli með því að hafa gas í blöðrunum svo þær séu flottari og þá er mikilvægt að hafa nógu margar blöðrur í hverju búnti til að þetta líti sem best út. Ég var með 9 blöðrur í hvoru búnti hjá mér í 4 mismunandi litatónum.
Ég poppaði svo borðið upp með gylltum veifulengjum og nafnalengju með nafninu hennar Emblu 🙂
Þetta var ótrúlega skemmtilegt verkefni og ég vona að þið hafið fengið einhverjar góðar hugmyndir !
Ég gaf svo upp uppskrift í Fréttablaðinu af æðislegum Red velvet cupcakes en Red velvet kaka er ein af mínum uppáhalds kökum í heiminum !
Red velvet bollakökur með rjómaostakremi
Kökurnar
- 2,5 bolli hveiti
- 2 bollar sykur
- 1 mtsk kakó
- 1 tsk salt
- 1 tsk matarsódi
- 2 egg
- 1,5 bolli matarolía
- 1 bolli súrmjólk
- 1 mtsk edik
- 1 tsk vanilludropar
- rauður gel matarlitur
Hitið ofninn í 175°. Blandið þurrefnum saman og leggi til hliðar. Blandið vel saman eggjum, matarolíu, súrmjólk, edik og vanilludropum og hrærið loks þurrefnum útí blönduna. Best að gera þetta í hrærivél. Hellið svo smá rauðum matarlit í deigið þannig að það taki á sig rauðan lit.
Hellið í bollakökuform og bakið í ca 20 mínútur eða þar til prjónn sem er stungið í kökuna kemur hreinn út. Leyfið að kólna algjörlega áður en kremið er sett á.
Kremið
- 230g rjómaostur
- 1 bolli mjúkt smjör
- 1 tsk vanilludropar
- 6 bollar flórsykur
Sigtið flórsykur og leggið til hliðar. Hrærið rjómaosti og mjúku smjöri saman í hrærivél þar til vel samblandað. Bætið vanilludropum útí. Bætið loks flórsykri útí blönduna hægt og rólega þar til allt er vel blandað saman. Best er að kæla kremið aðeins áður en því er sprautað á kökurnar af því það má ekki vera of lint. Setjið kremið í sprautupoka með fallegum sprautustút og sprautið á kökurnar. Ég notaði rósastút frá Wilton á mínar kökur. Geymast vel í kæli í loftþéttu boxi í 2 daga.
Endilega kíkið á mig á snapchat – hronnbjarna
No Comments