Börn og uppeldi Börnin Fjölskylda Lífið Tinna

Fæðingarsaga – minn þriðji og seinasti keisari

Þegar ég byrja á þessari færslu eru fimm dagar síðan ég átti snúlluna mína og langaði mig að setjast niður og skrifa fæðingarsöguna á meðan ég man þetta allt saman, maður er neflilega svo ótrúlega fljótur að gleyma!

Við Arnór vorum sammála frá upphafi að við ætluðum að eignast þrjú börn og hafa stutt á milli þeirra og klára þetta ung. Allt fór samkvæmt plani og við eigum nú þrjú börn og það eru 5 og ½ ár á milli elsta og yngsta barns. Arnór er 27 ára og ég þrítug og við erum í skýjunum með þetta allt saman 🙂

67475779_10156585520089422_3631488668033613824_n
Krakkarnir að halda á systu <3 

Fyrst tímdi ég ekki að verða ólétt strax og eyða síðasta skiptinu mínu ólétt því það er eitthvað svo „final“ að klára þetta og allt svo dásamlegt í kringum þetta ferli en vá hvað ég er ótrúlega fegin núna að vera komin með hana í fangið og vera búin! Ég hugsaði svo mikið fyrstu tvo dagana eftir að hún fæddist bara vá, vá, vá hvað ég er fegin að hún sé komin út og bara never again! Þrír keisarar eru að mínu mati sko alveg meira en nóg, allavega fyrir minn kropp, úff þetta tekur neflilega alveg svakalega á og eftirköstin þannig að maður er hálf tjónaður í nokkrar vikur en alveg mjög tjónaður í 1-2 vikur, en það er auðvitað mjög einstaklingsbundið.

Þar sem barn nr 1 og 2 komu með keisara þá var aldrei neitt annað í stöðunni en að þetta barn kæmi líka með keisara. En barn nr 1 var bráðakeisari, missti vantið 39+1 og hann fæddist akkurat sólarhring seinna 39+2. Barn nr 2 var valkeisari, en þó ætlaði ég að reyna sjálf, en þetta endaði þannig að það var pantaður keisari fyrir mig þegar ég var gengin 40+1 og hafði ég þá þrjá daga til að fara sjálf af stað en þetta endaði svo þannig að ég mætti þremur dögum seinna upp á spítala eldhress og alls ekki komin af stað og fór því í valkeisarann gengin 40+4. Þannig að eftir að hafa farið í þessa tvo keisara þá vissi ég að ekki væri annað í stöðunni en að ég myndi fara í minn þriðja keisara, en þetta var þó eina meðgangan þar sem ég vissi það frá byrjun að ég myndi fæða með keisara.

Meðgangan gekk bara vel, en þó var þetta erfiðasta meðgangan, fyrstu tvær voru alveg „easy peasy“ en núna fékk ég grindargliðnum, það var ekki nice. En hún var ekki alvarleg sem betur fer, hún byrjaði frekar snemma eða um viku 17 þannig ég minnkaði strax við mig í vinnunni og vann 9-15 í stað 8:30-16 og það hjálpaði slatta og ég var bara alveg ágæt, misgóð á milli daga. Svo fékk ég svakalega illt í mjaðmirnar síðustu vikurnar og átti mjög erfitt með að sofa. Hætti svo að vinna þegar ég var gengin sléttar 36 vikur. Og á öllum þremur meðgöngunum fékk ég heiftarlegan brjóstsviða sem var oft á tíðum að gera mig geðveika!

En ég fékk tíma í keisarann með ágætis fyrirvara og var 23. júlí dagurinn, þá gengin 39+4. Ég var ekki farin fyrr af stað þannig ég mætti í keisarann á þessum degi, fyrsti dagur ljónsins! Ég var mikið búin að spá í því hvort hún yrði krabbi eða ljón og það kom svo sem ekkert á óvart að hún kom á fyrsta degi ljónsins og er því litla sæta ljónið mitt! Þannig að ég er bogamaður, hún er ljón. Systir hennar er vog og pabbi hennar og bróðir eru báðir steingeitur. Mér finnst gaman að stjörnumerkjum hehe.

Allavega.. Ég var beðin um að mæta upp á spítala kl 9/9:30, ég átti að vera skorin eftir hádegi. En svo fékk ég símtal daginn fyrir keisarann og var beðin að koma kl 7, sem ég var rosalega fegin með. Því maður þarf að fasta frá miðnætti fyrir aðgerðina, en þar sem ég átti fyrst að mæta um kl 9 og vera skorin eftir hádegi þá átti ég helst að vakna um kl 4 um nóttina og fá mér smá að borða, en ég slapp við það eftir að ég var beðin að koma kl 7 því þá var minna mál að fasta því biðin yrði styttri. Við vorum mætt upp á spítala kl 7 og ég gerði ráð fyrir því að daman myndi fæðast c.a. kl 11. Því þegar ég átti Elínu Köru í valkeisaranum þá var ég líka nr.2 í röðinni og átti að mæta kl 7 og hún fæddist kl 11.

67648403_10156585518274422_6938638109001121792_n
 

67726889_10156585519844422_8412402174654414848_n
Sexy mama! ..ekki? 

67318241_10156585518454422_4219646549019328512_n
Verið að bíða eftir keisaranum

En um kl 9:30 kemur ljósa inn og segir okkur að sú sem var nr. 1 í röðinni væri enn ekki farin á skurðstofuna (átti að fara um kl 8!) því það var verið að bíða eftir svæfingarlækni, dem! Ok ekkert mál, smá seinkun það skiptir engu við vorum bara róleg og vorum að horfa á sjónvarpið. En svo kemur hún aftur inn stuttu seinna og þá kom bráðakeisari, þannig að sú sem var nr. 1 í röðinni var enn ekki farin inn og biðin var að fara vera enn lengri. Það eina sem ég hugsaði var bara dem ég hefði getað mætt bara kl 10 og sofið í morgun í staðinn fyrir að vakna kl 06. Þannig ég sofnaði í svona 45 mínútur yfir sjónvarpinu, bjóst aldrei við því að geta sofnað, en ég var eitthvað svo pollróleg, þó ég væri kvíðin. Svo var klukkan orðin 13:20 og ég viðurkenni að ég var orðin smá pirruð þá, við vorum búin að vera þarna í rúmar 6 klst og ég náttúrulega ekkert búin að borða og ekki að fara borða neitt á næstunni. Og langaði líka bara rosalega mikið að klára þetta! En svo kl 13:30 koma þær inn og það er komið að mér, jibbý. Og þá vissi ég ekki að aðeins 50 mínútum síðar yrði hún komin!

Því þegar maður komin inn á skurðstofu er svo ótrúlega stutt eftir, þetta tekur svo stuttan tíma. Það var byrjað á því að mænudeyfa mig, eins og í síðasta keisara þá gekk það svona lala, tók smá stund og aftur þá tókst ekki að gera þetta nema fá manneskju nr 2 til að reyna og þá tók þetta 3 mín eftir það. En ég var svo sem góð, var alveg mjög stresuð en mun rólegri en í síðasta keisara! Í keisara nr 1 og 2 þá grét ég og grét á borðinu, algjörlega ósjálfrátt og ég gat ekki hætt. En núna var ég mjög róleg og grét ekki neitt, samt var ég mjög kvíðin fyrir aðgerðinni, s.s. kvíðin að eitthvað gæti gerst/komið upp á. En Arnór minn sat á móti mér á meðan það var verið að deyfa mig og hann greyið var orðinn alveg fölur og alveg að fara líða útaf og þær tóku hann aðeins fram til að jafna sig (hann á mjög erfitt með sprautur og blóð). En svo kom hann aftur inn og var bara góður eftir þetta. Sem er fyndið því ég var búin að biðja hann að taka upp video þegar lillan myndi fæðast og ég bjóst ekki við því að hann myndi höndla það og sagði honum að gera það bara ef hann treysti sér til, sem hann gerði svo, jess! Þvílík dásemd að eiga þetta video!

Allavega, eftir að búið var að deyfa mig lagðist ég niður og hlutirnir eru mjög fljótir að gerast eftir það. Það er testað hvort deyfingin sé farin að virka alveg og maður er spreyjaður með einhverju spreyji og á að segja hvort maður finni bara loft eða hvort maður finni kalt. Svo þegar það er komið þá er bara byrjað á þessu öllu saman.

Þau byrja aðgerðina og þetta gekk mjög vel, smá erfitt að komast í gegnum samgróningana, en hún var komin út stuttu seinna og fæddist kl 14:20, strax og hausinn kom út byrjaði hún að gráta kröftuglega, sko áður en búkurinn kom út haha. Læknunum fannst fyndið að hún hafi bókstaflega fæðst grejnandi. Ég fann þennan þvílíka létti í líkamanum þegar hún var tekin út og leið eins og ég væri 100 kg léttari, úff hvað það var gott!

En ég fékk svo að sjá hana c.a. 2 mín seinna eftir að fæðingarlæknir skoðaði hana og hún fékk fullt hús stiga og fékk því svo að vera hjá okkur allan tímann á meðan það var verið að loka mér. Læknunum fannst hún stór og héldu að hún væri um 4 kg og sögðu að ég hafi verið með mikið legvatn. En svo þegar hún var vigtuð var hún ekki nema 3760 gr (nákvæmlega jafn þung og systir sín þegar hún fæddist!) og 52 cm, öll börnin mín fæddust 52 cm.

Hún grét svo allan tíman á meðan við vorum þarna inni, (tók c.a. 20 mín að loka og sauma) elsku snúllan, með þessa svakalegu sogþörf <3 Mikið sem ég var fegin að fá hana út og í fangið mitt!

67730239_10156585518714422_1872998928132079616_n
Loksins komin! <3 

67259564_10156585519849422_7013419416679350272_n

En þetta var eini keisarinn þar sem mér leið ekki nógu vel eftir að barnið kom út, leið eins og ég væri að fá hjartaáfall, var illt í hjartanu með einhvern sting og leið bara mjög illa, þá var blóðþrýstingurinn að falla sem er algengt þegar maður fær mænudeyfingu og lyf til að draga legið saman. En ég fékk kaldan þvottapoka á ennið og eitthvað lyf í æð og leið fljótlega betur en svo varð ég rosa slöpp og þreytt í svona 10 mínútur og jafnaði mig svo. Mjög spes, lenti ekki í þessu í hin skiptin og þetta var mjög óþægilegt, en gekk sem betur fer fljótt yfir og er algengt að þetta komi fyrir, þ.e. að blóðþrýstingurinn falli og þau eru mjög fljót að bregðast við þegar þetta gerist.

67601807_10156585518984422_6057107951376662528_n
Hef verið betri..

En það er svo skrítið við keisarann að þó maður sé dofin þá finnur maður allt, allar hreyfingar og allt sem er verið að gera við mann, þetta er svona hnoð, alveg sársaukalaust samt! Þegar þau hófust handa við að byrja að loka þá var ég að hlusta á þau tala saman og heyrði ég að legið mitt væri eins og tyggjó, ég væri með tyggjóleg! Þegar aðgerðin var búin og fæðingarlæknirinn kom og talaði við mig þá sagði hún að aðgerðin hafi gengið mjög vel, en það hefðu verið samgróningar og svona sem er smá erfitt að vinna sig í gegnum og smá vesen að loka leginu aftur, en allt hafi gengið mjög vel. Þá spurði ég hana hvað tyggjóleg væri nú samt og hún fór að hlægja, hefur ekki vitað að ég var að hlusta á þau tala saman haha. Þá sagði hún að núna væri ég búin í þremur keisurum og ekki væri mælt með að konur færu í fleiri en 3-4, en það er auðvitað mjög einstaklingsbundið hvernig legið er hjá konum, en því fleiri keisara sem þú ferð í því meiri áhætta er á fylgikvillum eins og legrof, sýkingar, blæðingar og þess háttar skemmtilegheit. En hún tók fram fyrir aðgerðina að það er lítil sem engin áhætta fyrir börn að fæðast með keisara, þau geta fæðst með vot lungu, það gerist stundum þegar konur fara í keisara þegar þær eru ekki farnar af stað (því barnið sendir hormón frá sér þegar maður fer sjálfur af stað) og þá þurfa börnin stundum hjálp við að anda þegar þau koma út. Svo getur gerst að skorið sé í höfuð barnsins en hún sagði að það væri þá mjög grunnt og ekki alvarlegt og það myndi ekki einu sinni skilja eftir ör. Já það er sem sagt aðallega áhætta fyrir móður að fara í keisara en öruggt fyrir barnið. En þó ganga keisarar yfirleitt alltaf mjög vel og ef það koma fylgikvillar þá er það auðvitað bara tæklað.

 En hún sagði að í mínu tilfelli þá mælir hún gegn því að ég eignist fleiri börn þar sem legið mitt er orðið þreytt (tyggjóleg hehe), en sagði að auðvitað væri ekki hægt að banna konum að eignast fleiri börn en mælti samt sem áður gegn því í mínu tilfelli. Sem betur fer þá fannst mér þetta ekki sorglegar fréttir þar sem við erum 100% hætt og sátt við þrjú börn og mun Arnór svo fara í klippingu. En ef við hefðum ætlað að eignast fleiri börn þá hefðu þetta auðvitað verið mjög erfiðar fréttir.

67413930_10156585519069422_5939693432518737920_n
Snúllan mín 

67764153_10156585519229422_6839745086851383296_n

68270851_10156585519874422_6135631597203881984_n
Gott að kúra hjá pabba (að leita að brjósti haha)

En eftir að aðgerðinni var lokið þá var mér strollað bara beint upp á herbergi þar sem við svo vorum næstu tvær næturnar áður en við fórum heim. Lillan tók brjóstið mjög vel frá byrjun og er með þessa svakalegu sogþörf og þvílíkt dugleg á brjóstinu. Hún er búin að vera rosalega vær og góð frá byrjun og gerir ekki annað en að sofa, drekka, pissa og kúka hehe, allt eins og það á að vera! En daginn eftir að hún fæddist þá var ég frekar mikið verkjuð og átti bara frekar slæman dag, tók tvö grátköst og fékk auka verkjalyf. Ég bara grét og grét og var eitthvað ofur viðkvæm og verkjuð. Þetta tekur frekar mikið á og ég man eftir að hafa legið þarna og hugsað bara dísess kræst sko, never again! En maður er svo sem betur fer fljótur að gleyma! Svo á þessum sama degi kemur ein ljósa inn og segir að við gætum þess vegna farið heim um kvöldið, þyrfum ekkert að vera í tvo sólarhringa (sem manni býðst). Og ég hugsaði bara já einmitt, það er ekki fræðilegur möguleiki að ég sé að fara heim í kvöld! Mér hefur alltaf fundist alveg nauðsynlegt að nýta mér þessar tvær nætur sem maður fær og alls ekki verið tilbúin að fara heim fyrr. Svo er þetta auðvitað mjög einstaklingsbundið og ég þekki eina sem fór heim strax daginn eftir, alveg tilbúin til þess. En svo þegar heim er komið eru verkirnir alltaf að skána með hverjum deginum og eftir 1-2 vikur er maður orðin nokkuð brattur bara! En verkjalyfin hjálpa manni og þau eru alveg nauðsynleg fyrstu vikuna eftir fæðingu.

67331221_10156585519459422_565483528859418624_n
Að fara heim 🙂

Ef ég á að bera saman keisara mína þrjá og hver var „bestur“ þá verð ég að segja að keisari nr 1, bráðakeisarinn, var bestur! Þá vissi ég ekkert um keisara og ætlaði mér svo sannarlega aldrei í lífinu að lenda í svoleiðis vitleysu hehe. En mér fannst hann ganga svo vel því ég var nú þegar með mænudeyfingu sem hægt var að fylla á þannig ég gat bara beint farið í aðgerðina og hann kom svo fljótt út og ég var fljótust að jafna mig eftir hann, þegar hann var fimm daga gamall vorum við mætt til mömmu og pabba á áramótunum, ég klæddi mig upp og gerði mig fína og alles. Núna er ég líka á degi fimm og guð minn það síðasta sem ég nenni að gera í lífinu núna er að mála mig og fara út úr húsi. Ég sit hérna í meðgöngu bómullarbuxum, í meðgöngubol að skrifa þessa færslu alveg eins og einhver tuska hehe. Kannski spilar það líka inn í að ég á núna eina þriggja ára og einn fimm ára. En keisari nr 2 og 3 voru bara mjög svipaðir, en ég var meira andlega og líkamlega búin á því núna og alveg tilbúin til þess að gera þetta bara aldrei aftur haha. Mér finnst ég líka vera mun aumari og bólgnari á magasvæðinu núna og finnst ég ekki vera “skreppa” nógu fljótt saman og held því að ég verði því lengst að jafna mig núna, en það kemur bara í ljós 🙂 Núna þegar ég er að klára færsluna er snúllan mín vikugömul og það er himinn og haf á verkjunum núna og fyrir t.d. 3-4 dögum þannig þetta er allt saman að koma. Ljósan kom í heimsókn áðan og tók umbúðirnar og sagði að skurðurinn liti bara mjög vel út. Ég er sem sagt ekki heftuð eftir keisara þar sem ég er með mikið nikkel ofnæmi og því er ysta laginu ekki lokað með hefti heldur bara saumað og settir einhverjir svona strimla plástrar. Svo er spáð mjög góðu veðri á morgun og sagði ljósan að okkur væri óhætt að kíkja í göngutúr með vagninn ef ég treysti mér til, sem ég geri svo sannarlega og ég hlakka mikið til, ég hef alltaf elskað að labba með vagninn og taka langa göngutúra meðan þau lúra í vagninum og hafa það kósý.

67586376_10156585519889422_1863394187257315328_n
Já krakkarnir vilja sem sagt meina að hún heiti Demantadúlla og gáfu henni buffaló frá Óla prik með “nafninu hennar á” <3

67757081_10156585520049422_4405505932994281472_n
Fallegust!

Langar að taka það fram hvað mér fannst ég alltaf vera í öruggum höndum í keisurunum mínum, algjört fagfólk sem vinnur upp á LSH og í aðgerðunum mínum þá hef ég verið svo ánægð með þá sem hafa verið að, maður er svo upplýstur í aðgerðinni, manni er sagt hvað er að gerast og hvernig gengur og svona. Og þegar maður er kvíðin eða með einhverjar áhyggjur þá eru þau svo fljót að hughreysta mann og segja alla réttu hlutina og maður hættir þá að hafa áhyggjur og treystir því sem manni er sagt <3

67641563_10156585520654422_540150295624155136_n

67259565_10156585520584422_8461051406655160320_n

67256737_10156585520534422_7576727828071186432_n
Elín Kara elskar systu mjög mikið! <3

67246815_10156585520384422_8675888982220865536_n
<3

Mig langar að enda þessa færslu á einu sem hefur verið að fara gríðarlega í taugarnar á mér. Það eru komment eins og „Já fæddir þú ekki, fórstu í keisara“ eða „Já þú áttir hana ekki sjálf“ og „Þú áttir ekki eðlilega“ og þess háttar. SKO ég veit ekki betur en að börnin mín hafi öll komið út úr mér, þá fæddi ég þau væntanlega? Eru þau ófædd því þau komu ekki út um píkuna á mér? Keisari var ekki val hjá mér, amk alls ekki sá fyrsti og ég gekk ég gegum allt saman nema að koma honum út, ég upplifði hríðar og píndi mig í gegnum 9 klst af hörðum hríðum áður en ég gafst upp og bað um mænudeyfingu. Ég missti vatnið, ég var upp á spítala í 13 klst að reyna fæða þetta barn áður en ég þurfti að fara í bráðakeisara, en ég var með tvær óskir fyrir fæðinguna og það var engin mænudeyfing og alls enginn helvítis keisari, en neibb þessar tvær óskir klikkuðu svo sannarlega og maður stjórnar ekki hvernig þetta endar og bráðakeisari er gerður til þess að bjarga barni og/eða móður þegar ástandið er orðið svart. Sonur minn var kominn með dýfur í hjartsláttinn og var ekkert á leiðinni út og var skakkur og í framhöfuðstöðu + ég var föst með 9,5 í útvíkkun með einhverja „brú“ fyrir og með enga rembingsþörf og þegar hann fæddist var hann líflaus og blár og það þurfti að hjálpa honum að anda. Vil ekki einu sinni hugsa hvernig þetta hefði endað ef ég hefði ekki endað í keisara. Langaði bara að minna á þetta því keisari er ekki the easy way out heldur ætla ég að leyfa mér að fullyrða það að eftirköstin eftir keisara vs venjulega fæðingu (sem gekk vel) eru mun meiri. Ég hljóma kannski bitur, er það alls ekki málið, en finnst sumir ekki hugsa áður en þeir tala þegar kemur að keisaratali. Munum að við erum allar hetjur alveg sama úr hvaða gati börnin fæðast <3

67259779_10156585520119422_4468492710721880064_n

67285171_10156585520664422_6099267273044787200_n

67497928_10156585520459422_8891318442934665216_n

68454767_10156585520239422_388023292734210048_n

67310929_10156585520769422_2910599658898194432_n
Á leiðinni í 5 daga skoðun

67372587_10156586543349422_2458477230561427456_n

67773635_10156585520364422_7664448463462989824_n
Gæti étið hana! <3

 

Þangað til næst..

 

TF

Ef þið viljið fylgjast með okkur fjölskyldunni þá er ég á Snapchat og Instagram: tinnzy88. En þessa dagana er ég mest á Instastory 🙂

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply