Ferðalög Lífið Tinna

Tene tips – sólarferð með 7 vikna kríli

Ég, mamma og Lea Þóra skelltum okkur í sólina til Tenerife 11-21 september. Lea var 7 vikna þegar við fórum út og við vorum í 10 nætur.

Mamma spurði mig þegar Lea var um 5 vikna hvort ég væri til í að koma með henni út í sólina, hún vildi bjóða mér (okkur) út. Ég sagði strax já, en svo var ég bara úff er maður samt að fara til útlanda með svona kornabarn?!?! Ég fór í smá panik þegar mamma pantaði ferðina og spurðist fyrir í mömmuhópnum mínum hvort maður væri að ferðast með svona ung börn, þó svo að ég vissi svo sem alveg svarið en ég meina ég var bara nýbökuð og paranojuð móðir 😉 Svörin voru bara mjög jákvæð og auðvitað áttum við að skella okkur og einhverjar í hópnum búnar að fara nú þegar, þannig ég ákvað að hætta þessu rugli og byrja að hlakka til í stað þess að vera stressa mig yfir þessu.

Ég er samt mjög flughrædd og var því mikið að stressa mig á fluginu, við erum að tala um mjög flughrædd og engar ýkjur. En ég hef þó skánað með árunum og alltaf læt ég mig hafa það að fara út, þannig að ég læt hræðsluna ekkert stoppa mig, sem betur fer! Sama dag og við vorum að fara út þá langaði mig að hætta við. Við áttum flug 15:30, sem ég eiginlega fíla bara alls ekki, er vön að eiga flug eldsnemma þannig mér finnst best að vakna um nóttina og skella mér af stað, þá hefur maður engan tíma til þess að vera stressaður! Þannig að við Arnór fórum í göngutúr um morguninn með vagninn og ég var í panic mode bara, var næstum því búin að hringja í mömmu og hætta við að fara, ég var svo stressuð að ég bara var alls ekki að meika að fara út. En, ég lét mig hafa það. Fórum meira segja út 11. september, en það hafði engin áhrif á mig, skil að það gæti triggerað flughræðslu hjá sumum en ég er jafn hrædd að fljúga alla daga ársins!

Eftir Thailand í janúar fór ég mörg skref aftur á bak í flughræðslunni minni þegar við lentum í því að flugvélin gat ekki lent og hef ég verið mjög svekkt yfir því þar sem ég var orðin nokkuð góð bara áður en það gerðist. Ég er mjög góð í rökhugsun og ég veit að það meikar engan sence að vera flughrædd og mér finnst ekkert smá sorglegt að ég skuli eyða öllum þessum tíma í þessa hræðslu, úff þetta er svo leiðinlegt. En ALLAVEGA, nóg um það! Flugið út gekk mjög vel og ég var bara mjög róleg. Við fórum í Saga lounge upp á flugstöð og það var mjög nice, hafði ekki farið þangað áður. Ég fékk mér hvítvín og það virkaði mjög vel á taugarnar! Mér var sagt að ungabörn svæfu bara í flugvélum en Lea sofnaði ekki fyrr en við vorum búnar að vera í loftinu í 1.5 klst og svaf ekkert alltof lengi, en hún var ekki með neitt vesen, en mér fannst smá spes að hún svæfi ekki meira! Tek það fram að þegar ég segi “mér var sagt” þá er ég að tala um bara það sem bókstaflega allar mömmur hafa sagt við mig sem hafa ferðast með ungabörn.

Við lentum um kl 22 á Tene og við tók rúta upp á hótel. Þar sem klukkan var svona mikið var bara farið beint í bólið þegar við komum. Fyrstu 3 dagarnir voru erfiðir! 

Lea hefur annað hvort verið með einhverja massífa hellu í eyrunum eða verið í vaxtarkipp, ég ætla að giska á vaxtarkippinn. Hún var að drekka á 30-60 mín fresti í þessa 3 daga og svaf lítið sem ekkert á daginn. Svaf sem betur fer á nóttunni en það tók sinn tíma að svæfa hana samt. Úff hvað þetta tók á. Hún elskar að vera í vagninum heima á Íslandi og steinsefur þegar maður labbar með hann, en nei, þannig var staðan ekki á Tene. Við mamma giskuðum á að henni væri einfaldlega of heitt og væri ekki að fíla það og að hún væri ekki nógu dúuð í vagninum eins og hún var vön því að vera heima. Við ákváðaum því að leigja vagn, en ég fór út með kerru, vagninn var algjörlega betri kostur og ég myndi segja að vagn sé algjört möst fyrir börn 0-3 mánaða í svona ferð. Eftir það ætti kerra (með baki sem hægt er að halla niður) að vera alveg nóg. En það sem gerði þessa 3 daga svona erfiða var það að hún vildi ekki sofa á daginn, tók kannski 3x 15 mín samtals, sem er sko alltof, alltof lítið og alls ekki það sem hún var vön að gera heima.  Ég ætla ekkert að fara skrifa ritgerð um það hvað hún var erfið þessa daga, en þetta kom mjög á óvart en sem betur fer voru þetta bara 3 dagar, svo fór hún aftur yfir í það að vera “venjuleg” , sem sagt drekka á 2-3 tíma fresti og vildi sofa smá á daginn. En ég hafði samt engar áhyggjur af henni á meðan þessu stóð þar sem hún svaf vel á nóttunni og bleyjan var alltaf vel þung og hún kúkaði alveg um 8x á dag þarna úti þannig ég vissi að hún var svo sannarlega ekki að þorna upp í hitanum. Enda var hún rosalega dugleg að drekka hjá mér alla ferðina, hún vildi ekki ábót eða vatn í pela, bara boobs!

Loksins á degi 4 var eins og nýtt barn væri mætt, það var eiginlega smá fyndið. Við fórum niður í garð og settum hana undir sólhlífina og þar svaf hún í hreiðrinu sínu og leið mjög vel, en fyrstu þrjá dagana mátti ég ekkert leggja hana frá mér því þá grét hún bara. Þannig að vaxtarkippurinn var búinn og hún að venjast hitanum. Þannig að loksins gat maður andað aðeins og byrjað að njóta í botn! Og svo var hún svona út ferðina bara, en hún svaf samt alltaf mun styttra heldur en heima, var að taka 15-30 mín lúra hér og þar og átti mjög auðvelt með að vakna og var mjög vör um sig í vagninum, en við mamma vorum bara orðnar vanar þessu og spiluðum með það sem við höfðum. Vorum orðnar vanar því að hún vildi ekki hanga í vagninum og vorum duglegar að halda á henni þegar við vorum inni, en Lea vildi mest megnis bara vera hjá mér því hún var svo mikið að drekka.

En þessi ferð var alveg dásamleg! Fyndið að ég er búin að fara 2x út á þessu ári, fór til Thailands í janúar og svo Tenerife í september og voru báðar ferðirnar planaðar af mömmu og ef það væri ekki fyrir hana þá væri ég ekkert búin að fara út í ár. Oh þessi kona er svo dásamleg!!!! <3

En þessi færsla átti nú fyrst og fremst að vera svona “Tene tips” og “Að ferðast með ungabarn tips”

Mig langaði bara að segja frá þessu með Leu Þóru vegna þess að ég bjóst við því að þetta yrði bara þvílíkt easy peasy, en staðan var ekki alveg þannig fyrstu þrjá dagana. Þegar þau eru svona ung getur vaxtarkippur bankað upp á hvenar sem er. Lea var sem sagt að taka 6 vikna kippinn rúmlega 7 vikna gömul þarna úti, þannig að ég held að það sé best að vera undirbúin öllu þegar maður er að fara ferðast með ungabarn. Þó að ungabörn “eigi” að vera auðveldust að ferðast með þá var mín kona ekki alveg þannig, allavega ekki 30% af ferðinni og ég ætla klárlega að skrifa vaxtarkippinn á þetta ástand sem var í gangi.

En nú langar mig að deila með ykkur ýmsum hlutum sem gætu verið gagnlegir. Til að byrja með langar mig að segja að maður tekur kerruna með sér inn í flugstöðina (óþarfi að tékka hana inn) og svo er hún bara tekin áður en maður fer um borð og sett undir vélina. Bara passa að eiga kerrupoka, kerran er tryggð fyrir tjóni ef hún er vel pökkuð inn / í kerrupoka.

Flugvélin:

Barnabílstóllinn – maður fær ekki fyrirfram sæti fyrir svona kornabörn, nema maður kaupir það sérstaklega og ég held að fæstir geri það. Við vorum heppnar að fá sæti fyrir stólinn hennar báðar leiðir. Ég veit ekki hvað það er að kosta að kaupa sæti undir stólinn en ég myndi segja að það væri algjört must að hafa bílstólinn með út og líka í flugvélina. Það er ekki hægt að stóla á það að leigubílar séu með bakvísandi ungbarnastóla og hvað þá rútufyrirtæki, en við fórum með rútu til og frá flugvellinum og því var algjört must að hafa stólinn. Og líka í fluginu, ég hefði ekki getað hugsað mér að hafa hann ekki 😛 En ef það er ekki pláss fyrir hann (sæti) þá er hann bara tekinn áður en þú ferð í vélina. Mitt tips varðandi þetta er að mæta snemma á leiðinni út og biðja um góð sæti og bóka þá sæti fyrir stólinn og svo á leiðinni heim að tala við farastjórann (ef um svoleiðis ferð er að ræða eins og hjá okkur) og hún getur farið fram fyrir röðina og bókað sæti fyrir mann, hún gerði það fyrir okkur þannig við vissum strax að við værum komnar með sæti fyrir stólinn sem mér fannst æði og var því ekkert að stressa mig neitt í röðinni. En það er náttúrulega bara hægt ef það er laust, stundum eru vélarnar pakkaðar en það er alltaf reynt að koma á móts við mann 🙂 

Skiptitaskan – ef maður á ælupésa þá myndi ég taka með 2 fatasett bara til öryggis. Lea ælir, en við vorum heppnar að hún ældi ekki í vélinni og þurfti ég því ekki að skitpa um föt á henni, en lykilatriði að vera með aukaföt og nóg af þeim til öryggis! Tók aukaföt á mig, ef hún skyldi æla feitt á mig. Tók svo 2 taubleyjur, kúkailmpoka og NÓG af bleyjum. Var með um 10stk og skipti alveg á henni um 5x á leiðinni út, hún var svo mikið vakandi og var mjög busy að pissa og kúka 😉 Svo auðvitað bara nóg af blautþurrkum og svo eitthvað dót, þó hún hafi bara verið 7 vikna fannst henni gaman að glápa á flott og spennandi dót. Skiptitaskan var í raun handfarangurstaskan mín og hefði ég ekki viljað vera með meira með í vélina þar sem ég var auðvitað með barn og barnabílstól líka. Ég tók líka Manduca pokann með í vélina en það var algjör óþarfi, hefði mögulega vera must ef við hefðum ekki fengið sæti fyrir stólinn samt.

Það sem ég tók með fyrir Leu Þóru út:

Hún var mest megnis í stutterma samfellu í ferðinni. Ég tók með alltof mikið af fötum á hana! Þegar við vorum þarna þá var mjög heitt, ágúst er heitasti mánuðurinn á Tene og við vorum þarna frá 11. sept. Þannig að hún var aldrei í fötum, svaf 1x í náttgalla, 1x í stutterma samfellu en 8x bara á bleyjunni og með ekkert ofan á sér, það var það heitt og þannig leið henni best! Þannig að öll þessi fatasett sem ég tók með vöru óþarfi, hefði bara þurft samtals 4 sett með flugferðinni (1-2 í flugferðirnar, Lea var í sama settinu á leiðinni út og heim því hún ældi ekkert þannig þau voru enn alveg hrein á leiðinni heim). Ég hélt það yrði kalt á kvöldin og ég þyrfti að klæða hana í föt ef við værum að fara út að borða og svona en nei, alltaf var hún bara í stutterma samfellu og það var meira en nóg. Ef við vorum svo einhversstaðar með loftkælingu þá settum við teppi á hana. Betra að pakka minna segi ég og kaupa frekar föt á krílin úti ef það skyldi vanta, nóg af búðum út um allt 😉 En allavega, mæli með að taka helvíti mikið af taubleyjum, notaði alltaf taubleyju undir hana í hreiðrinu og í vagninum og til þess að þurrka ælu. Ég var með einhverjar 7 með mér en hefði alveg viljað hafa um 10 stk. Svo bara taka með NÓG af bleyjum, ég tók 3 pakka með út (hún var í stærð 2) og það komu ekkert svaka margar bleyjur með heim, 2 pakkar hefðu ekki sloppið. Auðvitað er hægt að kaupa bleyjur þarna úti, en ég fann ekki Libero og svo voru bleyjurnar líka bara dýrari en hér heima! Þar sem það er svo heitt þá nátúrulega drekka þau meira, svitna mikið og skila vel í bleyjurnar, þannig að ég t.d. var að skipta um bleyju allavega helmingi oftar þarna úti heldur en heima! Það er eitt sem mér fannst vera milljón prósent MUST að taka með og það var hreiðrið hennar! Hún svaf í því allar nætur og við tókum það með í garðinn okkar og hún gat því chillað í hreiðrinu sínu í “sólbaði” undir sólhlífinni og það var geggjað! Því hún nennti ekkert að hanga of mikið í vagninum. Tók einnig með nóg af svona undirlögum til að setja undir hana þegar ég var að skipta um bleyju, athugið svo að það eru oftast ekki skiptiborð á veitingastöðum þarna þannig ég skipti mjög oft á henni í vagninum og setti bara undirlag undir hana.

Það er sem svo algjörlega nauðsynlegt að kaupa þegar komið er til Tene (nú eða áður ef þið finnið hér heima sem ég efast um / pantið á netinu fyrirfram) er vifta á vagninn og sólhlíf. Vá hvað viftan bjargaði öllu. Viftan kom streymi á loftið í vagninum hjá Leu og þá gat maður labbað um áhyggjulaus, vitandi það að hún væri að fá smá kælingu og væri hreinlega ekki að kafna úr hita! Viftan kostaði 15 evrur og það þarf að hlaða hana og batterýið endist stutt og eins gott að mamma var með hleðslubanka, hann var nauðsynlegur þar sem við vorum oft lengi úti að labba út um allt og viftan hefði aldrei enst svona lengi og því kom bankinn alltaf til bjargar.

Og þið mömmur sem eruð að fara út og eruð með barn á brjósti þá er ég með mjög mikilvæg skilaboð til ykkar! Ég tók með mér alls kyns “Spánarföt” og ég notaði bókstaflega ekki eina svoleiðis flík, algjör óþarfi að eyða plássi í þessi föt. Maður er alltaf að gefa og það þýðir ekkert nema að vera í venjulegum bolum og hlýrabolum, annað er bara vesen. Það er amk mín reynsla. Reyndar tók ég með mér smá make up líka og opnaði ekki einu sinni snyrtibudduna. Einu snyrtivörurnar sem ég þurfti/notaði var svitalyktaeyðir, andlitskrem og svo sjampó og hárnæring. Splæsti ekki einu sinni í maskara á leiðinni heim, maður var orðin svo brún og sæt að það var engin þörf á að shine-a sig neitt upp 😉

 En það sem við gerðum þarna úti var alls konar! Við löbbuðum rosalega mikið og út um allt. Við elskum að labba um á nýjum stað og fyrsta daginn gengum við 18 km, hvorki meira né minna. Það var minna um sólbað í þessari ferð heldur en ef maður hefði ekki verið með eina 7 vikna skvís með sér en við vorum því mjög duglegar að labba um og vera meira á ferðinni. En fórum alveg nokkrum sinnum í garðinn hjá okkur að tana en vorum ekkert svaka lengi, bara eins lengi og Lea nennti og fórum svo af stað þegar hún var ekki að nenna meir. Við leigðum bíl tvisvar sinnum. Keyrðum einn daginn til Adeje (frekar stutt frá) og hinn til Santa Cruz (c.a. 50 mín) og fórum þar í moll til þess eins að fara í Primark og sáum ekki eftir því þrátt fyrir að hafa lesið mikið af lélegum umsögnum um þetta Primark á netinu! Það er sem sagt bara ein Primark á Tene. Fórum nú í fleiri búðir líka í leiðinni, en í mollinu var slatti af alls kyns sniðugum búðum. Við mamma erum alveg stórhættulegar í búðunum saman. Svo er einhver götumarkaður á fimmtu- og laugardögum kl 9-14 og er hann á Adeje, þið sem eruð að fara til Tene endilega skoðið það, við versluðum alveg smá á markaðnum og það er alltaf svo gaman að kíkja á svona markaði 🙂 

Búðir sem við versluðum í og mælum með eru Primark, H&M, C&A (barnafötin) , Pull and Bear, Stradivarius, Lefties, Guess og Zara/Zara kids. Það eru tvær H&M búðir í göngufæri frá amerísku ströndinni og sú þriðja sem við fórum í var í Santa Cruz. Við versluðum alveg slatta og vorum mjög sáttar með þessar búðir! C&A er með æðisleg og mjög ódýr barnaföt, mæli endalaust með henni og einnig Lefties. Ég var aðallega að versla á börnin en verslaði smá á Arnór og örlítið á mig. 

Hótelið sem við vorum á heitir Family Garden og er íbúðarhótel, það var mjög fínt og á mjög góðum stað á amerísku ströndinni. Eina sem ég hef út á það að setja er að það er engin loftræsting á hótelinu! Það hefði verið snilld að hafa viftu inn í herbergi en það var vifta fram í stofu. Við (mamma hehe) keyptum ferðina í gegnum Vita og það var flogið með Icelandair.

Neikvætt við Tene:

Langar aðeins að segja ykkur frá því að það er reykt ALLS STAÐAR þarna úti, það var að gera mig brjálaða. Það var án gríns eins og allir hugsi bara um rassgatið á sjálfum sér þarna úti þar sem fólk hikaði ekki við það að kveikja sér í einni glóðvolgri við hliðina á vagninum og bara alls staðar, já ég gaf mörgum illt augnarráð í þessari ferð og þurfti meira segja einu sinni að biðja einn asna að vinsamlegast færa sig þegar hann bókstaflega stóð 1 meter frá okkur og kveikti sér í, hann færði sig alveg heilan meter kauðinn. Þetta reykingadæmi fór mjög í taugarnar á mér og var það eina sem stuðaði mig svona þarna, ef það hefði ekki verið fyrir allar reykingarnar þá hefði ég verið mun duglegri að taka Leu upp úr vagninum þegar við vorum á röltinu en ég vildi reyna vernda hana frá þessum viðbjóð, hún var svo alltof lítil fyrir svona kjaftæði! Og fyrst ég er að kvarta.. þá er eitt annað þarna sem er alveg fáránlegt og er það aðgengi fyrir fatlaða og barnavagna, það er algjörlega ábótavant! Það er oft bara ekkert hægt að fara hingað og þangað því það eru bara tröppur sums staðar. En ég tók eftir því að á stöðum þar sem var nýlega byggt þá var þetta ekki svona, en á eldri byggingum þá var þetta yfirleitt alltaf svona. 

 Að lokum langar mig að segja ykkur að mér fannst allur maturinn á Tene bara rosalega góður og langar mig að mæla með þremur stöðum: Namaste, hann er á amerísku ströndinni og var við hliðina á hótelinu okkar, og NAMMI, fáið ykkur butter chicken, omfg hann er SVO góður, það góður að við fórum tvisvar! 10 af 10 mögulegum. Þið bara verðið að prófa og þakkið mér svo bara síðar. Svo er það staður sem er líka á amerísku ströndinni sem heitir Gula, staður í fínni kantinum en samt ódýrt, allavega miðað við Ísland! Geggjað fínn matur og flottur staður, hefði viljað fara 2x og prófa annan rétt, en ég fékk mér kjúklingaspjót og franskar, mamma fékk sér karrý kjúklingarétt og vorum við báðar mjög sáttar. Svo er það Montaditos, þetta er staður sem er hjá H&M sem við fórum í, er í lítil verslunarmiðstöð (úti) og minnir að Starbucks hafi líka verið þarna. Þetta eru sem sagt svona smábrauð og omæ þau voru svo góð, það eru skrilljón álegg í boði og þú finnur þér bara þau álegg sem þú vilt. Svo pöntuðum við einhverjar kjúlla bollur með og franskar. Sjúklega góður hádegismatur en alls ekki fínn staður, bara nice skyndibitastaður sem ég gef 100% meðmæli.

 

Þangað til næst..

𝒯𝒾𝓃𝓃𝒶

P.s. þið finnið mig á Instagram: tinnzy88

 

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply